Sigurður Jónsson

Sigurður Jónsson

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður 1916–1926 (Óháðir bændur, Framsóknarflokkur).

Atvinnumálaráðherra 1917–1920.

Varaforseti sameinaðs þings 1916–1917.

Æviágrip

Fæddur á Litluströnd við Mývatn 28. (kirkjubók: 27.) janúar 1852, dáinn 16. janúar 1926. Foreldrar: Jón Árnason (fæddur 18. febrúar 1820, dáinn 13. ágúst 1875) síðar bóndi á Skútustöðum og kona hans Þuríður Helgadóttir (fædd 21. september 1823, dáin 10. desember 1902) húsmóðir. Bróðir Árna Jónssonar alþingismanns á Skútustöðum. Afi Jónasar Jónssonar alþingismanns og búnaðarmálastjóra. Maki (6. október 1888): Kristbjörg Marteinsdóttir (fædd 30. mars 1863, dáin 28. febrúar 1938) húsmóðir. Foreldrar: Marteinn Halldórsson og kona hans Kristín Jónsdóttir, dóttir Jóns Jónssonar þjóðfundarmanns á Lundarbrekku. Börn: Jón (1889), Guðbjörg (1891) Marteinn (1893), Hólmfríður (1896), Kristín (1897), Þormóður (1903).

Ólst upp í Ystafelli hjá Guðbjörgu Aradóttur, ekkju séra Þorsteins Jónssonar frá Reykjahlíð og var síðan forráðamaður fyrir búi hennar til 1889. Bóndi í Ystafelli 1889–1917. Stundaði jafnframt kennslu á ýmsum stöðum í Suður-Þingeyjarsýslu á yngri árum og hélt unglingaskóla heima hjá sér öðru hverju 1875–1897. Ferðaðist um og flutti erindi um samvinnumál 1911–1915. Skipaður 4. janúar 1917 atvinnu- og samgöngumálaráðherra, lausn 12. ágúst 1919, en gegndi störfum áfram til 25. febrúar 1920. Fluttist þá aftur að Ystafelli og átti þar heima til æviloka.

Oddviti Ljósavatnshrepps 1888–1917. Sýslunefndarmaður 1886–1917. Átti sæti í stjórn Minningarsjóðs Jóns alþingismanns Sigurðssonar frá Gautlöndum frá 1. janúar 1920.

Landskjörinn alþingismaður 1916–1926 (Óháðir bændur, Framsóknarflokkur).

Atvinnumálaráðherra 1917–1920.

Varaforseti sameinaðs þings 1916–1917.

Ævisaga: Sigurður í Ystafelli og samtíðarmenn, eftir Jón Sigurðsson (1965).

Ritstjóri: Tímarit fyrir kaupfélög og samvinnufélög (kaupfélaga og samvinnufélaga). — Tímarit íslenskra samvinnufélaga (1907–1916).

Æviágripi síðast breytt 18. mars 2016.

Áskriftir