Júlíus Havsteen

Júlíus Havsteen

Þingseta

Konungkjörinn alþingismaður 1887–1893 og 1899–1915 (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn).

Forseti efri deildar 1905–1907 og 1912. Varaforseti sameinaðs þings 1901–1903, 2. varaforseti efri deildar 1911, 1. varaforseti efri deildar 1914. Milliþingaforseti efri deildar 1913–1914.

Æviágrip

Fæddur á Akureyri 13. ágúst 1839, dáinn 3. maí 1915. Foreldrar: Jóhann Godtfred Havsteen (fæddur 3. mars 1804, dáinn 30. janúar 1884) kaupmaður þar, bróðir Péturs Havsteins amtmanns og alþingismanns, og kona hans Sophie Jacobine Havsteen, fædd Thyrrestrup (fædd 12. apríl 1814, dáin 1. ágúst 1881) húsmóðir. Maki (12. júní 1880): Johanne Margrethe Havsteen, fædd Westergaard (fædd 19. nóvember 1853, dáin 31. desember 1931) húsmóðir. Foreldrar: Otto Westergaard og kona hans Anna Westergaard, fædd Nielsen. Börn: Helga (1881), Otto Jakob (1884).

Stúdentspróf Lsk. 1859. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1866.

Dvaldist heima hjá foreldrum sínum á Akureyri uns hann réðst vorið 1867 fulltrúi amtmannsins í Holbæk á Sjálandi, gegndi því starfi til 1870, er hann varð aðstoðarmaður í íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn. Amtmaður í norður- og austuramtinu 1881–1893, í suður- og vesturamtinu 1894–1904. Sat á Akureyri meðan hann var amtmaður nyrðra, en fluttist síðan til Reykjavíkur og átti þar heima til æviloka. Skipaður 1904 forseti amtsráðs suðuramtsins og gegndi því embætti þar til amtsráðin voru lögð niður 1907.

Bæjarfulltrúi á Akureyri 1885–1893. Formaður samskota- og hjálparnefndar vegna jarðskjálftanna í Ölfusi 1896. Formaður yfirstjórnar Holdsveikraspítalans í Laugarnesi 1898–1908. Endurskoðandi Íslandsbanka í Reykjavík frá stofnun hans 1904 til æviloka. Gæslustjóri Söfnunarsjóðs frá 1905 til æviloka.

Konungkjörinn alþingismaður 1887–1893 og 1899–1915 (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn).

Forseti efri deildar 1905–1907 og 1912. Varaforseti sameinaðs þings 1901–1903, 2. varaforseti efri deildar 1911, 1. varaforseti efri deildar 1914. Milliþingaforseti efri deildar 1913–1914.

Ritstjóri: Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands (1875).

Æviágripi síðast breytt 10. febrúar 2016.

Áskriftir