08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2700 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Nú er hafin 3. umr. um það frv. til stjórnarskipunarlaga sem hv. þm. Geir Hallgrímsson, Steingrímur Hermannsson, Svavar Gestsson og Magnús H. Magnússon hafa flutt. Og það er ljóst, eftir 2. umr. þessa máls, að það er a. m. k. í þessari hv. deild meirihlutavilji fyrir því að afgreiða þetta mál. En það hlýtur að teljast merkilegt, ef aðeins eitt er skoðað og, eins og oft er skynsamlegast tekið dæmi af þeim fjölmennasta, og það eru hv. þm. Sjálfstfl. og einkum þeir sem í stjórnarandstöðu eru.

Þegar frá er talin að mörgu leyti góð ræða hv. 1. þm. Vestf., þar sem hann reyndi að undirbyggja sinn málatilbúnað málefnalega, og það gerði hann vissulega hér áðan, hafa þessir menn augljóslega kosið að þegja. Þeim finnst þeir ekki skulda sínum umbjóðendum neitt. Þeir hafa kosið að taka þátt í þess háttar vinnubrögðum, sem oft áður hafa verið nefnd og eru auðvitað að því leyti til samsæri, að það er augljóst að þetta eru samantekin ráð nokkurra forustumanna og undirsátar hlýða. Ráðagerðin er um að láta líta svo út sem hér sé meira samkomulag en raunverulega er. Og ég endurtek það og geri enn, svo sem ég hef margoft gert áður við þessa umr., að í þessum efnum skáka þeir í skjóli þess að þetta sama lið hefur allmikil ítök í þeim sem yfir fjölmiðlum í landinu ráða. Með þessu er ekki verið að dylgja eitt eða neitt um óvönduð vinnubrögð af einu eða neinu tagi. Þetta eru bara staðreyndir málsins.

Vitaskuld er það svo, að ef hér væri um að ræða mál sem t. d. þm. Reykv. með glöðu geði vildu kynna fyrir sínum umbjóðendum í Reykjavík létu mennirnir ekki svona. Þá stæðu þeir uppi stoltir og færu út á meðal sinna umbjóðenda og segðu: Þetta er það sem við erum að gera í þágu réttlætis, réttinda ykkar. — En þeir gera ekki slíkt. Þeir sitja hér meira og minna niðurlútir, eru gjarnan ekki í þingsölum. Eftirtektarvert er t. d. að 1. flm. þessa frv., hv. þm. Geir Hallgrímsson, brýtur enn þær venjur, sem hér eru, að vera við umr. En ég treysti því að forseti sjái til þess að á kvöldfundi í kvöld, sem hefur verið þvingað fram, verði til andsvara a. m. k. 1. flm. þessa máls. Ég vek athygli á því, að við flóttalega framkomu hans í þessu máli hafa áður verið gerðar aths. og veit ég að forseti mun taka tillit til þess og sjá um að slíkt verði.

En þegar menn hafa staðið að máli sem þeir vilja flytja kinnroðalaust mæla þeir fyrir því. Þeir segja frá því á Alþingi hver séu rök fyrir því að leggja til svona mál og ekki einhvern veginn öðruvísi mál. En ekkert slíkt gera þeir. Þeir senda sinn fallna foringja í ræðustól, sem er 1. flm. þessa máls, og hann talar fyrir því, en hann fær engan stuðning frá sínum skoðanabræðrum í þessu máli, enda hafa þeir enga trú á þessu máli, þeir hálfskammast sín fyrir það og treysta því að andstaða við málið hér á hinu háa Alþingi sé svo máttlaus og verði svo máttlaus að það þurfi engan ótta að bera fyrir því.

Það er út af fyrir sig rétt að andstæðingar þessa frv. á hinu háa Alþingi koma að verulegu leyti úr sitt hvorri áttinni. Einn hópurinn af andstæðingum þessa byggir andstöðu sína á því, að það sé ekki gengið nógu langt til jöfnunar. Það eru ekki verri sjónarmið en hver önnur og þeim sjónarmiðum þarf að sýna virðingu. Annar hópur andstæðinga þessa máls byggir sjónarmið sín á því, að þeir óttast að í kjölfar þessarar opnu fjölgunar, sem hér er verið að leggja til og vísa þar með.í þskj. með þessu frv., gerist það, að hagur dreifbýlis verði skertur. Það eru út af fyrir sig sjónarmið líka og þau sjónarmið ber auðvitað að ræða. Ef þetta mál hefði borið að með eðlilegum hætti og hér hefðu farið fram sex umr., sem hefðu dreifst yfir tvo mánuði, sem auðvitað hefði verið hinn eðlilegi farvegur, væri ekki fjórflokkakerfið í þeim vanda sem það er. Vandinn skýrist kannske einnig með því að þeir setja einhvern sinn ljúfasta fulltrúa í forsetastól og láta hann sitja undir þessu alveg að ósekju. En það er auðvitað gert meðan hinir eru víðs fjarri.

Þriðji hópur andstæðinga þessa máls hefur að vísu aðeins enn um stundir einn fulltrúa hér á Alþingi. Þar er verið að mæla fyrir allt annars konar breytingu í átt til jöfnunar, í átt til efnahagslegs styrkleika, í átt til annars konar stjórnkerfis í allveigamiklum atriðum. Það er forsenda t. d. sem ég gef mér og sem veldur því að ég mæli gegn þessu frv. með þeim hætti sem ég hef gert og í svo löngu máli sem ég hef gert. Það er náttúrlega tómt rugl hjá hv. 1. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, sem nú er hlaupinn úr salnum, að vera að búa til einhverja samstæða sveit úr andstöðunni við þetta frv. Hún er auðvitað ekki til staðar og á ekki að vera til staðar. (Gripið fram í: Það sýnir sig.) Það sýnir sig. Allt er það rétt. En engu að síður er verið að búa til umr. um mál sem lengi hefur verið talið til meiri háttar nauðsynlegra breytinga í íslensku félagskerfi, þ. e. breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins.

Þvílíkt málefnalegt raus framgekk af munni hv. 1. þm. Reykv., Geirs Hallgrímssonar, hér í gær, sem er í stökustu vandræðum þegar hann er að verja þetta mál, að augljóst er að manninum líður illa og hann skammast sín fyrir það sem í þessu frv. stendur. Hvað segir hann? Hann segir að í því felist þversögn t. d. hjá mér eða öðrum þeim sem þessu frv. hafa mælt gegn að segja að frv. feli ekki neina breytingu í sér, en tala samt svo lengi fyrir því sem við höfum gert. Þetta er auðvitað alrangt vegna þess að ég t. d. er að reyna að gera eitthvað úr þessu frv. með því að flytja við það brtt. sem eru eitthvað og fyrir þeim mun ég mæla þegar ræðu minni fram heldur. Þetta er kjarni málsins.

Mitt langa mál hefur ekki fjallað um frv. sem ekkert er, enda auðvitað engin ástæða til, nema það, eins og sagt hefur verið, að í efnisleysi þessa frv. felst blekking við fólkið í þessu landi, vegna þess að allmargir — vegna lítillar kynningar — halda að þetta frv. sé allt annað og miklu meira en það raunverulega er. (Forseti: Hugmyndin var að fresta fundinum kl. 7 og ég leyfi mér að spyrja, hvort hv. þm. eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Já. (Forseti: Þá vil ég mælast til þess að hv. þm. taki þá til máls að nýju þegar fundi verður fram haldið kl. 9 í kvöld) Já, allt er þetta sjálfsagt, herra forseti. En ég mælist til þess að á fundi kl. 9 í kvöld verði þeir mættir sem eru flm. að þessu frv. og á því bera ábyrgð. Það er ástæðulaust að vera að halda hér fund með þeim hætti sem nú hefur verið. Ég óska eftir að forseti taki tillit til þessara óska. Eitt er að flytja mál og annað að skammast sín fyrir það. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég vil þá fram halda þeirri ræðu sem frá var horfið þegar fundinum var frestað kl. 19 í kvöld. Og gegn því sem forseti kann að halda þá ætla ég ekki að flytja ýkjalangt mál að þessu sinni en freista þess að gera grein fyrir þeim brtt. sem ég hef flutt til viðbótar við þær sem grein var gerð fyrir í gær.

Brtt. á þskj. 522 hljóðar svo, með leyfi forseta, og er eitt af lykilatriðum í stefnu Bandalags jafnaðarmanna: „Forsrh. skal vera þjóðkjörinn. Kjörgengur er hver sá maður sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis.

Forsrh. skal kjörinn beinum, leynilegum kosningum af þeim er kosningarrétt hafa til Alþingis. Frambjóðandi skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra manna og mest 3000. Kjósa skal í tveimur umferðum, ef nauðsyn krefur, og skulu tvær vikur líða í milli. Sá er rétt kjörinn er einfaldan meiri hluta hlýtur í fyrri umferð. Nái enginn frambjóðandi slíkum meiri hluta skal í síðari umferð kosið milli þeirra tveggja er flest atkvæði hlutu í fyrri umferð. Sá þeirra er þá rétt kjörinn forsrh. er fleiri atkvæði hlýtur. Ef aðeins einn maður er í kjöri er hann rétt kjörinn án atkvgr.

Að öðru leyti skal um framboð og kjör forsrh. ákveðið með lögum.“

Hér lýkur þeirri grein. Mér er það auðvitað ljóst að í atkvgr. á morgun mun þessi till. hljóta eitt atkv. En hún verður samt látin ganga til atkvæða vegna þess hve við álítum þetta mál veigamikið. Með till. til þál., sem flutt var um þetta mál og er 92. mál þessa þings, eru birtar sem fskj. tvær ritgerðir frá árinu 1945, önnur eftir Gylfa Þ. Gíslason og hin eftir Ólaf Jóhannesson, þar sem rök eru leidd að nákvæmlega því af hverju svona till. kemur fram, með nokkuð ólíkum hætti að vísu. Þessir menn, sem þá voru ungir háskólakennarar, voru báðir þeirrar skoðunar að svo skyldi breyta.

En áður en ég vík að því vil ég rifja upp að á árunum í kringum 1950 var mikil hreyfing í Framsfl. til nákvæmlega þessarar áttar, m. a. gáfu þeir út í fimm eða sex ár tímarit á Austfjörðum sem Gerpir hét, en fyrir því eru sögulegar ástæður, sem nú skulu raktar, og þær skipta máli í öllu þessu samhengi.

Árið 1949 fóru fram kosningar til Alþingis, eftir að setið hafði ríkisstjórn, sem Stefanía var stundum kölluð, undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Í marsmánuði árið 1950 var stjórnarkreppa hér á Alþingi sem oftar. Sveinn Björnsson þáverandi forseti leysti þá stjórnarkreppu með því að skipa utanþingsstjórn undir forsæti Vilhjálms Þór. Hann var framsóknarmaður, kaupfélagamaður en umdeildur að mörgu leyti. Með þessari aðferð var Framsfl. raunverulega rekinn inn í ríkisstjórn. Það vissu allir á þeirri tíð og var ekkert leyndarmál, að þetta var gert gegn vilja formanns flokksins, Hermanns Jónassonar, og gegn vilja afar margra þeirra sem þá voru skilgreindir sem vinstri kaupfélagamenn eða jafnvel framsóknarungmennafélagssinnar. Engu að síður, vegna þess hvernig þetta kerfi var úr garði gert, var þarna eins og löngum bæði fyrr og síðar mynduð ríkisstj. raunverulega í andstöðu við allmarga þingmenn, sem þó sáu sig nauðbeygða til þess að bera ábyrgð á slíkri stjórn vegna þess að þeim var hótað með utanaðkomandi stjórn.

Menn hafa stundum haldið uppi vörn fyrir eitthvað sem er kallað þingræði og fjallar um stjórnarmyndanir. En ég hygg að í öllu því sem um það er sagt gæti fullkomins misskilnings á þeim hluta Íslandssögunnar sem fjallar um það hvernig stjórnarmyndanir hafa farið fram í þessu landi, þá njörvun sem þar hefur átt sér stað í efstu toppum en í raun og veru gegn vilja mikils þorra fylgismanna, enda hefur þeim heldur farið fækkandi í þessu kerfi með árunum, svo sem menn vita. Þetta var það sem leiddi til þess, að það var mjög ákveðin hugmyndafræði innan Framsfl. á árunum í kringum 1950. Og enn fyrr, þegar menn voru að mynda hér stjórnarskrá og lýðveldið var stofnað 1944, eins og upplýstir menn auðvitað vita, þá var lýðveldisstofnun auðvitað ekkert annað en sú formbreyting að þar sem áður hafði staðið kóngur kom nú forseti. Öðrum stjórnarskrárbreytingum var raunverulega slegið á frest og þar tafði flokkavaldið mjög fyrir.

Stjórnarskráin, sem var mynduð 1944, var meingölluð. Hún var gölluð vegna þess að þetta var í öllum efnum stjórnarskráin frá 1874 nema að þar sem áður hafði staðið konungur kom nú forseti, enda var þá þegar sett á laggirnar stjórnarskrárnefnd. Þær hafa setið sleitulaust síðan. Mjög gjarnan hefur núverandi hæstv. forsrh. verið einhvers staðar nálægur þessum stjórnarskrárnefndum. Nú eru liðin hartnær 40 ár síðan þessi endurskoðun hófst og þetta er árangurinn sem flokkakerfið er hér að leggja fram. Er ævistarf hæstv. forsrh. vonandi merkilegra á einhverjum öðrum sviðum en í umbótum stjórnarskrárinnar, en látum það liggja á milli hluta.

Ungir upplýsingarmenn rituðu um stjórnarskrármál á sínum tíma og tvær slíkar ritgerðir, sem birtust í tímaritinu Helgafelli árið 1945, eru prentaðar sem fskj. með þeirri þáltill. sem prentuð var í Gutenberg í 5000 eintökum svo sem kunnugt er. Fyrri ritgerðin er eftir Gylfa Þ. Gíslason. Hann segir, með leyfi forseta, og ég undirstrika að þetta er á árinu 1945:

„Meginágallar þeirra stjórnhátta, sem vér eigum nú við að búa, virðast mér þessir:

1. Ríkisstjórnin er hvergi nærri nógu föst í sessi, hefur ekki nægileg völd og er þess vegna lítt fær um að gera áætlanir um framkvæmdir til langs tíma og stýra þeim. Hún er ennfremur alltof háð stjórnmálaflokkunum, þar eð þeir eða einhverjir þeirra beinlínis tilnefna hana. Hlýst af því ýmislegt, sem miður fer í opinberu lífi, þar eð reynslan hefur sýnt að stuðningsmenn telja sig oft eiga hönk upp í bakið á þeim sem þeir hafa lyft í valdastólinn, og erfitt getur reynst að halda því sæti án ýmiss konar umbunar“. Þetta er árið 1945. Hugi menn að skipan í embætti flugmálastjóra árið 1983 — og mætti sennilega fara víðar yfir völlinn.

Enn er sagt árið 1945, með leyfi forseta, það er liður númer þrjú: „Hin nánu tengsl framkvæmdarvaldsins við stjórnmálaflokka valda því, að menn eru oft og einatt fremur valdir til trúnaðarstarfa eftir stjórnmálaskoðun og fylgispekt við valdhafa en hæfileikum og dugnaði. Hafa það nú lengi verið ein hvimleiðustu og jafnframt víðsjárverðustu einkenni á opinberu lífi þjóðarinnar, að nauðsynlegt hefur þótt að hafa flestar nefndir skipaðar flokksfulltrúum, og stuðningsmenn ríkisstjórna hafa átt öðrum greiðari aðgang að embættum og trúnaðarstörfum. Auðvitað er ekkert athugavert við það að valdamaður veiti flokksbróður stöðu ef hinn síðarnefndi er vel að henni kominn. En stjórnmálatengsl og kunningsskapur virðast í þessum efnum oft hafa verið mun þyngri á metunum en skyldi og jafnvel valdið því, að lítt hæfir menn hafa valist til þýðingarmikilla starfa, en ríkisvaldið farið á mis við starfskrafta ágætra manna. Það, að vera í stjórnmálum á öndverðum meiði við valdhafa, hefur jafnvel virst svo vís trafali á vegi til trúnaðarstarfa, að ungir menn hafa oft talið það nálgast skerðingu á skoðanafrelsi sínu, og ekki með öllu að ástæðulausu.“

Þetta gefur að vísu tilefni til að minna á að það er ekki alveg sama hver stjórnmálaskoðunin er. Þekktur Reykvíkingur í eina tíð, Haukur pressari á að hafa sagt um sjálfan sig að hann væri ópólitískur maður í landsmálafélaginu Verði. Það virðist hafa verið svo hér löngum að tengsl við einn stjórnmálaflokk öðrum fremur hafi verið skilgreind með þeim hætti að þar færi ópólitískt fólk, og ef það skiptir máli nákvæmlega í þessu sambandi, til að mynda í einhverju stærsta valdaapparatinu í þessu landi sem er borgarapparatið í Reykjavík. En þessi lýsing frá 1945 á með ótrúlegum hætti við á árinu 1983.

Gylfi Þ. Gíslason segir í þessari ritgerð frá 1945: „Til þess að festa ríkisstjórnina í sessi og gera hana óháða stjórnmálaflokkunum verður að gera löggjafar- og framkvæmdarvaldið mun óháðara hvort öðru en nú er. Í því skyni virðist einkum þrennt koma til greina, sem sé að þjóðkjörinn forseti tilefni stjórnina, sem síðar starfi á ábyrgð hans, — að þingið kjósi ráðherrana til ákveðins tíma — og að kjósendur velji ráðuneyti um leið og þingmenn. Hér er ekki rúm til þess að bera leiðir þessar saman, en ég tel hið fyrst nefnda æskilegast.

Forseti (það er það sama og við nú köllum forsrh.) á að taka vald sitt beint frá þjóðinni og vera hinn æðsti handhafi framkvæmdarvaldsins. Kveða ætti svo á að hann skyldi hafa meiri hluta greiddra atkvæða, og yrði þá sennilega að kjósa öðru sinni, bundinni kosningu, ef svo færi ekki við fyrsta kjör. Staða hans gagnvart Alþingi ætti að vera sterk, og einmitt þess vegna er æskilegt að hann hafi meiri hluta kjósenda að baki sér. Hann ætti að staðfesta lög og geta synjað um staðfestingu, þar til þjóðaratkvæði hefði gengið um frv., og hann ætti að hafa heimild til þess að rjúfa þingið og fyrirskipa kosningar.“ Síðarnefndri till. er ég nú raunar ósammála. „Ennfremur ætti hann að tilnefna ráðh. og ættu þeir ekki að mega vera alþm., en hafa þó rétt til að bera fram frv. og taka þátt í umræðum á Alþingi.“

Síðan segir og það skiptir máli: „Mér kæmi ekki á óvart þótt einhverjir nefndu þetta spor í einræðisátt. Það er orðin venja sumra að nefna allt, er rýrir áhrif stjórnmálaflokka, skerðingu á lýðræði.“ Nákvæmlega þetta hygg ég vera mikinn kjarna þeirrar umr. sem hér hefur farið fram. „Svo er þó vissulega ekki. Lýðræði er í því fólgið að sameiginlegum málum þjóðar sé stjórnað að vilja meiri hluta hennar — eða a. m. k. ekki gegn honum — eins og hann birtist í frjálsum kosningum, og að sérhver minni hluti eigi þess kost að afla skoðun sinni fylgis og verða meiri hluti, en þess vegna er prentfrelsi, félagafrelsi og fundafrelsi hyrningarsteinar lýðræðis. Ofangreind skipun hefur engin áhrif á þessi meginatriði lýðræðisins. Alþingi mótar auðvitað heildarstefnu ríkisvaldsins með löggjöf sinni, en það gerir ekkert annað, og samkv. eðli sínu á það ekkert annað að gera en setja lög. Forseti og ríkisstjórn framkvæma þau síðan með aðstoð embættismanna sinna. Auðvitað hefur framkvæmdin verulega stjórnmálaþýðingu, en þar eð forseti er þjóðkjörinn og hefur meira að segja meiri hluta kjósenda að baki sér, ætti ekki að vera meiri hætta á að framkvæmdarvaldinu væri beitt gegn meiri hluta þjóðarinnar en löggjafarvaldinu.“ Enn segir: „Hér er og um að ræða mjög svipað fyrirkomulag og í Bandaríkjunum, hinu helsta lýðræðislandi heims, og virðist skipun þessi ekki hafa orðið þar til skerðingar á lýðræðinu, heldur þvert á móti fest það í sessi.“

Svona mætti halda áfram. Þetta er löng ritgerð, herra forseti, og ég vísa upplýstum hv. þm. á hana og veit auðvitað að þeir hafa lesið þetta allt meira og minna. Á bls. 7 segir, sem líka skiptir máli: „Eitt af því, sem miður fer í opinberu lífi voru, er það, að alþm. hafa ekki aðeins gerst forsvarsmenn umbjóðenda sinna í þinginu, heldur og erindrekar einstaklinga meðal þeirra á ýmis konar vettvangi, jafnvel í smásnatti. Slíkt er vansæmandi fyrir stjórnmálamennina, siðspillandi fyrir kjósendurna og veldur óheilbrigðu andrúmslofti í stjórnmálunum. En þetta hlýst af hinum nánu tengslum við kjósendurna og baráttunni um hvern einstakan þeirra“ o. s. frv.

Allt þetta skiptir máli, það sem rætt er fyrir því að æskilegt sé að taka umráð framkvæmdarvalds algerlega úr höndum þingsins og þar sem sagt er: „Með minnkandi áhrifum stjórnmálaflokkanna á framkvæmdarvaldið má og búast við að mjög dragi úr því, sem bæði er hvimleitt og varhugavert, að alls staðar séu flokksfulltrúar og alls staðar verið að taka tillit til flokkshagsmuna. Um leið má og vænta þess, að með hina ýmsu þætti framkvæmdarvaldsins verði fatið af meiri festu og kunnáttu.“

Þarna er, herra forseti, samandregið mikið af því sem við erum að segja. Það er út af fyrir sig bæði skemmtilegt og kostulegt að þessar ritgerðir eru eftir tvo menn sem eru á þrítugsaldri þegar þær eru skrifaðar. Seinna áttu báðir eftir að verða virkir í löggjafarvaldi og í framkvæmdarvaldi. Þeir eru auðvitað í fullum rétti að hafa skipt um skoðun, en saman eru ritgerðirnar engu að síður.

Ólafur Jóhannesson sagði í sama tímariti, á sama ári, 1945, með leyfi forseta:

„Þess vegna eru einmitt margir orðnir þeirrar skoðunar nú, að heppilegra sé að gera gleggri greinarmun á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds en verið hefur, og eðlilegra sé að forseti fái í raun og veru meiri hlutdeild í framkvæmdarvaldinu en að undanförnu, og þá fyrst og fremst þannig, að hann skipi ráðherrana án atbeina Alþingis, enda beri þeir ábyrgð gagnvart honum en ekki þinginu.

Skoðun þessi er rökstudd með því, að þörf sé á styrkara framkvæmdarvaldi en verið hefur, að nauðsynlegt sé að draga úr valdi hinna pólitísku flokka og ýmissa annarra hagsmunasamtaka, að engin trygging sé fyrir því, að þingið reynist þess jafnan umkomið að mynda stjórn ( sem er mikill kjarni þessa máls; þetta átti eftir að reynast sönn spá) og loks, að slík skipan sé í bestu samræmi við þrískiptingu valdsins og tíðkist þar sem lýðræðið sé í einna mestum hávegum haft.“

Síðan fjallar öll þessi ritgerð Ólafs Jóhannessonar um nákvæmlega þetta. Ég held ég geti fullkomlega staðið á þeirri skoðun, sem ég hef áður haldið fram um þessar tvær ritgerðir, að þær færa okkur í raun og veru kristaltærar skilgreiningar á hinu pólitíska samfélagi sem verið er að lýsa. Og að svo miklu leyti sem við getum nú, 40 árum síðar, skoðað þessar ritgerðir sem spár um það sem gerðist, þá fara þær ótrúlega nærri lagi um samsetningu valdsins og samfélagsins.

Þetta, herra forseti, eru samandregnar röksemdir fyrir þeirri brtt.forsrh. skuli vera þjóðkjörinn og kosinn sérstaklega, og hann skipi með sér ríkisstj., og sú ríkisstj. framkvæmi lögin í landinu og hafi einnig það vald, ef yfir hana eru sett lög sem hún vill ekki una, að geta skírskotað þeim til þjóðaratkvæðis. Það er hugmynd sem er nýrri af nálinni en hér hefur verið lýst. Þeirri aðferð beittu Frakkar í sinni stjórnarskrá, þá er þeir settu hana á árinu 1958, til þess að koma í veg fyrir hugsanlegan árekstur löggjafarvaldsins og framkvæmdarvalds eftir að þau hafa verið aðskilin.

Ég hef, herra forseti, í löngu máli flutt rök fyrir þessari breytingu, og ég vil aðeins endurtaka það aðalatriði málsins, vegna þess að menn hafa upp úr því lagt, að jöfnun atkvæðisréttar sé takmark í sjálfu sér. Það hlýtur að skipta máli.

Það er öllum ljóst að í því frv. til stjórnskipunarlaga sem hv. þm. Geir Hallgrímsson hefur mælt fyrir er ekki um að ræða jöfnun sem nokkru nemur. Þess utan höfum við sagt í mjög einfaldri röksemdafærslu að ef menn eru að tala um að jafna algerlega fjölda þm. án þess að fækka þm. nokkurs staðar, þá eru menn að tala um 140 þm. sem er auðvitað fráleitt í alla staði. Ef menn eru hins vegar að tala um töluna 60 og þar um bil þá eru menn að tala um t. d. að Vestfirðir fái 11/2 þm. og allir sjá líka að það er fráleitt. Lausnin liggur ekki á þessu sviði.

Það skal sagt með fullri virðingu um þá forustumenn stjórnmálaflokkanna gömlu, sem setið hafa árum saman og verið að reyna að leysa þetta, að auðvitað fara þar hvorki fífl né illmenni, heldur hitt, að þeir tóku að sér óleysanlegt verkefni. Enda er árangurinn þannig að aðhlátur vekur um allt land, sumpart að ósekju, því verkefnið var óleysanlegt í upphafi. En það áttu þessir mætu menn auðvitað að geta sagt sér. Það er einfaldur kjarni þessa mál.

Herra forseti. Ég er sannfærður um að um landið allt vilja menn a. m. k. ræða og hlusta á og kynna sér hugmyndir, sem aðrar þjóðir hafa nýtt, og brautir, sem aðrar þjóðir hafa farið, sem ganga út á það að jafna kosningarrétt algerlega, en aðeins í öðrum helmingi valdsins, þ. e. framkvæmdarvaldsmegin, svo að þar komi einn maður og eitt atkv., en á sama tíma að varðveita þá til hlítar hagsmuni hinna dreifðu byggða, sem að sumu leyti eru mjög ólíkir þó ekki megi gera of mikið úr því, með því að hafa kjördæmaskipunina algerlega óbreytta.

Menn geta tautað hér um 1 á móti 4,2 og hvað þeir vilja, en það er ekki málið. Ef menn vilja gera svo mikið úr þeim ágreiningi sem getur átt sér stað, og það er auðvitað ósæmilegt þegar menn eru að æsa dreifbýli gegn þéttbýli og öfugt, en ef um árekstur slíkra sjónarmiða er t. d. að ræða, þá ber að leysa það mál með þjóðaratkvæði. Franska reynslan sýnir að vitneskjan um það stjórnmálalega vopn gerir það að verkum að þing og framkvæmdavald ná saman. Fyrir því höfum við 30 ára reynslu í Frakklandi, að það gerist með þeim hætti.

Þetta eru skynsamlegar hugmyndir, þó svo að við mætum að þessu leytinu til hálfgerðum steinaldarmönnum hér á hinu háa Alþingi, sem augljóslega vilja sem minnst um þessa hugmynd ræða. Við erum að sækja stjórnmálafundi um allt land, þar sem saman koma stundum vel á þriðja hundrað manns til að ræða þetta a. m. k. En hér mæta menn að þessu leytinu til stjórnmálalegum steinaldarmönnum, sem bara eru að ryðja í gegn fjölgun um þrjá, eins og það sé eitthvert mál.

Hér kvarta menn oft yfir því virðingarleysi sem Alþingi má þola. Sumt af því er auðvitað marklaust tuð eins og öll þjóðþing þurfa að standa frammi fyrir. Hitt er miklu verra og miklu alvarlegra, ef gagnrýni á Alþingi á rétt á sér. Vitaskuld veldur það frv. sem hér um ræðir svona mildri óánægju í dreifbýli en fyrirlitningu í þéttbýli. Það er heila málið. Og ég lít svo til, að lýðræðinu sé greiði gerður með því að menn freisti þess, þó í löngum og þreytandi ræðum sé, að koma einhverri mynd á þetta frv.

Dæmigerðar um lágkúrulegan rugling flokkakerfisins eru athugasemdir hv. 1. þm. Reykv. Geirs Hallgrímssonar, hér í gær. Hann iðkar þann orðaleik að ég og aðrir hv. þm., sem þessu hafa mótmælt, hafi sagt í annarri setningunni að hér væri um afskaplega ómerkilegt og lítilfjörlegt frv. að ræða en hins vegar hafi ég talað um það langt mál, og taldi hann þetta vera mikla ósamkvæmni. En sá ágæti maður, hv. 1. þm. Reykv. lítur fram hjá því, að hér er verið að flytja brtt. við þetta frv. og þar með við sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins. Það er eymdarlegt þjóðþing þar sem slíkt útheimtir ekki svolitla umræðu. Það er ekki hér. Það er þetta sem er kjarni málsins.

Ég gæti auðvitað, herra forseti, að því er brtt. á þskj. 522 varðar rakið þar mál sögulega og með öðrum hætti. Hér er verið að aðlaga kerfi, sem hefur verið beitt erlendis, í Bandaríkjum Norður-Ameríku, Frakklandi og Finnlandi, sem menn skyldu ekki gleyma þó með nokkuð ólíkum hætti sé, það er verið að taka það kerfi og heimfæra það upp á íslenskar aðstæður.

Það vakti athygli, þegar fulltrúar stjórnarskrárnefndar komu fram í sjónvarpsþætti ekki alls fyrir löngu, að þar opnaði málið fyrir hönd Framsfl. Þórarinn Þórarinsson og hann hóf umr. með því að segja að sjálfur hefði hann viljað ganga miklu lengra. Hann hefði viljað aðskilja til hlítar löggjafarvald og framkvæmdarvald og huga að því að kjósa framkvæmdarvaldið beinni kosningu. Annar stjórnarskrárnefndarmaður, núv. hv. 9. þm. Reykv. greip þá fram í fyrir honum og spurði hvers vegna hann væri að bera þetta á borð, því að allir vissu að með þessar hugmyndir sínar hefði hann orðið undir í sínum flokki. Allt kann þetta satt og rétt að vera. Ég þekki það, eftir að hafa reifað slíkar hugmyndir í hinum gömlu flokkunum, að þar átti það ekki hljómgrunn. Við því var ekkert að gera. En menn verða að skilja að Þórarinn Þórarinsson er talsmaður tiltekinna viðhorfa í þeim stjórnmálaflokki sem hann hefur tilheyrt. Og ég geri ráð fyrir að það fólk sem þar er og er á hans reki þekki þessar hugmyndir mætavel, vegna þess að um margra ára skeið voru þær ræddar þar í mikilli alvöru. Að viðbættu því sem ég hef greint frá um útgáfustarfsemi á Austfjörðum hygg ég rétt vera að a. m. k. á tveimur flokksþingum hafi sá stjórnmálaflokkur ályktað í þessa veru. Því má svo bæta við, að á síðari árum skrifaði Jónas Jónsson frá Hriflu mjög í þessa veru. Þá var hann að vísu kominn út úr flokkakerfinu. Í þeim efnum má vísa í tímaritið Ófeig sem hann gaf út á þessum árum. Þetta segi ég til að undirstrika það, að í þessu tilfelli og einnig í forustugrein í Tímanum var Þórarinn Þórarinsson auðvitað ekki að tala úr tómri tunnu eða fyrir sjálfan sig eingöngu, heldur er hann talsmaður tiltekinna sjónarmiða.

Annað í þessum hugmyndum finnst mér að þeir sem eru virkilegir talsmenn dreifbýlis ættu að hugleiða. Ef menn skoða þau ríki sem þetta hafa tekið upp, þá er töluvert ólíku saman að jafna, vegna þess að þetta stjórnkerfi gerir að mörgu leyti frekar ráð fyrir bandalagseðli þess lands og þeirrar þjóðar, m. ö. o. það gerir ráð fyrir sjálfstæði landshluta eða fjórðunga eða sveitarfélaga, allt eftir því um hvað menn eru að tala það eða það sinnið, og það gerir ráð fyrir miklu sjálfstæði þessara eininga og að þær myndi heild eftir lögmálum bandalags frekar en lögmálum sterkrar og miðstýrðrar heildar. Af þessum ástæðum eiga þessar hugmyndir erindi þegar menn eru að ræða fjölgun eða fækkun eða óbreytta tölu þingmanna, þ. e. með hverjum hætti atkvæðisréttur skuli jafn vera eða ójafn. Það eru þessar röksemdir sem verulegu máli skipta. Það sem menn sjá er einnig hin afleidda valddreifing í þágu landshlutanna, í þágu sveitarfélaganna og í þágu hverfafélaganna í Reykjavík eða hverra þeirra eininga sem menn eru að tala um. Því undirstrika ég þetta svo rækilega að þetta er auðvitað liður í þeirri hugmyndafræði sem ég er einnig að mæla fyrir.

Þetta var um þá till., herra forseti, að forsrh. skuli vera þjóðkjörinn, sem auðvitað felur í sér að á því sviði gildi eitt og jafnt atkvæði fyrir sérhvern mann. Síðan er lögð fram önnur brtt. um það hvað taki við ef forsrh. deyr eða lætur af störfum. Er lagt til að utanrrh. taki við embætti hans. Þetta er auðvitað umdeilanleg aðferð, en aðeins til undirstrikunar þess að einnig er verið að leggja til á sérstöku þskj. að þingrofsrétturinn sé afnuminn. M. ö. o. að þeir framkvæmdarvaldshafar sem kjörnir hafa verið sitji til fjögurra ára og að um það sé vitað í upphafi kjörtímabils hvað þeir sitji lengi. Þeir sitji til fjögurra ára og ef um er að ræða, sem vonandi kemur aldrei til, að maður deyi í embætti eða verði að láta af því af öðrum sökum, svo sem alltaf getur skeð, þá taki varamaður hans við, en ekki fari fram kosningar sem brengli tímann.

Hið sama á auðvitað að gilda um hv. alþm. Maður, sem er kjörinn á Alþingi, á auðvitað að vita það í upphafi — og kjósendur einnig — til hve langs tíma hann er kjörinn. Ef maður er kjörinn á Alþingi þá á hann að sitja fjögur ár. Það er bæði staðfesta í stjórnarkerfinu og það er lýðræðislegt og því fylgir þess vegna ábyrgð. Hinu fylgir ábyrgðarleysi, að það vald sé á hendi einhvers eins manns, þar sem meira og minna er auðvitað tekið mið af flokkshagsmunum eða stjórnmálahagsmunum hverju sinni, að leysa þing upp og efna til kosninga.

En, herra forseti, enn ein brtt. er hér flutt. Hún er um það að 28. gr. stjórnarskrárinnar falli niður. Því ég verð að segja það, að mikilvægara en hitt, hvort þm. eru 60 eða 63, er hvort hægt er að senda þá heim eða senda þá ekki heim. Á sama tíma og við erum að leggja til að þm. verði 60, með óbreyttum hætti, er verið að leggja til að þeir verði ekki sendir heim sem börn, heldur — hafi þeir verið kosnir — sitji þeir fjögur ár. Þeir viti það sjálfir og þeir sem þá kusu. Þeir viti að til þess er leikurinn gerður. Þess vegna, herra forseti, er á þskj. 527 flutt brtt. um að 28. gr. stjórnarskrárinnar falli niður. Það er greinin sem veitir núv. hæstv. forsrh. þingrofsrétt.

Hafi ég heyrt rétt þá talaði hv. 4. þm. Austurl. mjög gegn þingrofsvaldinu hér í dag. Það verður fróðlegt að sjá hvernig atkv. falla um þessa till. á morgun. Ég veit að hv. alþm. gera sér ljóst að hér er verið að tala samfelldri hugmyndafræði þar sem hvað hangir er öðru háð. Augljóst er að að lykiltillögunni fallinni er eitthvað af þessu sjálfkrafa fallið.

Á þskj. 525 er flutt brtt. um að forsrh. geti efnt til þjóðaratkvgr. um hvaða mál sem vera skal. Sú aðferð er sótt í hina frönsku stjórnarskrá, sem hér hefur áður verið talað fyrir, að þegar framkvæmdarvald er kosið sérstaklega og löggjafarvald sérstaklega þá sé vald til þjóðaratkvgr. til staðar, gagngert til að grípa til ef um ósættanlegar andstæður kynni að vera að ræða. Að vísu tel ég að í því felist algert vanmat á manneðlinu, að halda að til slíks komi. En gott og vel, við skulum fræðilega gera ráð fyrir þeim möguleika að slíkt geti gerst, og því er þessi varnagli sleginn.

Á þskj. 524, herra forseti, er svohljóðandi brtt.: „Á eftir 15. gr. komi ný gr., 15. gr. A, svohljóðandi: Ráðherrar mega ekki vera alþm. Nú er alþm. skipaður ráðh., og skal þá varamaður hans taka sæti á Alþingi þann tíma er hann gegnir ráðherrastörfum.“

Þetta er í raun og veru sama hugmynd, að einnig þarna sé skilið á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ef kjörinn forsrh. kann t. d. að vera forustumaður í einhverjum stjórnmálaflokki eða hagsmunasamtökum eða hvað annað, og vilji hann mynda ríkisstjórn að öllu leyti innan þings eða hálfu leyti innan þings, þá á honum auðvitað að vera það kleift. En geri hann það með þeim hætti, skipi t. d. hálfa ríkisstj. mönnum sem sitja á Alþingi, þá taki varamenn þeirra sæti á þingi, fari með atkvæðisrétt þeirra og annað slíkt, m. ö. o. í praxís sé skilið þar á milli ef til slíks kemur.

Eins og ég sagði hér í gær, þegar um þetta var rætt, hvort sem menn eru að tala um svokallað þingræði eða ekki, þá eru menn annars staðar farnir að praktísera þá reglu engu að síður. Ég nefni Noreg til dæmis um það Mér finnst nú satt að segja, ef sú breyting er gerð ein, vera svolítill potarabragur á því, en það er ekki það sem um er að ræða. Það skiptir engu máli hvaða persónur hér eiga hlut að máli. Mér sýnist stundum ég þekkja það úr mínum gamla flokki. Þeir sem gjarnan sóttu það fastast voru þeir sem sátu á varamannabekkjum og töldu möguleika sína aukast til vegs og virðingar ef þetta væri gert með þessum hætti. Þessi till. á auðvitað ekkert skylt við það, heldur er hún liður í samfelldum brtt., sem í raun og veru mynda heildstætt frv., um það að ef til þessara breytinga kemur þá sé þarna skilið á milli eins og annars staðar.

Herra forseti. Fyrir allmörgum af þessum brtt. mælti ég í gær. Þær voru dregnar til baka og endurfluttar við 3. umr. Það er því óþarfi að endurtaka það. En af sjálfu leiðir að þegar menn eru að aðskilja löggjafarvald og framkvæmdarvald, þá er það auðvitað mikill misskilningur að verið sé að draga úr völdum annars aðilans, sem stundum er haldið fram, þetta veiki þingið. Ég held þvert á móti að það styrki þingið.

Hér er lagt til á þskj. 526 að 24. gr. stjórnarskrárinnar falli niður. Meðan ég var í mínum gamla flokki var þetta flutt sem flokksmál af hans hálfu og var ég flm. Þetta er um það að vald til útgáfu brbl. sé af tekið. Af sjálfu leiðir að ef þingið setur lögin og framkvæmdarvaldið framkvæmir þau, þá getur framkvæmdarvaldið ekki sett lög í þinghléum eins og nú er. Þau mjög svo misnotuðu forréttindi framkvæmdarvaldsins, sem við þekkjum vel, þarf að afnema. Þessi aðskilnaður þarf auðvitað að vera á báða bóga og því er þetta flutt.

Ég vil svo, herra forseti, nefna brtt. á þskj. 528, sem er mjög veigamikil í þeim stjórnkerfisbreytingum sem verið er að mæla fyrir. Hún er í þá veru að á eftir 3. gr. komi ný gr. sem orðist svo: „Á eftir 43. gr. komi ný gr., 43. gr. A, svohljóðandi: Alþingi markar stefnu lýðveldisins í utanríkismálum. Ríkisstj. skal ávallt bera undir þingið mikilvæg utanríkismál.“ Kjarninn í þessum breytingum er sá, að öfugt við það sem gert er í Frakklandi, þar sem mörkun utanríkisstefnu er á hendi hins kjörna framkvæmdarvalds, leggjum við til að mörkun utanríkisstefnu sé á hendi löggjafarvalds. Ástæðan fyrir þessu er sú, að þar er tekið tillit bæði til legu landsins, sérstöðu íslenskra utanríkismála og þess, að flóra íslenskra utanríkismála er mjög víðtæk eins og menn vita. Má segja að taka verði visst tillit til hinna íslensku aðstæðna, skoðana, flokka, skulum við segja, að því er þetta varðar. Það er mikið aðalatriði í þessari áætlun allri að með þessum hætti sé farið með utanríkismálin.

Ég hef þá, herra forseti, í örstuttu máli gert grein fyrir þeim brtt. sem ég flyt við þetta frv. Það er margt furðulegt í þessari umr. allri. Einn stjórnmálaflokkur í landinu hefur öðrum fremur þótt vera varnaraðili fyrir eitthvað sem kallað er þingræði. Málsvarar hans leika þann, liggur mér við að segja ódrengilega leik, t. d. í einokunarblaði sínu, Morgunblaðinu, að setja jöfnunarmerki milli þingræðis og lýðræðis. Síðan segja menn: Hérna er verið að vega að þingræðinu. Milli línanna má lesa að þar fari hættulegir menn lýðræðinu. Þetta er auðvitað umr. sem menn þekkja. En þessir þingræðisherramenn eru nú margir jafn áhugasamir um sjálfa sig eins og sjá má hér í þingsölum í kvöld. Hér er sennilega mættur einn úr þeirri þingræðissveit, hv. þm. Albert Guðmundsson. En því er þetta sagt, ég hef sagt það áður við þessa umr. en vil samt endurtaka það, að orðið „þingræði“, notað með þeim hætti sem t. d. Morgunblaðið gerir gjarnan, er mjög villandi og er þýðing á allt öðru erlendu orði. Það er þýðing á orðinu „parlamentarismi“ og þýðir auðvitað það eitt, að Alþingi skipi af sér ríkisstj., geti fellt hana eða verði a. m. k. að þola hana.

Þessi orðaleikur finnst mér vera mjög ósmekklegur vegna þess að hann felur það í sér að látið er að því liggja, að tillögur um að framkvæmdavald sé kosið með aðferðum þjóðræðis í staðinn fyrir þingræðis séu frelsinu, fundafrelsi, félagafrelsi og öðrum slíkum mannréttindum, hættulegar. Þennan leik hefur þessi heldur ósmekklega og lítilfjörlega íhaldspressa leikið, gert sjálfa sig að einhverjum ógurlegum talsmönnum þingræðisins. Þingræðið er auðvitað ekkert annað en eitt form lýðræðis. Það er hægt að hugsa sér miklu fullkomnara lýðræði, þar sem einhverjir aðrir en þing myndi ríkisstj. Það er kjarni málsins. Ég þykist vita að ef Bandalag jafnaðarmanna eykur fylgi sitt í næstu skoðanakönnun úr 13% upp í 25%, þá muni þeir enn herða róðurinn í þeirri innrætingu að hér fari andstæðingar þingræðisins. Jafnvel þeim þm. sem er góður knattspyrnumaður, að vísu heldur lakari stjórnmálamaður, en er alinn upp í Frakklandi og ætti að vita hvað um er talað, veit væntanlega að í Frakklandi er lýðræði þó að ekki sé þar þingræði í þessum parlamentariska skilningi, verði reynt að vagga inn á þing á þeim forsendum að Sjálfstfl. sé að verja þingræðið gegn andstæðingum þess. Þennan leik hafa þeir leikið svo oft, og fótboltamaðurinn fyrrv. frá Frakklandi mun auðvitað ekki segja orð heldur láta Moggann vagga sér inn á Alþingi til varnar lýðræðinu.

Ég veit að það á eftir að verða svona. Þeir eru þegar byrjaðir í þessum dúr í forustugreinum sínum. Að því leytinu til er kvíðvænlegt að hoppa úr 13 upp í 25 í skoðanakönnunum, að þá munu þeir allir herðast eins og menn þekkja, þessir varnarsveinar þingræðisins á Morgunblaðinu. Og það er auðvitað áhyggjuefni. Ég er ekki að segja þetta að ástæðulausu. Ég vísa í fáránlega forustugrein í því blaði, ég held á laugardaginn var, þar sem tíunduð var þingræða hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar. Eins og menn vita, þá er pólitísk umfjöllun hér oft á þá lund að menn þurfa að lesa á milli línanna. Og milli línanna var verið að ýja að því, að hér færu frelsisins óvinir, lýðræðisins óvinir, mannréttindaóvinir sem legðu til atlögu við sjálft þingræðið.

Við spáum í raun hvernig þetta þingræði hefur verið og þess vegna er það a. m. k. til umr. hvort ekki sé skynsamlegt, líka annarra aðstæðna vegna, að skipta um farveg lýðræðisins, gera það að mörgu leyti beinna, gera starf löggjafarvaldsins að sumu leyti öðruvísi, en um leið styrkja stöðu þess eða setja lög til að hafa eftirlit með lögum og annað slíkt. Það er það sem verið er að leggja til.

Ég átti von á því að áhugamenn á því svæði í íslenskum stjórnmálum, sem stundum er kallað til vinstri, hefðu að mörgu leyti ástæðu til og áhuga á að skoða þessar hugmyndir mjög rækilega, eins og þær eru fram settar, eins og þar er fjallað um utanríkismál í stjórnkerfinu og einnig vegna þeirrar sögu þessa máls, að á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru það svokallaðir vinstri menn í Alþfl. sem þessum hugmyndum héldu á lofti, og allmörgum árum síðar svokallaðir vinstri menn eða kaupfélagamenn, þar á undan ungmennafélagsmenn í Framsfl., sem slíkum hugmyndum héldu á lofti. En það er svo undarlegt í íslenskum stjórnmálum, að alltaf hefur það verið Sjálfstfl. sem hefur tekið upp hina hörðu vörn fyrir þingræðið, parlamentarismann. Menn skyldu íhuga af hverju það er.

Hverjir eru það sem í raun og veru hafa haft megintök á stofnunum eins og ríkisbönkunum? Þarna er verið að leggja til að það sé skilið frá hinu pólitíska valdi svo fengnu. Menn skyldu muna það, að ríkisbankarnir á Íslandi eru eldri en sósíalisminn. Sú hugmynd er ekki frá Moskvu komin. Menn skyldu muna það, að í fyrstu ríkisstjórn á Íslandi, sem aðeins myndaði einn maður, voru blóðugustu átökin um yfirráðin yfir ríkisbönkunum. Sá skipaði sjálfan sig bankastjóra ríkisbanka daginn sem hann vék úr embætti hér í þessu húsi árið 1909. Önnur ríkisstjórn í landinu féll — ekki vegna paragraffastyrjaldar í sjálfstæðismálum, heldur vegna deilna um yfirstjórnina í Landsbankanum. Um hvað voru þessir menn að takast á?

Húsið, þar sem ég hef skrifstofu, er byggt 1907. Aðrir hv. þm. hafa skrifstofu í Þórshamri. Framan á því húsi stendur ártalið 1912. Þórshamar var byggt sem einbýlishús. Það er sagt að fyrsti togarinn okkar, Jón forseti, sem keyptur var 1907, hafi borgað sig með veiðiskap á sjö mánuðum. Um hvað voru menn að takast á þegar menn tókust á um yfirráðin yfir ríkisbankakerfinu? Eignaraðildina að innréttingunni hér á landi. Og það var ekki gert með eigin fjármagni, það er ekki þess háttar kapítalismi, ónei. Það var gert með pólitískum yfirráðum yfir kapítalinu í gegnum ríkisbankana.

Það er engin furða þó að þessir menn hafi svo áratugum saman verið að verja þingræðið, nefnilega aðstöðuna í þessum stofnunum. Litli maðurinn hefur að vísu fengið lán og lán, en það er bara ekki kjarni málsins. Það er þetta sem auðvitað skiptir máli. Svo hefja þeir þingræðissönginn sinn, nefnilega yfirráðin yfir þessum stofnunum, sem aftur eru yfirráðin yfir helstu efnum sem máli skipta í þessu landi. Og þeir eru hissa á því, að upplýstir menn, sem skilgreindir hafa verið á línu vinstri flokka hér, skuli ekki taka undir þennan söng alveg krítiklaust, alveg gagnrýnilaust. Nei, hér hangir allt annað og miklu meira á spýtunni. Menn þurfa ekki annað en skoða hagsöguna, sem svo mjög hefur verið fölsuð hér í gegnum árin og áratugina, til að vita út á hvað hún gekk. Skoði menn Kveldúlfsmálin hér upp úr kreppunni, þegar þetta ídol einkaframtaksins var rekið á 40% af útlánafé stærsta ríkisbankans. Um hvað halda menn að sá leikur hafi snúist? Og sá banki var ekki byggður á formúlu Lenins eða þeirra Moskvumanna. Ónei. Hann er stofnaður hér 1886.

En hvers vegna höfðu þeir þessi tök á Landsbankanum og sækjast enn eftir þeim eða hverjum öðrum sjóðum af því tagi? Það er í nafni þingræðisins, að sagt er. En menn tala aldrei um og menn vilja ekki sjá og vilja ekki ræða samhengið sem þarna er á milli. Nýróttækt fólk er að skynja þetta með allt öðrum hætti. Það lætur ekki einhverja dellumakara segja sér hvað sé hægri og hvað sé vinstri. Það lætur ekki rugla sig í því að þingræði og lýðræði sé eitt og hið sama. Og það lætur ekki segja sér fyrir verkum. Það lætur ekki einhver flokksblöð kenna sér um hvað deilumál snúist, hvað sé áhugavert og hvað sé ekki áhugavert. Það er ekki kjarni þessa máls. En samandregið ætti það að vera lykilorð íslenskrar hagsögu að ríkisbankarnir eru eldri en sósíalisminn. Þeir komu fyrst. Landsbankinn var stofnaður 10 árum áður en Þorsteinn Erlingsson kynnti hér fyrstur sósíalisma og jafnaðarstefnu. Þetta gleymist oft og meira að segja sömu menn reyna að halda hinni kenningunni fram.

Ég hef, herra forseti, þegar mælt fyrir þeim brtt. sem eru nýjar. En ein brtt., sem ég mælti fyrir í gær, skiptir verulegu máli og stendur í raun og veru algerlega sjálfstæð. Hún er um það að kosningaaðferðinni verði gerbreytt. Sú aðferð er auðvitað í stíl við allt annað sem við, sem höfum staðið að Bandalagi jafnaðarmanna, erum að leggja til fyrir þetta þjóðfélag. Nefnilega að sett sé í stjórnarskrá að kjörseðill eigi að vera þannig úr garði gerður, að kjósandinn geti kosið bókstaf á röðuðum lista, sem einhver hópur, lítill eða stór, hefur raðað, sem kemur auðvitað ekki löggjafanum við að neinu leyti. En í annan stað eigi kjósandinn að geta kosið einstakling af einhverjum lista. Þá hlýtur listinn auðvitað atkv. jafnframt. Í þriðja lagi skiptir það meginmáli að kjósandinn eigi að geta kosið fleiri af lista eða listum og allt upp í svo marga sem í kjöri eru.

Það má segja að þessi kosningaaðferð sé blanda af því sem tíðkast í Danmörku og á Írlandi. Það er þó auðvitað ekki kjarni málsins, heldur hitt, að hér er verið að leggja til tiltekna uppreisn gegn flokkaræðinu, gegn þeirri almennu hugmynd að stjórnmálaflokkarnir standi fyrir eitthvað sérstakt, sem aðrir standi þá ekki fyrir. Því að svo mikið sem rangt er í allri hugsun í stjórnkerfinu hjá okkur er þessi grundvallarvilla ekki best, að einhver stjórnmálaflokkurinn, við getum nefnt hann og skiptir ekki máli, standi fyrir eitthvað sem hinir stjórnmálaflokkarnir standi ekki fyrir. Þetta er ekki svona. (Gripið fram í.) Nei, fimmti flokkurinn er nefnilega að reyna að leysa þetta kerfi upp og leysa það af þeim hugmyndum sem fólkið í landinu hefur hverju sinni. Fimmti flokkurinn, sem hv. 3. þm. Reykv. kallar svo, er einmitt allt öðruvísi uppbyggður að þessu leytinu til og undir það búinn að skipt verði um skoðun í grundvallarefnum. Því að samtök um stjórnmál eiga auðvitað að vera samtök þar sem skoðanir brjótast með léttum hætti í gegn, en ekki samtök, sem eru fyrst og fremst að halda einhverjum skoðunum að fólki, einhverjum söguskoðunum og sögulegum verðmætum eins og því, að menn eigi að kjósa Alþfl. af því að vökulögunum var komið á á þriðja áratugnum, sem auðvitað verður óþægilegt fyrst og broslegt svo og hallærislegt um síðir. Þess vegna leggjum við þetta til.

Það verður fróðlegt að sjá með hverjum hætti flokkavaldið hér snýst gegn þessum hugmyndum í atkvgr. á morgun, sem ég er alveg sannfærður um að það gerir. Og af hverju? Setjum svo að það verði kosningar í einhverju kjördæmi í landinu. Setjum svo, þrátt fyrir það að hv. alþm. hér og fjölmiðlarnir, sem þeir meira og minna nærstýra eða fjarstýra, eru búnir að halda því fram að hér sé einhver hægri flokkur og vinstri flokkur og svo miðjuflokkar og allt sé þetta eftir munstri og strúktúr einhverjum, að það komi í ljós í einhverju kjördæmi að 60% af hv. kjósendum kysu einn af D og einn af G. Og hvað þá?

Þetta er búið að vera rangt allan tímann. Munstrið er ekki það sem þessir flokkar og þessir fjölmiðlar halda að fólki, enda er ég sannfærður um að svo sé. Af hverju eru stjórnmálaflokkarnir þannig upp byggðir, að þeir neyða t. d. konur, sem hafa þá skoðun, sem kann að vera rétt og kann að vera röng, er að því leytinu til rétt að hana hafa margir, að konur njóti ekki nægra áhrifa í sveitarstjórnum eða á Alþingi eða hvar sem er, til að fara sérstaklega í framboð? Af hverju mega menn ekki kjósa konur þvert á kjörseðlunum, ef mönnum finnst það meira virði en sú skoðun, að Alþb. sé í einhverjum grundvallaratriðum öðruvísi en Sjálfstfl.? Það kemur í ljós að menn eru ekki þeirrar skoðunar.

Það á að vera starf okkar hér á löggjafarþinginu að gera stjórnkerfið þannig úr garði að það lagi sig að þeim skoðunum sem uppi kunna að vera. Ef tiltekinn hópur kjósenda í Reykjavík, eigum við að segja fólk sem hneigist að sama kyni og það er sjálft, svo að ég nefni minnihlutahóp, sem hefur verið mjög umdeildur, vill sýna það sem aðalatriði sinnar stjórnmálaskoðunar með því að kjósa eftir tilteknu munstri á kjörseðilinn, þá á hann auðvitað að mega það. Ef menn eru þeirrar skoðunar að slík mál séu mikilvægari en hitt, hvor hefur skert vísitölubætur á laun oftar, Geir eða Svavar, þá eiga menn að fá að kjósa í samræmi við það. Af þessum ástæðum er lagt til, sem er mjög í stíl við allt annað sem við erum að leggja til, að kjörseðillinn sé svona úr garði gerður.

Og þeim mun meiri ástæða, herra forseti, er til að segja þetta, að hér segir, svo að ég lesi þennan skemmtitexta á bls. 3 í þriðja sinn, að þingflokkarnir fjórir hafi auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi: — Þetta finnst mér einhver grínartugasti texti sem ég hef lengi séð. — „Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár.“ Af hverju setja mennirnir þetta? Eins og ég hef sagt er hér ekki verið að leggja til að beita sér fyrir víðari valddreifingu, eða hvað þetta heitir allt saman, samfara nýrri stjórnarskrá, heldur hinu, að setja meiri valddreifingu inn í stjórnarskrána. Það verður fróðlegt að vita hvort þessir fírar, sem eru ákveðnir í því að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði, fella það ekki að aukin valddreifing og virkara lýðræði verði með þessum hætti inn í stjórnarskrána sett. Það er aldrei að vita.

Þetta er auðvitað tillaga sem gengur gegn flokkunum. Til praktískrar áherslu þessarar tillögu hef ég nefnt ástand mála vítt og breitt um landið. Ég hef nefnt sérstaklega ástand í Norðurl. v., sem mér finnst vera undirstrikun á þeirri kröfu sem hér er um að ræða, bæði innan Framsfl. og Sjálfstfl. Þarf ekki annað en að fara um landið allt til að undirstrika það að flokkarnir hafa ekki þau einkenni í dag. Kannske hafa þeir þau á morgun og kannske höfðu þeir þau í gær. En í dag hafa þeir ekki það einkenni að þeir hver um sig standi fyrir eitthvað eitt sem einhverjir aðrir standi þá ekki fyrir. Það er söguleg blekking að svo hafi verið nú um langan tíma, a. m. k. að það sé svo í dag. Þá staðreynd eiga menn auðvitað að viðurkenna með þessum hætti. Það eitt að viðhalda flokkunum á aldrei að verða neitt aðalatriði þessa máls.

Nú hef ég, herra forseti, mælt fyrir þeim brtt. sem ég flyt við þetta frv. Það eru ekki minni háttar brtt. við meiri háttar frv. Það eru alvörutillögur um frv. sem er ekki neitt. Það er verið að reyna að gera þetta frv. að einhverju. Samandregið einfalt: Að valdþættirnir séu aðskildir, að fram fari bein kosning framkvæmdarvalds, þar sem sérhver þegn í landinu hafi eitt og jafnt atkv., og í þriðja lagi að hagsmunir hinna dreifðari byggða séu verndaðir með því að þar hafi einn maður eitt atkv. Ég vek athygli á hinni afleiddu valddreifingu, einkum í þágu byggðanna, sem skiptir máli. Því fylgir einnig sú sannfæring að þeim mun nær þeim verkefnum sem vinna skal sem dreifing fjárins fer fram, þeim mun skynsamlegri er hún. Í því eru hagkvæmnissjónarmið einnig. Og svo hitt, að þetta felur í sér að smærri einingar hafi meiri sjálfsstjórn, að stjórnkerfið í landinu sé minna miðstýrt og meira af eðli bandalags. Þessar hugmyndir þekkja menn. Þessar hugmyndir voru fluttar á þskj. 94 í sex liðum. Það þarf þess vegna ekki að koma neinum á óvart þó að ég freisti þess að kynna þær hér sem brtt. við þetta frv. Ég greindi raunar frá því um það leyti sem þetta frv. var lagt fram, að þess yrði freistað að koma því inn í þetta frv. Ég geri mér ekki miklar vonir um að það verði samþykkt að þessu sinni. En hitt er ekki verra, að glæða skilning á því að þetta er hægt, að þetta er skynsamlegt og hér er um að ræða réttláta aðferð, þar sem hagsmuna beggja er gætt, bæði þeirra sem þéttar búa og eins hinna, sem búa í meira dreifbýli.