Guðmundur G. Þórarinsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Þingseta

Alþingismaður Reykvíkinga 1979–1983 og 1987–1991 (Framsóknarflokkur).

Varaþingmaður Suðurlands apríl–maí og nóvember–desember 1975.

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 29. október 1939. Foreldrar: Þórarinn Bjarnfinnur Ólafsson (fæddur 12. júlí 1920, dáinn 7. maí 1977) verkamaður og kona hans Aðalheiður Sigríður Guðmundsdóttir (fædd 18. september 1922, dáin 14. febrúar 1990) húsmóðir. Maki (31. desember 1961): Anna Björg Jónsdóttir (fædd 15. maí 1939) læknaritari. Þau skildu. Foreldrar: Jón Guðmann Bjarnason og kona hans Guðbjörg Sveinbjarnardóttir. Fyrrverandi sambýliskona: Sigrún Valdimarsdóttir (fædd 7. júní 1950) lyfjafræðingur. Foreldrar: Valdimar Pálsson og Sigurveig Jónsdóttir. Börn Guðmundar og Önnu Bjargar: Kristín Björg (1962), Þorgerður (1966), Jón Garðar (1968), Ólafur Gauti (1978). Sonur Guðmundar og Sigrúnar: Valdimar Garðar (1987).

Stúdentspróf MR 1959. Fyrrihlutapróf í verkfræði HÍ 1963. Byggingaverkfræðipróf Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn 1966.

Verkfræðingur við skipulagsdeild og síðar í gatnadeild hjá borgarverkfræðingi Reykjavíkur 1966–1970. Stofnaði eigin verkfræðistofu 1970 og rak hana til 1979, en breytti henni þá í fyrirtækið Fjölhönnun hf. í eigu starfsmanna. Verkfræðingur hjá Fjölhönnun 1984–1987. Stofnaði með öðrum Verkfræðistofu Suðurlands á Selfossi 1973. Sjálfstætt starfandi verkfræðingur síðan 1991.

Í stjórn Stéttarfélags verkfræðinga 1969–1971, varaformaður 1970–1971. Forseti Skáksambands Íslands 1969–1974 og síðan 1992. Forseti Skáksambands Norðurlanda 1970–1971. Borgarfulltrúi í Reykjavík og varamaður í borgarráði 1970–1974. Í hafnarstjórn Reykjavíkur 1970–1978. Í framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins 1973–1983, í miðstjórn síðan 1974, gjaldkeri flokksins 1979– 1983. Formaður byggingarnefndar Listasafns Íslands frá 1976. Stjórnarformaður Ríkisspítala 1987–1991 og 1995. Sat fundi Evrópuráðsins í Strasbourg 1980– 1987. Fulltrúi á fundi þingmannanefndar EFTA 1982. Formaður Verkfræðingafélags Íslands 1993–1994. Í ráðgjafastjórn verkfræðideildar Háskóla Íslands (SENAT) frá 1994. Formaður nefndar um samskipti heimilislækna og sérfræðinga 1995. Formaður samstarfsráðs sjúkrahúsa í Reykjavík 1995.

Alþingismaður Reykvíkinga 1979–1983 og 1987–1991 (Framsóknarflokkur).

Varaþingmaður Suðurlands apríl–maí og nóvember–desember 1975.

Ritstjóri: Árbók VFÍ (1995).

Æviágripi síðast breytt 23. september 2019.

Áskriftir