Oddur Ólafsson

Oddur Ólafsson

Þingseta

Alþingismaður Reyknesinga 1971–1979 (Sjálfstæðisflokkur).

Forseti sameinaðs þings 1979.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur á Kalmanstjörn í Höfnum 26. apríl 1909, dáinn 18. janúar 1990. Foreldrar: Ólafur Ketilsson (fæddur 3. júlí 1864, dáinn 19. febrúar 1947) bóndi og hreppstjóri þar og kona hans Steinunn Oddsdóttir (fædd 7. janúar 1876, dáin 23. október 1957) húsmóðir. Maki (17. desember 1938): Ragnheiður Jóhannesdóttir (fædd 6. september 1911, dáin 23. febrúar 1996) húsmóðir. Foreldrar: Jóhannes Lárus Lynge Jóhannsson og 2. kona hans Guðríður Helgadóttir. Systir Guðnýjar konu Gils Guðmundssonar alþingismanns. Börn: Vífill (1937), Ketill (1941), Þengill (1944), Ólafur Hergill (1946), Guðríður Steinunn (1948), Jóhannes Vandill (1956).

Stúdentspróf MR 1929. Læknisfræðipróf HÍ 1936. Framhaldsnám í sjúkrahúsum í Reykjavík 1936–1937 og í Bandaríkjunum 1942–1943. Viðurkenndur 1943 sérfræðingur í berklalækningum.

Aðstoðarlæknir á Vífilsstöðum 1937–1942 og 1943–1945. Yfirlæknir vinnuheimilisins að Reykjalundi 1945–1972 og framkvæmdastjóri þess einn 1945–1948 og með öðrum til 1963. Læknir öryrkjavinnustöðvar Sambands íslenskra berklasjúklinga í Múlalundi í Reykjavík frá stofnun hennar 1959–1964.

Í stjórn Sambands íslenskra berklasjúklinga 1940–1984, í stjórnskipaðri nefnd til þess að undirbúa stofnun vinnuheimilis berklasjúklinga 1942. Í stjórn Berklavarnasambands Norðurlanda 1949, 1952–1960 og frá 1962. Í sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu 1953–1974. Formaður framkvæmdaráðs Rauða kross Íslands 1952–1955. Skipaður 1957 í úthlutunarnefnd bifreiða til fatlaðs fólks, formaður nefndarinnar 1963–1971. Kosinn 1959 í nefnd til að athuga starfsskilyrði aldraðs fólks og í milliþinganefnd í öryrkjamálum. Í stjórn Alþjóðasambands brjóstholssjúklinga 1960–1965. Í stjórn Öryrkjabandalags Íslands frá stofnun þess 1961, formaður 1961–1965. Í stjórn Öryrkjasambands Norðurlanda 1962–1982. Var í stjórn Domus Medica 1962–1986. Formaður stjórnar hússjóðs Öryrkjabandalags Íslands frá stofnun hans 1966. Skipaður 1970 formaður endurhæfingarráðs. Skipaður 1971 í endurskoðunarnefnd tryggingakerfisins og aftur í nýja nefnd 1975. Skipaður 1971 í nefnd til að auðvelda umferð fatlaðra. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1971 og 1973. Fulltrúi Íslands á fundi þingmannanefndar EFTA 1977. Stjórnarformaður Reykjalundar 1984–1988. Forseti Sambands íslenskra berklasjúklinga frá 1988 til æviloka.

Alþingismaður Reyknesinga 1971–1979 (Sjálfstæðisflokkur).

Forseti sameinaðs þings 1979.

Þegar hugsjónir rætast. Ævi Odds Ólafssonar á Reykjalundi, bók eftir Gils Guðmundsson, kom út 1993.

Æviágripi síðast breytt 18. febrúar 2020.

Áskriftir