Sigurður Eggerz

Sigurður Eggerz

Þingseta

Alþingismaður Vestur-Skaftfellinga 1911–1915, landskjörinn alþingismaður 1916–1926, alþingismaður Dalamanna 1927–1931 (utan flokka, Sjálfstæðisflokkurinn eldri, Sjálfstæðisflokkurinn þversum, Sjálfstæðisflokkurinn eldri, Frjálslyndi flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn).

Ráðherra Íslands 1914–1915, fjármálaráðherra 1917–1920, forsætisráðherra 1922–1924.

Forseti sameinaðs þings 1922. Varaforseti sameinaðs þings 1917.

Minningarorð

Æviágrip

Fæddur á Borðeyri 1. mars (kirkjubók: 28. febrúar) 1875, dáinn 16. nóvember 1945. Foreldrar: Pétur Friðriksson Eggerz (fæddur 11. apríl 1831, dáinn 5. apríl 1892) kaupstjóri og 2. kona hans Sigríður Guðmundsdóttir (fædd 28. maí 1847, dáin 10. júní 1926) húsmóðir. Bróðir Guðmundar Eggerz alþingismanns og mágur Ólafs Thorlaciusar alþingismanns. Maki (2. júlí 1908): Solveig Kristjánsdóttir (fædd 8. ágúst 1887, dáin 26. febrúar 1975) húsmóðir. Foreldrar: Kristján Jónsson alþingismaður og ráðherra og kona hans Anna Þórarinsdóttir, dóttir Þórarins Böðvarssonar alþingismanns. Börn: Erna (1909), Kristján Pétur (1913).

Stúdentspróf Lsk. 1895. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1903. Málflutningsleyfi við landsyfirréttinn 1906.

Settur um stuttan tíma sýslumaður í Rangárvallasýslu 1904, í Barðastrandarsýslu 1905 og í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1906. Aðstoðarmaður í atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu 1906–1907. Settur 1907 sýslumaður í Rangárvallasýslu. Sýslumaður í Skaftafellssýslu 1908–1914, sat í Vík í Mýrdal. Skipaður 21. júlí 1914 ráðherra Íslands, lausn 4. maí 1915. Sýslumaður í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum 1915–1917, sat í Borgarnesi. Var jafnframt póstafgreiðslumaður þar um hríð. Settur bæjarfógeti í Reykjavík 1917. Skipaður 28. ágúst 1917 fjármálaráðherra, lausn 12. ágúst 1919, en gegndi störfum til 25. febrúar 1920. Framkvæmdastjóri Smjörlíkisgerðarinnar í Reykjavík 1920–1922. Skipaður 7. mars 1922 forsætis-, dóms- og kirkjumálaráðherra, lausn 5. mars 1924, en gegndi störfum til 22. mars. Varð 1. apríl 1924 bankastjóri Íslandsbanka og gegndi því starfi þar til bankinn var lagður niður 3. febrúar 1930. Gerðist þá málaflutningsmaður í Reykjavík og rak þar málaflutningsskrifstofu um skeið. Sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði 1932–1934. Sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og jafnframt bæjarfógeti á Akureyri 1934–1945. Fluttist þá til Reykjavíkur og átti þar heima til æviloka.

Endurskoðandi Landsbankans 1920–1922. Skipaður 1924 í gengisnefnd, 1926 í alþingishátíðarnefnd, 1945 formaður nefndar er vera skyldi milliþinganefnd í stjórnarskrármálinu til ráðgjafar og aðstoðar.

Alþingismaður Vestur-Skaftfellinga 1911–1915, landskjörinn alþingismaður 1916–1926, alþingismaður Dalamanna 1927–1931 (utan flokka, Sjálfstæðisflokkurinn eldri, Sjálfstæðisflokkurinn þversum, Sjálfstæðisflokkurinn eldri, Frjálslyndi flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn).

Ráðherra Íslands 1914–1915, fjármálaráðherra 1917–1920, forsætisráðherra 1922–1924.

Forseti sameinaðs þings 1922. Varaforseti sameinaðs þings 1917.

Samdi leikrit, sögur og ljóð.

Æviágripi síðast breytt 3. september 2021.

Áskriftir