Hjálmar Árnason

Hjálmar Árnason

Þingseta

Alþingismaður Reyknesinga 1995–2003, alþingismaður Suðurkjördæmis 2003–2007 (Framsóknarflokkur).

Formaður þingflokks Framsóknarflokksins 2003–2007.

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 15. nóvember 1950. Foreldrar: Árni Waag (fæddur 12. júní 1925, dáinn 3. apríl 2001) kennari og kona hans Ragnheiður Ása Helgadóttir (fædd 5. júlí 1926) húsmóðir, bróðurdóttir Bjarna Ásgeirssonar alþingismanns og ráðherra. Maki 1 (sambúð): Bergljót S. Kristjánsdóttir (fædd 28. september 1950) lektor. Þau skildu. Foreldrar: Kristján Andrésson, hálfbróðir Kristins E. Andréssonar alþingismanns, og kona hans Salbjörg Magnúsdóttir, systurdóttir Ásgeirs Bjarnasonar alþingismanns. Maki 2 (6. janúar 1978): Valgerður Guðmundsdóttir (fædd 3. júní 1955) forstöðukona. Foreldrar: Guðmundur Rúnar Guðmundsson og kona hans Bryndís Ingvarsdóttir. Börn Hjálmars og Bergljótar: Ragnheiður (1972), Kristján (1975). Börn Hjálmars og Valgerðar: Ingvar (1979), Bryndís (1987). Kjördóttir Hjálmars, dóttir Valgerðar: Dagmar Guðmundsdóttir (1973).

Stúdentspróf MH 1970. Kennarapróf KHÍ 1979. BA-próf í íslensku HÍ 1982. M.Ed.-próf í skólastjórnun frá Bresku Kólumbíu-háskólanum í Kanada 1990.

Kennari við Grunnskóla Sandgerðis 1970–1972 og 1977–1978, Fróðskaparsetur Föroya 1972–1973, Flensborgarskóla 1973–1977, Holtaskóla í Keflavík 1978–1980, Víðistaðaskóla og starfaði í Fræðsluskrifstofu Reykjaness 1980–1981 og Fjölbrautaskóla Suðurnesja síðan 1981, skólameistari þar síðan 1985. Ýmis önnur störf, t.d. þáttagerð í útvarpi, löggæslustörf, blaðamennska og sjómennska.

Í stjórn Félags íslenskra menntaskólakennara 1975–1977. Í stjórn Samtaka móðurmálskennara 1980–1982. Í stjórn Skólameistarafélags Íslands síðan 1991, formaður þess um skeið. Í markaðs- og atvinnumálanefnd Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna. Í stjórn Fimleikafélags Hafnarfjarðar 1981–1983. Formaður Íþróttabandalags Reykjanesbæjar 1996–1999. Formaður nefndar á vegum iðnaðarráðuneytis um úrvinnslu léttmálma 1996–1997. Formaður vetnisnefndar iðnaðarráðuneytis frá 1997.

Alþingismaður Reyknesinga 1995–2003, alþingismaður Suðurkjördæmis 2003–2007 (Framsóknarflokkur).

Formaður þingflokks Framsóknarflokksins 2003–2007.

Iðnaðarnefnd 1995–2003 og 2006–2007 (formaður 1999–2003 og 2006–2007), menntamálanefnd 1995–1999 og 2003–2006, sjávarútvegsnefnd 1995–2006 og 2007, efnahags- og viðskiptanefnd 1999–2003, samgöngunefnd 1999–2003 og 2004–2007, félagsmálanefnd 2003–2004 (formaður), kjörbréfanefnd 2003–2007.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins 1995–1999, Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins 1995–1999, Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 1999–2007, Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins 2003–2007.

Hefur þýtt sögur og ljóð og samið kennslubækur og leiðbeiningarrit fyrir kennara.

Ritstjóri: Tímarit Stangveiðifélags Keflavíkur (1991–1994).

Æviágripi síðast breytt 7. nóvember 2019.

Áskriftir