Gísli Rafn Ólafsson

Gísli Rafn Ólafsson
  • Kjördæmi: Suðvesturkjördæmi
  • Þingflokkur: Píratar

Þingseta

Alþingismaður Suðvesturkjördæmis síðan 2021 (Píratar).

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 20. mars 1969. Foreldrar: Ólafur Rafn Einarsson (fæddur 16. janúar 1943, dáinn 11. júní 1983) sögukennari, sonur Einars Olgeirssonar alþingismanns, og Jóhanna Axelsdóttir (fædd 2. desember 1943) grunnskólakennari, dóttir Axels Jónssonar alþingismanns. Fósturfaðir: Magnús Jón Árnason (fæddur 30. nóvember 1947, dáinn 11. mars 2001) kennari og bæjarstjóri. Maki 1: Guðbjörg Lind Valdimarsdóttir (fædd 30. desember 1972) dagmóðir. Þau skildu. Foreldrar: Valdimar Oddsson og Kristín Brandís Guðlaugsdóttir. Maki 2: Sonja Dögg Dawson Pétursdóttir (fædd 14. september 1973) byggingarverkfræðingur. Foreldrar: Pétur Kjartansson og Stefanía Una Stefánsdóttir. Synir Gísla og Guðbjargar Lindar: Ólafur Rafn (1995), Axel Örn (1997). Dætur Gísla og Sonju Daggar: Theodora Angel (1995), Chastity Rose (1996), Katla Maria (1998).

Stúdentspróf MK 1989. BS-próf í tölvunarfræði og efnafræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1994. Diplóma í þróunarfræði HÍ 2017.

Forritari í hlutastarfi hjá Axel – hugbúnaði 1984–1991. Forritari hjá Rank Xerox 1993–1994. Forritari hjá Taugagreiningu 1994–1996. Verkefnastjóri hjá Medtronic 1996–1998. Yfirverkefnastjóri hjá Microsoft 1998–2001. Tæknilegur ráðgjafi hjá IMG Capacent 2001–2002. Framkvæmdastjóri Griðlands ehf. 2002–2003. Stundakennari við HR 2001–2004. Sölu- og markaðsstjóri hjá Microsoft á Íslandi 2003–2007. Ráðgjafi ríkisstjórna og alþjóðastofnana í stafrænni umbyltingu hjá Microsoft 2007–2010. Yfirmaður neyðarmála hjá NetHope 2010–2015. Tæknistjóri hjá Beringer Finance 2015–2018. Ráðgjafi hjá NetHope 2019. Tæknistjóri hjá One Acre Fund 2019–2021. Leiðbeinandi hjá Icelandic Startups í ýmsum viðskiptahröðlum 2014–. Leiðbeinandi í viðskiptahraðlinum Snjallræði 2019–. Leiðbeinandi og ráðgjafi hjá viðskiptahraðlinum Antler í Austur-Afríku 2019–. Hefur einnig kennt og haldið fyrirlestra víða um heim.

Stjórnarmaður í Alþjóðasamtökum um tölvu- og upplýsingamál í hjálparstarfi (ISCRAM) 2013–2016. Varamaður í stjórn Rauða krossins á Íslandi 2018–2020. Stjórnarmaður í WeRobotics Inc. 2016–2020, ráðgjafi 2021–. Félagi í Björgunarsveit Hafnarfjarðar frá 1994. Í svæðisstjórn björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu 2001–2007 og 2018–2019. Stjórnandi Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar 2005–2010. Fulltrúi Íslands við stórslysastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDAC) 2005–2012. Í landsstjórn björgunarsveita 2007–2010. Í nefnd utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um alþjóðlegt hjálparstarf og tækni 2012–2017.

Alþingismaður Suðvesturkjördæmis síðan 2021 (Píratar).

Atvinnuveganefnd 2021–.

Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES 2022–2023.

Æviágripi síðast breytt 13. september 2023.

Áskriftir