Ferill 940. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1955  —  940. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980 (vinnutímaskráning starfsmanna).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Daníel Jónsson og Jón Þór Þorvaldsson frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Magnús M. Norðdahl frá ASÍ, Friðrik Jónsson og Ingvar Sverrisson frá Bandalagi háskólamanna, Heiðrúnu Björk Gísladóttur og Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins og Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá Vinnueftirliti ríkisins.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Samtökum atvinnulífsins og BSRB. Þá barst nefndinni minnisblað frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.

Efni frumvarpsins.
    Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA þess efnis að hérlendis hafi ekki verið innleidd að fullu ákvæði 3. gr., 5. gr. og b-liðar 6. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB, sem tekin var upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2004 frá 23. apríl 2004 um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn. Tilefni athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA er niðurstaða Evrópudómstólsins í máli C-55/18 um að ákvæði framangreindrar tilskipunar fælu í sér að atvinnurekendur í aðildarríkjum þyrftu að koma upp áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsfólks þeirra.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og lagt til að á eftir 57. gr. laganna komi ný grein þar sem kveðið verði á um að atvinnurekendum verði skylt að koma upp áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi til vinnutímaskráningar starfsfólks.

Umfjöllun nefndarinnar.
Réttindi starfsmanna samkvæmt lögum nr. 46/1980.
    Við meðferð málsins var fjallað um þau áhrif sem frumvarpið kann að hafa á réttindi starfsmanna að því er snertir lágmarkshvíld og hámarksvinnutíma starfsmanna, en um þessi atriði er fjallað í IX. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tilgangur vinnutímaskráningar, eins og hún er lögð til í frumvarpinu, sé að Vinnueftirlit ríkisins, eða eftir atvikum dómstólar, geti metið hvort skilyrði laganna um hámarksvinnutíma og lágmarkshvíld og vikulegan frídag séu virt, auk þess að starfsfólk geti hvílst síðar ef vikið er frá reglum um hvíldartíma og vikulegan frídag samkvæmt kjarasamningum eða lögum nr. 46/1980.
    Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur fram að með frumvarpinu sé gerð krafa um kerfisbundna vinnutímaskráningu sem nái til allra starfsmanna, óháð því hvort reyni á kröfur framangreindra laga eða ástæða sé til eftirlits með vinnu- og hvíldartíma. Jafnframt kemur fram í umsögn samtakanna að mikill fjöldi starfsfólks á vinnumarkaði vinni 7–8 klukkustunda vinnudag mánudag til föstudags en síður á kvöldin og um helgar. Þá sé reglubundinn vinnutími starfsfólks einnig undir 48 klukkustunda hámarksvinnutíma á viku, en í 1. mgr. 55. gr. laganna kemur fram að hámarksvinnutími starfsmanna á viku að yfirvinnu meðtalinni skuli ekki vera umfram 48 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili. Þá komi vinnutími starfsmanna fram í ráðningarsamningi og óþarfi að skrá hann frá degi til dags. Eðlilegra sé að skrá eingöngu frávik.
    Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar 22. maí 2023 er fjallað um að framangreindur dómur Evrópudómstólsins í máli C-55/18 sé skuldbindandi hér á landi. Niðurstaða dómstólsins hafi verið sú að atvinnurekendur í aðildarríkjum þurfi að koma upp áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna vinnutímaskráningar starfsfólks. Þá telur ráðuneytið ekki unnt að ganga skemur til þess að bregðast með fullnægjandi hætti við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Nefndin bendir á að með frumvarpinu er sú ábyrgð lögð á vinnuveitanda að halda utan um vinnutímaskráningu starfsfólks. Nefndin tekur undir það sem fram kemur í umsögn Samtaka atvinnulífsins og telur að nægjanlegt sé að vinnutími starfsmanns sé skráður í ráðningarsamningi ef hann er reglubundinn að jafnaði. Með því er ekki gengið skemur til þess að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA, enda kemur fram í minnisblaði ráðuneytisins að það sé á forræði hlutaðeigandi atvinnurekanda með hvaða hætti vinnutími skuli skráður og að sú leið sem henti viðkomandi starfsemi hverju sinni verði fyrir valinu. Telur nefndin að skráning reglubundins vinnutíma í ráðningarsamningi uppfylli þær kröfur. Þó telur nefndin að mikilvægt sé að gera þá kröfu til atvinnurekanda að skrá öll frávik frá reglubundnum vinnutíma starfsmanna. Leggur nefndin því til breytingu í þá veru.

Breytileg útfærsla vinnuveitenda.
    Fyrir nefndinni var rætt um þróun á vinnuumhverfi hér á landi í samhengi við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Fram komu sjónarmið um að vinnuumhverfi starfsmanna hefði þróast mjög undanfarin ár í átt að sveigjanlegri vinnutíma og að notkun stimpilklukku við vinnutímaskráningu færi sífellt minnkandi.
    Kom fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins að í frumvarpinu væri gerð krafa um að innleidd yrði stimpilklukka eða annað sambærilegt tímaskráningarkerfi á vinnustöðum þar sem engin þörf er á tímaskráningu og engin eftirspurn eftir henni af hálfu starfsfólks.
    Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir því að það verði á forræði hlutaðeigandi atvinnurekanda með hvaða hætti vinnutímaskráning fari fram og að sú leið sem henti hverju sinni verði fyrir valinu. Tekur ráðuneytið fram í minnisblaði sínu að mat þess sé að ekki sé gerð krafa um innleiðingu stimpilklukku eða sambærilegra skráningarkerfa á vinnustöðum.
    Nefndin tekur undir túlkun ráðuneytisins á ákvæðinu og telur mikilvægt að undirstrika þá afstöðu nefndarinnar að með frumvarpinu sé ekki gerð sú krafa til atvinnurekenda að þeir haldi úti stimpilklukku í hefðbundnum skilningi. Mikilvægt er að sú framþróun sem hefur átt sér stað á vinnumarkaði á liðnum árum, m.a. hvað varðar sveigjanlegan vinnutíma, haldi áfram og að frumvarpið standi ekki í vegi fyrir henni. Að lokum beinir nefndin því til aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda að huga að nánari útfærslu laganna þar sem framangreind sjónarmið verði höfð að leiðarljósi.

Breytingartillögur.
    Í umsögn Bandalags háskólamanna er lögð til breyting á orðalagi 1. málsl. 1. gr. frumvarpsins í þá veru að orðinu „hlutlægu“ verði bætt við fyrir framan orðin „áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi“, en félagið telur það betur í samræmi við orðalag dóms Evrópudómstólsins í máli C-55/18. Nefndin tekur undir það sjónarmið og leggur til breytingu í þá veru.
    Þá leggur nefndin til að 1. gr. frumvarpsins taki til þeirra atvika þar sem frávik verður frá því sem skráð er í skriflegum ráðningarsamningi og að slík tilvik verði skráð sérstaklega. Þannig verður atvinnurekendum skylt að skrá öll frávik frá ráðningarsamningi en ekki eingöngu þau tilvik sem talin eru upp í 2. málsl. 1. mgr. 1. gr.
    Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    Á eftir 57. gr. laganna kemur ný grein, 57. gr. a, svohljóðandi:
    Atvinnurekendum er skylt að koma upp hlutlægu, áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsmanna sinna þar sem meðal annars koma fram upplýsingar um daglegan og vikulegan vinnutíma sem og upplýsingar um á hvaða tíma sólarhrings unnið er, samfelldan hvíldartíma og vikulegan frídag. Einnig skulu koma fram upplýsingar um tilvik þar sem vikið hefur verið frá reglum um hvíldartíma og vikulegan frídag samkvæmt lögum þessum eða kjarasamningum sem og upplýsingar um hvort starfsmenn hafi í slíkum tilvikum fengið hvíld síðar.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er nægjanlegt að vinnutími starfsmanns sé skráður í ráðningarsamningi sé vinnutími viðkomandi starfsmanns reglubundinn að jafnaði og skulu frávik frá þeim vinnutíma skráð sérstaklega í samræmi við 1. mgr.
    Starfsmaður skal eiga þess kost að nálgast framangreindar upplýsingar 12 mánuði aftur í tímann.

Alþingi, 2. júní 2023.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Jódís Skúladóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Guðrún Hafsteinsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Halldóra Mogensen. Oddný G. Harðardóttir. Óli Björn Kárason.