Árni Jónsson

Árni Jónsson

Þingseta

Alþingismaður Mýramanna 1886–1892, alþingismaður Norður-Þingeyinga 1902–1908 (Heimastjórnarflokkur).

Æviágrip

Fæddur á Litluströnd við Mývatn 9. júlí 1849, dáinn 27. febrúar 1916. Foreldrar: Jón Árnason (fæddur 18. febrúar 1820, dáinn 13. ágúst 1875) síðar bóndi á Skútustöðum og kona hans Þuríður Helgadóttir (fædd 21. september 1823, dáin 10. desember 1902) húsmóðir. Bróðir Sigurðar Jónssonar alþingismanns og ráðherra. Maki 1 (22. september 1884): Dýrleif Sveinsdóttir (fædd 11. maí 1860, dáin 2. desember 1894) húsmóðir. Foreldrar: Sveinn Sveinsson og kona hans Anna Jónasdóttir. Maki 2 (17. mars 1896): Auður Gísladóttir (fædd 1. mars 1869, dáin 27. júlí 1962) húsmóðir. Foreldrar: Gísli Ásmundsson, hálfbróðir Einars Ásmundssonar alþingismanns, og kona hans Þorbjörg Olgeirsdóttir. Börn Árna og Dýrleifar: Þuríður (1885), Jón (1888). Börn Árna og Auðar: Dýrleif Þorbjörg (1897), Þorbjörg Dýrleif (1898), Gísli (1899), Þóra (1900), Gunnar (1901), Ingileif Oddný (1903), Ólöf Dagmar (1909).

Kennarapróf 1877 í Lindsay í Ontario í Kanada. Stúdentspróf Lsk. 1882. Guðfræðipróf Prestaskólanum 1884.

Fór til Vesturheims og stundaði þar ýmsa vinnu 1874–1877. Fékk Borg á Mýrum 1884, Mývatnsþing 1888 og sat á Skútustöðum. Fékk Hólma í Reyðarfirði 1913 og hélt til æviloka. Prófastur í Suður-Þingeyjarprófastsdæmi 1889–1913.

Skipaður 1904 í milliþinganefnd í kirkjumálum. Lengi í hreppsnefnd Skútustaðahrepps og oddviti um skeið. Sýslunefndarmaður í Suður-Þingeyjarsýslu 1889–1913.

Alþingismaður Mýramanna 1886–1892, alþingismaður Norður-Þingeyinga 1902–1908 (Heimastjórnarflokkur).

Æviágripi síðast breytt 16. febrúar 2015.

Áskriftir