Ágúst Flygenring

Ágúst Flygenring

Þingseta

Konungkjörinn alþingismaður 1905–1913, alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1923–1925 (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn, Borgaraflokkurinn eldri, Íhaldsflokkurinn).

Æviágrip

Fæddur á Fiskilæk í Melasveit 17. apríl 1865, dáinn 13. september 1932. Foreldrar: Þórður Sigurðsson (skírður 30. júní 1822, dáinn 22. nóvember 1883) bóndi og hreppstjóri þar og kona hans Sigríður Runólfsdóttir (fædd 28. febrúar 1834, dáin 6. júní 1891) húsmóðir. Faðir Ingólfs Flygenrings alþingismanns. Maki (20. september 1892): Þórunn Stefánsdóttir (fædd 28. maí 1866, dáin 22. apríl 1943) húsmóðir. Foreldrar: Stefán Jónsson og 2. kona hans Gróa Sveinsdóttir. Börn: Þórarinn (1893), Garðar (1895), Ingólfur (1896), Þórður Stefán (1897), Sigurður (1898), Halldóra (1899), Ólafur Haukur (1900), Elísabet (1901), Þórunn Sigríður (1903), Unnur (1906), Anna (1907).

Nam seglasaum í Björgvin 1885–1886 og sjómannafræði í Mandal í Noregi 1890–1891, lauk þar stýrimannaprófi.

Skipstjóri á þilskipum 1886–1898. Kaupmaður og útgerðarmaður í Hafnarfirði 1899–1932, rak einnig seglasaumastofu í Hafnarfirði. Stofnandi sameignarfélagsins Dvergs og stjórnarformaður í 19 ár. Fluttist til Kaupmannahafnar 1931.

Kosinn 1907 í milliþinganefnd í skattamálum og 1911 í milliþinganefnd um fjármál landsins. Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði 1909–1920 og 1924–1926. Tók sæti í stjórn Landsverslunar 1918. Formaður stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 1910–1918.

Konungkjörinn alþingismaður 1905–1913, alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1923–1925 (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn, Borgaraflokkurinn eldri, Íhaldsflokkurinn).

Æviágripi síðast breytt 23. janúar 2015.

Áskriftir