Jónas Jónassen

Jónas Jónassen

Þingseta

Alþingismaður Reykvíkinga 1886–1892, konungkjörinn alþingismaður 1899–1905 (Heimastjórnarflokkurinn).

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 18. ágúst 1840, dáinn 22. nóvember 1910. Foreldrar: Þórður Jónasson (fæddur 26. febrúar 1800, dáinn 25. ágúst 1880) dómari og alþingismaður og kona hans Dorothea Sophia Rasmusdóttir Jónassen, fædd Lynge (fædd 4. júlí 1808, dáin 26. janúar 1890) húsmóðir. Bróðir Theodórs Jónassens alþingismanns. Maki (30. nóvember 1871): Þórunn Pétursdóttir Jónassen, fædd Havstein (fædd 12. júní 1850, dáin 18. apríl 1922) húsmóðir. Foreldrar: Pétur Havstein alþingismaður og 1. kona hans Guðrún Hannesdóttir Havstein, dóttir Hannesar Stephensens alþingismanns. Dóttir: Guðrún Soffía (1873).

Stúdentspróf Lsk. 1860. Læknisfræðipróf Hafnarháskóla 1866. Dr. med. Hafnarháskóla 1882. Framhaldsnám febrúar–ágúst 1868, maí–september 1882 og júní–september 1892 í sjúkrahúsum í Kaupmannahöfn.

Staðgöngumaður Jóns Hjaltalíns landlæknis í utanför hans apríl–júní 1867. Settur 1868 aðstoðarmaður landlæknis við læknakennslu og jafnframt sýslulæknir í Kjósar- og Borgarfjarðarsýslum. Varð sama ár læknir við sjúkrahúsið í Reykjavík. Héraðslæknir í Reykjavíkurhéraði 1873–1895. Landlæknir 1895–1906. Kennari við Læknaskólann frá stofnun hans 1876 og forstöðumaður hans 1881–1882 og 1895–1906. Læknir við franska sjómannaspítalann í Reykjavík 1903–1905.

Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1888–1900.

Alþingismaður Reykvíkinga 1886–1892, konungkjörinn alþingismaður 1899–1905 (Heimastjórnarflokkurinn).

Samdi rit og greinar um veðurfar, heilbrigðismál, sjúkdóma og lækningar.

Æviágripi síðast breytt 9. febrúar 2016.

Áskriftir