Kjartan Ólafsson

Kjartan Ólafsson

Þingseta

Alþingismaður Vestfirðinga 1978–1979 (Alþýðubandalag).

Landskjörinn varaþingmaður (Vestfirðinga) nóvember–desember 1974, janúar–febrúar 1975, nóvember–desember 1977, febrúar–mars 1984, júní 1985 (Alþýðubandalag).

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur á Laugum í Súgandafirði 2. júní 1933. Foreldrar: Ólafur Jón Ólafsson (fæddur 16. apríl 1913, dáinn 26. apríl 1979) kennari, föðurbróðir Ólafs Þ. Þórðarsonar alþingismanns og afabróðir Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur varaþingmanns, og Sigríður Pétursdóttir (fædd 21. október 1910, dáin 14. desember 2003), móðursystir Ólafs Þ. Þórðarsonar alþingismanns og ömmusystir Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur varaþingmanns. Maki (20. september 1957): Gíslrún Sigurbjörnsdóttir (fædd 23. september 1934) handavinnukennari. Foreldrar: Sigurbjörn Einarsson og kona hans Magnea Þorkelsdóttir. Dætur: Edda (1958), Halla (1959), Signý (1960), Inga (1965), Katla (1975).

Stúdentspróf MA 1953. Nám í íslenskum fræðum í Háskóla Íslands 1954–1956, í germönskum fræðum í Vín 1956–1958, í heimspekideild Háskóla Íslands 1958–1960. BA-próf í þýsku og mannkynssögu HÍ 1961.

Framkvæmdastjóri Samtaka hernámsandstæðinga 1960–1962. Framkvæmdastjóri Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins 1962–1968. Starfsmaður Alþýðubandalagsins og Þjóðviljans 1969–1972. Ritstjóri Þjóðviljans 1972–1978 og 1980–1983.

Í miðstjórn Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins 1962–1968 og formaður hennar þann tíma, var einnig í framkvæmdanefnd flokksins flest þau ár. Í miðstjórn Alþýðubandalagsins 1968–1986, nema tvö ár, formaður hennar um skeið. Í framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins flest ár 1970–1983, formaður hennar eitt ár. Varaformaður Alþýðubandalagsins 1977–1983. Í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins 1978–1979. Í stjórn Þörungavinnslunnar 1979– 1984. Fulltrúi ráðherra í bankaráði Iðnaðarbankans 1979–1984. Í stjórn Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis 1984–1991. Formaður stjórnar Stofnunar Sigurðar Nordals 1990–1993.

Alþingismaður Vestfirðinga 1978–1979 (Alþýðubandalag).

Landskjörinn varaþingmaður (Vestfirðinga) nóvember–desember 1974, janúar–febrúar 1975, nóvember–desember 1977, febrúar–mars 1984, júní 1985 (Alþýðubandalag).

Hefur unnið að sögurannsóknum, birt greinar í tímaritum og ritað verslunarsögu Vestur-Skaftfellinga í þremur bindum (1987, 1991 og 1993). Árið 1999 kom út eftir hann bókin Vestfjarðarit I, Firðir og fólk 900-1900, Vestur-Ísafjarðarsýsla. Árið 2020 kom út bókin Draumar og veruleiki, um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn, stjórnmál í endursýn. Tvær greinar um Dýrafjarðarmál birtust í Sögu, tímariti Sögufélagsins; „Áform Frakka um nýlendu við Dýrafjörð“, Saga XXIV, 1986, og „Dýrafjarðarmálið - Jón forseti og Ísfirðingar á öndverðum meiði“, Saga XXV, 1987. „Vestanglæður“ í afmælisriti tileinkuðu Jóni Páli Halldórssyni, útgefnu af Sögufélagi Ísfirðinga 2004, og „Síðustu 40 dagar Jónasar Hallgrímssonar“, sérprent úr Undir Hraundranga, útgefnu af Hinu íslenska bókmenntafélagi 2007. Greinin „Ræningjahóll í gamla Rauðasandshreppi" í Fjöruskeljum, afmælisriti til heiðurs Jónínu Hafsteinsdóttur sjötugri, útgefnu af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 2011.

Ritstjóri: Þjóðviljinn (1972–1978 og 1980–1983).

Æviágripi síðast breytt 11. september 2023.

Áskriftir