Svavar Gestsson

Svavar Gestsson

Þingseta

Alþingismaður Reykvíkinga 1978–1999 (Alþýðubandalagið, Samfylkingin).

Viðskiptaráðherra 1978–1979, félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1980–1983, menntamálaráðherra 1988–1991.

Formaður þingflokks Alþýðubandalagsins og óháðra 1995–1999.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur á Guðnabakka í Stafholtstungum 26. júní 1944, dáinn 18. janúar 2021. Foreldrar: Gestur Zóphónías Sveinsson (fæddur 3. október 1920, dáinn 29. desember 1980) bóndi á Grund á Fellsströnd, síðast verkamaður í Hafnarfirði og kona hans Guðrún Valdimarsdóttir (fædd 28. mars 1924, dáin 16. desember 2016) verkakona í Hafnarfirði. Maki 1 (20. júní 1964): Jónína Benediktsdóttir (fædd 5. október 1943, dáin 29. maí 2005) ritari. Þau skildu. Foreldrar: Benedikt Kristinn Franklínsson og kona hans Regína Guðmundsdóttir. Maki 2 (29. maí 1993): Guðrún Ágústsdóttir (fædd 1. janúar 1947) borgarfulltrúi. Foreldrar: Ágúst Bjarnason og kona hans Ragnheiður Eide Bjarnason. Börn Svavars og Jónínu: Svandís (1964), Benedikt (1968), Gestur (1972).

Stúdentspróf MR 1964. Innritaðist í lögfræði við Háskóla Íslands 1964, nám í Berlín 1967–1968.

Vann með námi ýmis önnur störf, m.a. við Þjóðviljann, í verkamannavinnu, hjá Samtökum hernámsandstæðinga og hjá Alþýðubandalaginu. Fastur starfsmaður við Þjóðviljann frá 1968, ritstjórnarfulltrúi fyrst, en síðan ritstjóri hans 1971–1978. Skipaður 1. september 1978 viðskiptaráðherra, lausn 12. október 1979, en gegndi störfum til 15. október. Skipaður 8. febrúar 1980 félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, lausn 28. apríl 1983, en gegndi störfum til 26. maí. Skipaður 28. september 1988 menntamálaráðherra, lausn 23. apríl 1991, en gegndi störfum til 30. apríl. Aðalræðismaður í Winnipeg 1999–2001. Framkvæmdastjóri þúsund ára hátíðahaldanna í Kanada 2000. Sendiherra Íslands í Svíþjóð 2001–2006. Sendiherra Íslands í Danmörku 2006–2010. Sendiherra Íslands gagnvart Afríkusambandinu 2008.

Í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins nær samfellt 1968–1999. Formaður Útgáfufélags Þjóðviljans 1976–1983. Formaður ráðherranefndar EFTA 1979. Formaður Alþýðubandalagsins 1980–1987. Fulltrúi Íslands á fundi þingmannasamtaka EFTA 1985. Í öryggismálanefnd sjómanna 1986. Sat þing Alþjóðaþingmannasambandsins 1985 og 1992–1993. Í stjórnarnefnd Ríkisspítalanna 1987–1988 og 1992–1994. Formaður norrænna mennta- og menningaráðherra 1990–1991, formaður Norræna menningarsjóðsins 1995–1996. Í þingmannanefnd EFTA/EES 1995. Yfirskoðunarmaður ríkisreikninga 1992–1995. Í stjórn Landsvirkjunar 1995–1997.

Alþingismaður Reykvíkinga 1978–1999 (Alþýðubandalagið, Samfylkingin).

Viðskiptaráðherra 1978–1979, félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1980–1983, menntamálaráðherra 1988–1991.

Formaður þingflokks Alþýðubandalagsins og óháðra 1995–1999.

Hefur ritað fjölda greina um stjórnmál í blöð og tímarit. Út kom eftir hann 1995 bókin Sjónarrönd, jafnaðarstefnan - viðhorf. Sjálfsævisagan Hreint út sagt kom út 2012.

Ritstjóri: Nýja stúdentablaðið (1964). Þjóðviljinn (1971–1978). Var í ritstjórn tímaritsins Réttar á annan áratug. Ritstjóri tímaritsins Breiðfirðings frá 2015.

Æviágripi síðast breytt 19. janúar 2021.

Áskriftir