04.11.1960
Sameinað þing: 10. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

Minning látinna manna

forseti (SÁ):

Sú fregn hefur borizt, að Jón Jónsson fyrrum alþm. og bóndi á Hvanná á Jökuldal hafi látizt 31. okt. s.l., nær níræður að aldri. Verður hans minnzt hér með nokkrum orðum.

Jón Jónsson var fæddur 19. jan. 1871 á Ekkjufelli í Fellum. Faðir hans var Jón, síðar bóndi á Fossvöllum, sonur Jóns á Ekkjufelli Jónssonar, en móðir hans var Ingunn Einarsdóttir bónda á Starmýri Ólafssonar. Jón ólst að nokkru leyti upp með föður sínum á Fossvöllum, fór árið 1897 til náms í Möðruvallaskóla og lauk gagnfræðaprófi þaðan vorið 1899. Á sama ári kvæntist hann dóttur bóndans á Hvanná á Jökuldal, átti þar heimili síðan og bjó þar lengi stórbúi, en lét jörðina í hendur sona sinna, þegar aldur færðist yfir hann.

Jón Jónsson á Hvanná var stórbóndi og sveitarhöfðingi um langt skeið. Hann var oddviti og sýslunefndarmaður og gegndi fjöldamörgum öðrum trúnaðarstörfum í sveit sinni og héraði. Þingmaður Norðmýlinga var hann á árunum 1909–1911 og 1914–1919, átti sæti á 9 þingum alls.

Jón Jónsson á Hvanná var fyrst kosinn til þings í hinum sögufrægu alþingiskosningum 1908, og þingsetu hans lauk tæpu ári síðar en Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Á þeim árum voru stærstu mál Alþingis einatt í tengslum við sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, og á þeim vettvangi stóð Jón á Hvanná jafnan fast á rétti lands síns og þjóðar.

Meginþátt ævistarfs síns vann Jón Jónsson á Hvanná austur á Jökuldal. Þar bjó hann stórbúi og hafði forustu í sveitarmálum. Þegar unnið var að síðustu útgáfu Alþingismannatals, gerði hann stutta grein fyrir störfum sínum í héraði og lét jafnframt svo um mælt í bréfi: „Ég hef fá frægðarverk unnið, en trúlega hef ég viljað vinna að því, sem ég hef fengizt við.“ Það er dómur sveitunga hans, að hann hafi ekki brugðizt trausti þeirra.

Jón á Hvanná var mikill vexti, góðlyndur og glaðlyndur og höfðingi heim að sækja.

Ég vil biðja hv. alþm. að votta minningu hins látna bændahöfðingja virðingu sína með því að risa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]