Halldór Stefánsson

Halldór Stefánsson

Þingseta

Alþingismaður Norður-Múlasýslu 1923–1934 (Framsóknarflokkur, Bændaflokkurinn).

2. varaforseti neðri deildar 1931–1933.

Minningarorð

Æviágrip

Fæddur á Desjarmýri 26. maí 1877, dáinn 1. apríl 1971. Foreldrar: Stefán Pétursson (fæddur 25. október 1845, dáinn 12. ágúst 1887) prestur þar, bróðir Björns Péturssonar alþingismanns, og kona hans Ragnhildur Björg Metúsalemsdóttir (fædd 7. september 1844, dáin 6. janúar 1923). Bróðir Björns R. Stefánssonar alþingismanns. Maki 1 (1. desember 1900): Björg Halldórsdóttir (fædd 15. maí 1881, dáin 13. október 1921) húsmóðir. Foreldrar: Halldór Benediktsson og kona hans Arnbjörg Sigfúsdóttir. Maki 2 (17. apríl 1928): Halldóra Sigfúsdóttir (fædd 26. júní 1909) húsmóðir. Foreldrar: Sigfús Gíslason og kona hans Herborg Halldórsdóttir (Halldóra var kjördóttir hennar, móðir Halldóru var Valborg Elísabet Tærgesen). Börn Halldórs og Bjargar: Ragnhildur Björg (1902), Arnbjörg (1903), Stefán (1905), Halldór (1907), Pétur Stefán (1911). Börn Halldórs og Halldóru: Ragnar Stefán (1929), Herborg Halldóra (1933).

Gagnfræðapróf Möðruvöllum 1897.

Verkstjóri og heimiliskennari á Egilsstöðum á Völlum og Skriðuklaustri í Fljótsdal næstu árin. Forstöðumaður söludeildar Pöntunarfélags Fljótsdalshéraðs á Seyðisfirði 1903–1909. Bóndi í Hamborg í Fljótsdal 1909–1921 og á Torfastöðum í Vopnafirði 1921–1928. Forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins (Brunabótafélags Íslands og Slysatryggingar ríkisins) 1928–1936 og Brunabótafélags Íslands 1936–1945.

Í stjórn Kaupfélags Héraðsbúa 1910–1921, formaður 1910–1911 og 1912–1921. Í hreppsnefnd Fljótsdalshrepps 1913–1919, oddviti 1914–1917, í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps 1922–1928, oddviti 1922–1926. Átti sæti í landsbankanefnd 1928–1935, formaður 1934–1935, í fulltrúaráði Íslandsbanka 1929–1930 og í milliþinganefnd um tolla- og skattalöggjöf landsins 1928–1932, formaður. Endurskoðandi Útvegsbankans 1930–1934. Stjórnarformaður Tryggingasjóðs sparisjóða 1944–1961.

Alþingismaður Norður-Múlasýslu 1923–1934 (Framsóknarflokkur, Bændaflokkurinn).

2. varaforseti neðri deildar 1931–1933.

Ritaði ævisögu: Ævislóð og mannaminni (1971), skrifaði bókina: Refskák stjórnmálaflokkanna. Þættir úr sögu stjórnmálanna 1917–1942 (1943) og samdi, skráði og bjó til prentunar ýmsan fróðleik um Austurland.

Æviágripi síðast breytt 4. september 2015.

Áskriftir