Jón Johnsen

Jón Johnsen

Þingseta

Alþingismaður Árnesinga 1845–1850.

Varaforseti Alþingis 1847.

  Þingstörf

  Æviágrip

  Fæddur á Drumboddsstöðum í Biskupstungum 24. febrúar 1806, dáinn 7. júlí 1881. Foreldrar: Jón Jónsson Johnsen (fæddur 15. maí 1779, dáinn 1842, féll niður um ís á Þjórsá og drukknaði aðfaranótt 14. nóvember) umboðsmaður þar og kona hans Halla Magnúsdóttir (fædd um 1777, dáin 10. september 1851) húsmóðir. Faðir Jóns landritara og alþingismanns og bróðir Magnúsar Jónssonar alþingismanns í Bráðræði. Maki (11. mars 1837): Anna Cathrine Martine Johnsen, fædd Blichert (fædd 27. apríl 1817, dáin 2. desember 1882) húsmóðir. Foreldrar: Peder Arild Blichert og kona hans Anna Elisabeth, fædd Limschou. Börn: Jón (1841), Peder Arild (1843), Laura Petrine Elise (1846), Halla Valgerda Elisabeth (1848), Anna Elisabeth (1850), Thorstein Magnus (1852), Helga Larsine Knudine Ivare (1854), Anna Sophie Charlotte (1857), Bjarne Steingrim (1860).

  Stúdent úr heimaskóla hjá Árna biskupi Helgasyni 1825. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1830.

  Varð 1831 aðstoðarmaður bæjarfógeta í Kolding á Jótlandi. Skipaður 1836 2. yfirdómari og dómsmálaritari í landsyfirrétti, gegndi jafnframt embætti stiftamtmanns og amtmannsins í suðuramtinu fyrir Bardenfleth 1840–1841 og aftur fyrir Hoppe 1844–1845. Fór utan haustið 1846 og fékk aðra til að gegna dómarastörfum fyrir sig. Skipaður 6. maí 1848 bæjarfógeti og ráðsmaður í Álaborg, birkidómari í Álaborgarbirki og héraðsfógeti í nokkrum hluta Fleskum-héraðs, lausn 22. september 1873 vegna sjóndepru.

  Bæjarfulltrúi í Reykjavík 1844–1847. Fulltrúi Íslands á stjórnlagaþingi Dana 1848–1849. Skipaður 1845 í nefnd um landbúnaðar- og skattamál.

  Alþingismaður Árnesinga 1845–1850.

  Varaforseti Alþingis 1847.

  Tók saman: Jarðatal á Íslandi, með brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835–1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða á landinu (1847).

  Ritstjóri: Tíðindi frá Alþingi Íslendinga (1845–1847).

  Æviágripi síðast breytt 29. janúar 2016.