Sigurður Einarsson

Sigurður Einarsson

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Barðstrendinga) 1934–1937 (Alþýðuflokkur).

Minningarorð

Æviágrip

Fæddur á Arngeirsstöðum í Fljótshlíð 29. október 1898, dáinn 23. febrúar 1967. Foreldrar: Einar Sigurðsson (fæddur 4. október 1873, dáinn 27. desember 1939) bóndi þar og kona hans María Jónsdóttir (fædd 20. febrúar 1867, dáin 10. ágúst 1958) húsmóðir. Maki 1 (10. október 1925): Guðný Jónsdóttir (fædd 17. febrúar 1897, dáin 7. september 1973) hjúkrunarkona og húsmóðir. Þau skildu. Foreldrar: Jón Jónsson og kona hans Arndís Þorsteinsdóttir. Maki 2 (21. september 1944): Pálína Jóhanna (Hanna) Karlsdóttir (fædd 6. júlí 1910, dáin 15. júlí 1972) kennari og húsmóðir. Foreldrar: Karl Krautwürst og Ingibjörg Dósóþeusdóttir. Börn Sigurðar og Guðnýjar: Hjördís Braga (1926), Gunnvör Braga (1927), Sigurður Örn (1930). Sonur Sigurðar og Hönnu: Steinn Hermann (1946). Dóttir Sigurðar og Maríu Mörtu Ásmundsdóttur: Áslaug Kristín (1926).

Stúdentspróf MR 1922. Guðfræðipróf HÍ 1926. Framhaldsnám við Hafnarháskóla og námsför um Finnland, Þýskaland, Austurríki og Tékkóslóvakíu 1928–1929. Námsför um Svíþjóð, Pólland og Danmörku 1935. Framhaldsnám í Kaupmannahöfn 1936–1937. Námsför um Bretland, Ítalíu, Egyptaland, Líbanon, Sýrland, Jórdaníu, Ísrael og Grikkland 1957.

Prestur í Flatey á Breiðafirði 1926–1928. Eftirlitsmaður með kennslu í æðri skólum 1929–1930. Kennari við Kennaraskóla Íslands 1930–1937. Fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu 1931–1937, fréttastjóri 1937–1941. Dósent í guðfræði við Háskóla Íslands 1937–1944. Skrifstofustjóri í fræðslumálaskrifstofunni 1944–1946. Prestur í Holti undir Eyjafjöllum frá 1946 til æviloka. Kennari og prófdómari við Héraðsskólann í Skógum frá 1949 um árabil.

Stjórnarformaður Kaupfélags Flateyjar 1927–1928. Formaður Jafnaðarmannafélags Íslands 1931–1934. Í útvarpsráði 1943–1946.

Landskjörinn alþingismaður (Barðstrendinga) 1934–1937 (Alþýðuflokkur).

Afkastamikill rithöfundur, samdi kennslubækur og fræðirit, orti ljóð og sendi frá sér nokkrar ljóðabækur. Íslenskaði mörg erlend skáldrit, skrifaði fjölda greina í innlend og erlend tímarit og blöð.

Ritstjóri: Nýtt land (1936).

Æviágripi síðast breytt 18. mars 2016.

Áskriftir