Gylfi Magnússon

Gylfi Magnússon

Þingseta

Viðskiptaráðherra 2009, efnahags- og viðskiptaráðherra 2009–2010.

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 11. júlí 1966. Foreldrar: Magnús Ragnar Gíslason (fæddur 19. júní 1930, dáinn 2. mars 2016) yfirtannlæknir og Dóra Jóhannsdóttir (fædd 23. október 1930, dáin 24. maí 2004), húsmóðir og aðstoðarkona tannlæknis. Maki: Hrafnhildur Stefánsdóttir (fædd 14. nóvember 1969) húsmóðir og háskólanemi. Foreldrar: Stefán Jóhann Hreiðarsson og Margrét Oddný Magnúsdóttir. Börn: Margrét Ragna (1998), Magnús Jóhann (2001), Stefán Árni (2003), Dóra Elísabet (2007), Jóna Guðrún (2007).

Stúdentspróf MR 1986. Cand. oecon.-próf HÍ 1990. MA–próf í hagfræði frá Yale University, Bandaríkjunum, 1991, M.Phil. 1994. Doktorspróf í hagfræði frá sama skóla 1997.

Sumarstörf hjá Vegagerð ríkisins 1982–1985 og á Morgunblaðinu 1986–1990. Stundakennari við Menntaskólann við Sund 1988–1990. Aðstoðarkennari við Yale University 1992–1995. Sérfræðingur á Hagfræðistofnun 1996–1998. Stundakennari við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands 1996–1998, aðjúnkt 1997–1998. Dósent við viðskiptaskor Háskóla Íslands 1998 og við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands 2008. Viðskiptaráðherra 1. febrúar 2009 til 10. maí 2009, efnahags- og viðskiptaráðherra til 2. september 2010.

Formaður viðskiptaskorar Háskóla Íslands 2000–2004. Forseti viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands 2004–2007. Formaður stjórnar sjóða á vegum Háskóla Íslands 2001–2009. Hefur einnig sinnt ýmsum öðrum stjórnunarstörfum á vegum Háskóla Íslands. Varaformaður stjórnar Kaupáss hf. 2000–2003. Í stjórn Sjúkrahúsapóteksins 2001–2005. Í stjórn Samtaka fjárfesta 2001–2007. Í stjórn Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþings, Kauphallar Íslands og Verðbréfaskráningar Íslands 2004–2006. Formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins 2005–2009. Í úthlutunarnefnd útflutningsverðlauna forseta Íslands 2005 og 2006. Formaður stjórnar Málræktarsjóðs 2006–2009. Varamaður í yfirfasteignamatsnefnd 2007–2009.

Viðskiptaráðherra 2009, efnahags- og viðskiptaráðherra 2009–2010.

Æviágripi síðast breytt 14. mars 2016.

Áskriftir