25.02.1975
Sameinað þing: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

Minnst látins fyrrverandi alþingismanns

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Páll Þorbjörnsson skipstjóri og fyrrv. alþm. varð bráðkvaddur í heimabæ sinum, Vestmannaeyjum, s.l. fimmtudag, 20. febr., 68 ára að aldri.

Páll Þorbjörnsson var fæddur 7. okt. 1906 í Vatnsfirði í Norður-Ísafjarðarsýslu. Foreldrar hans voru Þorbjörn héraðslæknir á Bíldudal Þórðarson bónda á Neðri-Hálsi í Kjós Guðmundssonar og kona hans, Guðrún Pálsdóttir prófasts og alþm. í Vatnsfirði Ólafssonar. Hann hóf ungur sjómennsku úr heimabyggð sinni og vann sjómannsstörf lengstum á árunum 1920–1932. Gagnfræðaprófi við Menntaskólann í Reykjavík lauk hann utanskóla vorið 1922, var við nám í Stýrimannaskólanum í Reykjavík veturinn 1929–1930 og lauk þaðan farmannaprófi vorið 1930. Eftir það var hann um skeið stýrimaður hjá Skipaútgerð ríkisins. Árið 1932 fluttist hann til Vestmannaeyja og gerðist þar kaupfélagsstjóri og síðar skipstjóri og útgerðarmaður. Síðustu árin stundaði hann umfangsmikill kaupsýslustörf, rak heildsölu- og smásöluverslun með veiðarfæri og aðrar útgerðarvörur.

Páll Þorbjörnsson átti sæti í bæjarstjórn Vestmannaeyja á árunum 1934–1950 og gegndi öðrum trúnaðarstörfum fyrir bæjarfélagið. Landsk. alþm. var hann eitt kjörtímabil, 1934–1937, sat á 4 þingum. Hann var í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins 1935–1937 og yfirskoðunarmaður ríkisreikninga 1936–1937.

Víst má telja, að ungum hafi Páll Þorbjörnssyni staðið opnar ýmsar leiðir til frama. Hann valdi sér sjómennsku að ævistarfi og vann flest störf sín í tengslum við sjósókn og siglingar. Á Alþingi átti hann sæti í sjútvn. og ræður hans á þingi fjölluðu flestar um þau málefni. Á heimsstyrjaldarárunum var hann löngum í siglingum og auðnaðist honum þá að bjarga mörgum mannslífum úr sjávarháska. Í Vestmannaeyjum átti hann heimili í rúma fjóra áratugi við miklar athafnir og umsvif og þar féll hann frá skyndilega.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Páls Þorbjörnssonar með því að rísa úr sætum. — (Þm. risu úr sætum.)