Guðmundur Björnsson

(Tók sér ættarnafnið Björnson 1915)

Guðmundur Björnsson

Þingseta

Alþingismaður Reykvíkinga 1905–1908, konungkjörinn alþingismaður 1913–1915, landskjörinn alþingismaður 1916–1922 (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn).

Forseti efri deildar 1916–1922. Milliþingaforseti efri deildar 1915.

Minningarorð

Æviágrip

Fæddur í Gröf í Víðidal 12. október 1864, dáinn 7. maí 1937. Foreldrar: Björn Leví Guðmundsson (fæddur 14. febrúar 1834, dáinn 23. september 1927) síðar bóndi á Marðarnúpi í Vatnsdal og kona hans Þorbjörg Helgadóttir (fædd 6. nóvember 1839, dáin 28. apríl 1929) húsmóðir. Maki 1 (27. apríl 1895): Guðrún Sigurðardóttir (fædd 31. desember 1864, dáin 29. janúar 1904) húsmóðir. Foreldrar: Sigurður Björnsson og kona hans Margrét Dóróthea Bjarnadóttir. Maki 2 (14. ágúst 1908): Margrét Magnúsdóttir Stephensen (fædd 5. ágúst 1879, dáin 15. ágúst 1946) húsmóðir. Foreldrar: Magnús Stephensen alþingismaður og landshöfðingi og kona hans Elín Jónasdóttir Stephensen, fædd Thorstensen. Börn Guðmundar og Guðrúnar: Sigfús (1895), Solveig Þorbjörg (1896), Björn Bergmann (1898), Gunnlaugur Briem (1899), Jóhann Hendrik (1900), Ólöf (1902), Gunnar (1904). Börn Guðmundar og Margrétar: Magnús Stephensen (1909), Gunnlaugur Björnson (1912), Jónas Ólafur (1914), Stefán Eggert (1916), Glúmur (1918), Þórdís Ósk (1922).

Stúdentspróf Lsk. 1887. Læknisfræðipróf Hafnarháskóla 1894. Framhaldsnám í sjúkrahúsum í Kaupmannahöfn 1894.

Starfandi læknir í Reykjavík 1894–1895. Jafnframt kennari við Læknaskólann 1894–1895 í stað Schierbecks landlæknis í orlofi hans. Héraðslæknir í Reykjavík 1895–1906 og jafnframt kennari við Læknaskólann. Landlæknir og forstöðumaður Læknaskólans 1906, jafnframt ljósmæðrakennari. Prófessor við læknadeild Háskólans 1911. Orlof frá landlæknisstörfum 30. september 1921 um sex mánaða skeið, en jafnframt falið að undirbúa framkvæmd laga um varnir gegn berklaveiki. Lausn frá embætti 1931.

Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1900–1906. Í stjórn holdsveikraspítalans í Laugarnesi frá upphafi hans 1898. Skipaður 1913 formaður fánanefndar. Kosinn 1915 í velferðarnefnd. Skipaður 1917 formaður verðlagsnefndar og milliþinganefnd í fossamálum og 1922 í orðunefnd og átti sæti í henni til æviloka. Í bankaráði Íslandsbanka 1919–1930. Formaður Slysavarnafélags Íslands frá stofnun þess 1928–1932.

Alþingismaður Reykvíkinga 1905–1908, konungkjörinn alþingismaður 1913–1915, landskjörinn alþingismaður 1916–1922 (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn).

Forseti efri deildar 1916–1922. Milliþingaforseti efri deildar 1915.

Samdi margar greinar og bæklinga um lækningar og heilbrigðismál og ýmis önnur áhugamál sín, gaf út ljóðabók: Undir ljúfum lögum, með höfundarnafninu Gestur.

Æviágripi síðast breytt 27. september 2021.

Áskriftir