Benedikt Bogason

Benedikt Bogason

Þingseta

Alþingismaður Reykvíkinga 1989 (Borgaraflokkur).

Varaþingmaður Reykvíkinga nóvember–desember 1987.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Laugardælum í Hraungerðishreppi 17. september 1933, dáinn 30. júní 1989. Foreldrar: Bogi Eggertsson (fæddur 25. nóvember 1906, dáinn 22. júlí 1987) bóndi þar, sonur Eggerts Benediktssonar alþingismanns, og kona hans Hólmfríður Guðmundsdóttir (fædd 31. desember 1906, dáin 27. mars 1972) húsmóðir. Maki (17. ágúst 1957): Unnur Svandís Magnúsdóttir (fædd 22. september 1933) tækniteiknari. Foreldrar: Magnús Brynjólfsson og kona hans Margrét Ólafsdóttir. Börn: Magnús Grétar (1958), Hólmfríður (1960).

Stúdentspróf MR 1953. Nám við verkfræðideild Háskóla Íslands 1953–1954. Próf í byggingarverkfræði við Tækniháskólann í Helsingfors 1961. Nám í umhverfisvernd við Nordiska Hälsovårdshögskolan í Gautaborg 1971.

Virkjanarannsóknir í Finnlandi 1960–1961. Framkvæmdastjóri Flóaáveitunnar og Ræktunarsambands Flóa og Skeiða 1961–1964. Stundaði ýmis verkfræðistörf og kennslu á árunum 1961–1964. Verkfræðingur hjá Steinstólpum hf. 1964. Verkfræðingur hjá Reykjavíkurborg 1964–1971. Stundakennari við Tækniskóla Íslands 1970, fastráðinn 1971–1973. Rak eigin verkfræðistofu í Reykjavík 1971–1980. Verkfræðilegur ráðunautur Framkvæmdastofnunar ríkisins 1980–1985. Fulltrúi forstjóra Byggðastofnunar 1985–1989.

Formaður Íþróttafélags MR 1950. Formaður Félags íslenskra stúdenta í Finnlandi 1960. Formaður SÍNE 1961. Í hreppsnefnd Selfosshrepps 1961–1964. Í stjórn Suomifélagsins í Reykjavík 1969–1980. Í stjórn Landsmálafélagsins Varðar 1972–1974 og 1980–1982. Í efnahagsnefnd ríkisstjórnarinnar 1981. Í nefnd til að endurskoða starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins 1981–1982. Formaður stjórnskipaðrar nefndar til að rannsaka stöðu útgerðar og fiskvinnslu 1981–1983. Í NKTF (Nordisk komité för transportforskning) 1981–1985. Í byggingarnefnd Ríkisútvarpsins 1981. Formaður Framfarafélags Seláss- og Árbæjarhverfis 1983–1989. Stjórnarformaður Hraðbrautar hf. 1981–1985. Í stjórn Límtrés hf. 1986–1989. Í jarðganganefnd 1986–1987. Í nefnd um stefnumörkun í sauðfjárrækt 1986–1987. Í verkefnastjórn Borgaraflokksins 1987–1988.

Alþingismaður Reykvíkinga 1989 (Borgaraflokkur).

Varaþingmaður Reykvíkinga nóvember–desember 1987.

Æviágripi síðast breytt 21. október 2019.

Áskriftir