Smári McCarthy

Smári McCarthy

Þingseta

Alþingismaður Suðurkjördæmis 2016–2021 (Píratar).

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 7. febrúar 1984. Foreldrar: Eugene McCarthy (fæddur 9. apríl 1948, dáinn 11. júní 1994) verkamaður og Kolbrún Óskarsdóttir (fædd 15. ágúst 1949) verkakona.

Stúdentspróf FÍV 2004. Stundaði nám í stærðfræði við HÍ 2005–2007.

Ýmis fiskvinnslustörf samhliða grunnskólanámi. Forritari hjá SALT Systems 2000–2001. Forritari hjá Þjóðskjalasafni Íslands 2001–2002. Verkefnastjóri á umhverfis- og framkvæmdasviði Vestmannaeyjabæjar 2004–2007. Verkefnastjóri hjá Fab Lab, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, 2008–2009. Forritari hjá 1984 ehf. 2010–2012. Framkvæmdastjóri IMMI, alþjóðlegrar stofnunar um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, 2010–2013. Yfirráðgjafi (principal consultant) hjá Thoughtworks 2013–2014. Tæknistjóri (chief technology officer) hjá Organized Crime and Corruption Reporting Project 2014–2016.

Í stjórn nemendafélags FÍV 2003–2004. Í stjórn Stiguls, félags stærðfræði- og eðlisfræðinema, 2007–2008. Sjálfboðaliði hjá WikiLeaks 2010. Í stjórn Hakkavélarinnar 2010–2011. Í stjórn Stjórnarskrárfélagsins 2010–2011. Í stjórn IMMI 2013–2016. Formaður Evrópskra Pírata 2015–2017. Í samráðsnefnd um veiðigjöld síðan 2018. Formaður Pírata 2019–2020.

Alþingismaður Suðurkjördæmis 2016–2021 (Píratar).

Efnahags- og viðskiptanefnd 2016–2017 og 2018–2021, atvinnuveganefnd 2017–2018, utanríkismálanefnd 2017–2020.

Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES 2017 og 2017–2021 (formaður 2017–2021), þingmannanefnd Íslands og ESB 2017 og 2017–2021.

Æviágripi síðast breytt 27. janúar 2022.

Áskriftir