Alexander Stefánsson

Alexander Stefánsson

Þingseta

Alþingismaður Vesturlands 1978–1991 (Framsóknarflokkur).

Varaþingmaður Vesturlands febrúar–mars 1972, febrúar–mars 1973 og febrúar–mars 1974.

Félagsmálaráðherra 1983–1987.

1. varaforseti neðri deildar 1979–1983.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Ólafsvík 6. október 1922, dáinn 28. maí 2008. Foreldrar: Stefán Sumarliði Kristjánsson (fæddur 24. apríl 1884, dáinn 14. nóvember 1968) vegaverkstjóri þar og kona hans Svanborg María Jónsdóttir (fædd 14. júní 1891, dáin 4. október 1978) húsmóðir. Maki (20. desember 1942): Björg Hólmfríður Finnbogadóttir (fædd 26. september 1921, 24. september 2013) húsmóðir. Foreldrar: Finnbogi Lárusson og kona hans Laufey Einarsdóttir, bróðurdóttir Jóns Þorkelssonar alþingismanns og Guðrúnar konu Holgers Clausens alþingismanns. Börn: Finnbogi Hólmsteinn (1943), Svanhildur (1945), Stefán (1946), Lára Alda (1948), Örn (1949), Atli (1953).

Héraðsskólapróf Laugarvatni 1940. Samvinnuskólapróf 1943.

Starfsmaður við kaupfélagið Dagsbrún í Ólafsvík 1943–1947, kaupfélagsstjóri 1947–1962. Skrifstofustjóri Ólafsvíkurhrepps 1962–1966, oddviti og síðan sveitarstjóri 1966–1978. Skipaður 26. maí 1983 félagsmálaráðherra, lausn 28. apríl 1987, en gegndi störfum til 8. júlí.

Oddviti í Ólafsvík 1964–1982. Formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi frá stofnun þeirra 1969–1976. Skipaður í endurskoðunarnefnd laga um tekjustofna sveitarfélaga 1971. Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1974–1982, varaformaður 1978–1982. Í stjórn Hafnasambands sveitarfélaga 1969–1982. Í stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga frá upphafi 1971–1982. Í bankaráði Útvegsbanka Íslands 1976–1983. Í stjórn Sjóminjasafns Íslands 1979–1983. Í Vestnorræna þingmannaráðinu 1987–1991, formaður. Í ráðninganefnd ríkisins, samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og ríkisfjármálanefnd, 1987–1991. Í stjórn Viðlagatryggingar Íslands 1991–1995. Formaður stjórnar Heilsugæslustöðvar Ólafsvíkurlæknishéraðs 1992–1994. Í stjórn Landssamtaka heilsugæslustöðva 1992–1994.

Alþingismaður Vesturlands 1978–1991 (Framsóknarflokkur).

Varaþingmaður Vesturlands febrúar–mars 1972, febrúar–mars 1973 og febrúar–mars 1974.

Félagsmálaráðherra 1983–1987.

1. varaforseti neðri deildar 1979–1983.

Æviágripi síðast breytt 12. september 2019.

Áskriftir