Sverrir Júlíusson

Sverrir Júlíusson

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Reyknesinga) 1963–1971 (Sjálfstæðisflokkur).

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Keflavík 12. október 1912, dáinn 30. apríl 1990. Foreldrar: Júlíus Björnsson (fæddur 25. júlí 1852, dáinn 5. september 1928) sjómaður þar og kona hans Sigríður Sverrína Sveinsdóttir (fædd 2. desember 1882, dáin 21. nóvember 1963) húsmóðir. Maki 1 (29. október 1932): Ágústa Kristín Ágústsdóttir (fædd 14. september 1908, dáin 20. janúar 2004) húsmóðir. Þau skildu. Foreldrar: Ágúst Sveinbjörnsson og kona hans Kristín Ólafsdóttir. Maki 2 (20. júní 1954): Ingibjörg Þorvaldsdóttir (fædd 25. júní 1925) húsmóðir og kennari. Foreldrar: Þorvaldur Böðvarsson og kona hans Gróa María Oddsdóttir, móðursystir Haralds Ólafssonar alþingismanns. Börn Sverris og Ágústu: Kristinn Ágúst (1932), Sigurður Júlíus (1934), Alma Valdís (1943). Börn Sverris og Ingibjargar: Anna Gunnhildur (1950), Oddný Guðrún (1956), Ólafur Hilmar (1959), Pétur Örn (1969). Synir Sverris og Hrannar Antonsdóttur Rasmussen: Gunnar Axel (1945), Óskar Finnbogi (1945), Garðar (1949). Sonur Sverris og Nönnu Guðrúnar Guðmundsdóttur: Guðmundur (1955).

Sótti námskeið í bókhaldsfræðum í Háskóla Íslands 1941. Nám í Bandaríkjunum 1946.

Símstöðvarstjóri í Keflavík 1928–1940. Útgerðarmaður og hluthafi í ýmsum útgerðarfélögum frá 1934, stjórnarformaður Ísvers hf. í Súgandafirði 1949–1962, Rastar hf. í Keflavík 1952–1961 og Snæfells hf. í Keflavík 1956–1962. Framkvæmdastjóri fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækisins Garðs hf. í Sandgerði 1941–1942. Stofnandi og annar eigandi heildsölufyrirtækisins Jónsson & Júlíusson í Keflavík 1941–1946. Stofnandi og framkvæmdastjóri Hraðfrystistöðvar Keflavíkur sf. 1942–1947, rak síðan fyrirtækið áfram með öðrum til 1952. Annar eigandi útgerðarfélaganna Hilmis sf. og Hilmis hf. 1969–1990. Í viðskiptanefnd 1947–1950. Forstjóri sölunefndar innflutningsréttinda bátaútvegsins 1951–1956. Varaforstjóri Innflutningsskrifstofunnar 1954–1960. Forstjóri Verðlagsráðs sjávarútvegsins frá 1961–1963. Forstjóri Fiskveiðasjóðs Íslands 1970–1982.

Formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna 1944–1970. Í stjórn Fiskimálasjóðs 1947–1980, formaður 1951–1956 og frá 1959. Skipaður 1950 í verðgæslunefnd og í stjórn skuldaskilasjóðs útgerðarmanna. Átti sæti í stjórn Útflutningssjóðs 1957–1960, í vörusýninganefnd og í bílaúthlutunarnefnd 1960–1961. Í fiskmatsráði frá 1960. Skipaður 1964 í endurskoðunarnefnd laga um Stýrimannaskólann í Reykjavík. Í bankaráði Landsbankans 1965–1968. Skipaður 1967 í nefnd til að semja drög að nýrri löggjöf um eftirlit með einokun, hringamyndun og verðlagi. Í bankaráði Seðlabankans 1969–1984, formaður ráðsins 1983–1984. Í stjórn Tryggingasjóðs fiskiskipa frá 1969 og í fiskimálaráði frá 1971.

Landskjörinn alþingismaður (Reyknesinga) 1963–1971 (Sjálfstæðisflokkur).

Æviágripi síðast breytt 7. október 2019.

Áskriftir