16.02.1961
Sameinað þing: 40. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

Minning látinna manna

forseti (FS):

Áður en gengið er til dagskrár, vil ég leyfa mér að minnast nokkrum orðum Þorsteins Þorsteinssonar fyrrum sýslumanns og alþingismanns, sem lézt í sjúkrahúsi hér í bæ í gærkvöld, 76 ára að aldri.

Þorsteinn Þorsteinsson fæddist að Arnbjargarlæk í Þverárhlíð 23. des. 1884, sonur Þorsteins bónda þar Davíðssonar bónda að Þorgautsstöðum í Hvítársíðu Þorbjarnarsonar og konu hans, Guðrúnar Guðmundsdóttur bónda á Sámsstöðum í Hvítársíðu Guðmundssonar. Hann nam undir skóla hjá séra Magnúsi Andréssyni á Gilsbakka, brautskráðist úr menntaskólanum í Reykjavík árið 1910 og lauk lögfræðiprófi við Háskóla Íslands 1914. Hann var settur sýslumaður í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu um stund sumarið 1914 og varð málflutningsmaður við yfirréttinn í Reykjavík þá um haustið. Þrjú næstu ár gegndi hann ýmsum lögfræðistörfum ásamt sveitavinnu á sumrum. Hann var aðstoðarmaður í fjármáladeild Stjórnarráðs Íslands frá 1. okt. 1917 til 31. júlí 1920, en á því tímabili var hann um sex mánaða skeið á árinu 1918 settur sýslumaður í Norður-Múlasýslu og bæjarfógeti á Seyðisfirði og fimm mánuði á árinu 1919 settur sýslumaður í Árnessýslu. Í ágústmánuði 1920 varð hann sýslumaður í Dalasýslu og gegndi því embætti til ársloka 1954, er honum var veitt lausn vegna aldurs. Fluttist hann þá til Reykjavíkur og átti hér heimili síðan.

Þorsteinn Þorsteinsson var kjörinn til ýmissa trúnaðarstarfa, sem hann gegndi jafnframt embætti sínu. Hann var í stjórn Sparisjóðs Dalasýslu um 20 ára skeið, stjórnarnefndarmaður í Búnaðarsambandi Dala- og Snæfellsness 1933–1945, formaður skólaráðs húsmæðraskólans að Staðarfelli 1939–1946, eftirlitsmaður opinberra sjóða frá 1940 til æviloka, bankaráðsmaður Búnaðarbanka Íslands 1941–1957, í úthlutunarnefnd skáldastyrkja og listamannalauna 1946–1959. Hann var fulltrúi á búnaðarþingi á árunum 1939–1949. Á Alþingi átti hann sæti 1933–1953, sat á 26 þingum alls. Forseti efri deildar var hann á þinginu 1946–1947.

Þorsteinn Þorsteinsson átti til mikilla búmanna að telja. Hann ólst upp við sveitastörf, vann á búi föður síns á sumrum, meðan hann var í skóla og nokkru lengur, og rak lengst af búskap jafnframt embættisstörfum sínum í Dalasýslu. Hann hafði mikil afskipti af félagsmálum bænda, og á Alþingi sinnti hann jafnan mikið landbúnaðarmálum.

Þorsteinn Þorsteinsson var farsæll í embættisstörfum, fjáraflamaður í meira lagi, en hreinskiptinn. Hann var orðheppinn, glettinn og gamansamur, ekki hraðmælskur á málþingum, en ritfær vel. Hann var bókamaður, safnaði bókum frá unglingsárum og átti mikið og dýrmætt bókasafn, sennilega eitthvert dýrmætasta bókasafn í einkaeign hér á landi. Hann var ágætur fræðimaður, ritaði talsvert um landbúnaðarmál og önnur þjóðleg efni og var bréfafélagi í Vísindafélagi Íslendinga frá árinu 1944.

Með Þorsteini Þorsteinssyni er fallinn í valinn einn þeirra manna, er settu svip sinn á Alþingi á sínum tíma. Drættirnir í persónuleika hans voru skýrt markaðir, og hann verður minnisstæður þeim, sem af honum höfðu kynni.

Ég vil biðja hv. alþingismenn að votta minningu þessa merkismanns virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]