Bjarni Thorsteinson

Bjarni Thorsteinson

Þingseta

Konugkjörinn alþingismaður 1845–1846.

Forseti Alþingis 1845.

    Þingstörf

    Æviágrip

    Fæddur á Sauðhúsnesi í Álftaveri 31. mars 1781, dáinn 3. nóvember 1876. Foreldrar: Þorsteinn Steingrímsson (fæddur 1732, dáinn 19. október 1794) síðast bóndi í Kerlingardal og 1. kona hans Guðríður Bjarnadóttir (fædd 1736, dáin í desember 1811) húsmóðir. Faðir Árna Thorsteinsonar alþingismanns. Maki (22. júlí 1821): Þórunn Hannesdóttir (fædd 30. júlí 1794, dáin 28. mars 1886) húsmóðir. Foreldrar: Hannes Finnsson og 2. kona hans Valgerður Jónsdóttir. Systir Sigríðar 2. konu Árna Helgasonar alþingismanns. Synir: Finnur Vilhelm (1822), Steingrímur (1826), Árni (1828), Steingrímur (1831).

    Stúdentspróf Hólavöllum 1800. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1807.

    Varð ólaunaður varaskrifari í Björgvinjarskrifstofu Rentukammersins 1807. Skipaður skrifari í jarðamatsskrifstofunni 1808, skrifari í hinni þrándheimsku rentukrifstofu 1809. Skipaður fulltrúi í skrifstofu Aggerhúsmálanna 1811 og fulltrúi í rentuskrifstofu Íslands og Borgundarhólms 1815, er sú skrifstofa tók til starfa eftir breytinguna sem leiddi af skilnaði Noregs og Danmerkur, varð jafnframt dómari við sjóforingjaskólann 1819. Skipaður 1820 2. yfirdómari í landsyfirrétti, en tók aldrei það embætti. Skipaður 1821 amtmaður í vesturamtinu, sat á Arnarstapa, lausn 1849 og fluttist þá til Reykjavíkur. Jafnframt settur 1823 stiftamtmaður og amtmaður í suðuramtinu til 1824 og aftur 1825–1826.

    Var skrifari í verslunarnefndinni 1816, nefndarmaður í verslunarnefndinni 1834 og í nefnd sem skipuð var 1817 til þess að athuga hag Austur-Asíufélagsins danska. Einn af stofnendum Hins íslenska bókmenntafélags í Kaupmannahöfn 1816, forseti Kaupmannahafnardeildarinnar 1816–1819 og 1820–1821. Stofnaði Búnaðarfélag vesturamts 1838 og var formaður þess 1838–1854. Var í embættismannanefndinni 1839–1841 til undirbúnings endurreisn Alþingis.

    Konugkjörinn alþingismaður 1845–1846.

    Forseti Alþingis 1845.

    Skráði auk margs konar ritstarfa annarra eigin ævisögu sem birtist í Tímariti Bókmenntafélagsins 1903 og var endurprentuð í Merkum Íslendingum II (1947).

    Æviágripi síðast breytt 1. apríl 2015.

    Áskriftir