16.12.1983
Neðri deild: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef áður í meðferð þessa máls gert grein fyrir mínum skoðunum á öllum efnisatriðum frv. og þess vegna ástæðulaust að halda langa tölu um þau að þessu sinni. Hins vegar hafa komið fram hér brtt. frá annars vegar Kjartani Jóhannssyni o.fl. og hins vegar frá Steingrími J. Sigfússyni o.fl.

Ef fyrst er athuguð brtt. á þskj. 242 frá Steingrími J. Sigfússyni og tveimur öðrum hv. þm., þá er þar á margan hátt skynsamlega tekið á hlutum, en þó sýnast mér vera á ýmsir annmarkar.

1. tölul. í till. kveður á um að auðlindir innan fiskveiðilandhelginnar séu sameign allrar þjóðarinnar. Það er alveg sjálfsagt mál að slíkt sé til í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi og eða þá einhvers staðar annars staðar, það þarf ekki endilega að vera þar, en að ljóst sé að auðæfi miðanna séu þjóðareign. Við mættum einnig af þessu tilefni huga að því, hvort ekki væri skynsamlegt að beita sömu aðferð varðandi önnur verðmæti en verðmæti sjávarins og þá á ég við landið sjálft, þá fari ekki milli mála að landið sé þjóðareign.

2. brtt. fjallar hins vegar um það eins og till. þeirra Alþfl.-manna, — já, það eru þarna mismunandi sósíaldemókratar virðist mér í upptalningunni, — þ.e. till. Kjartans Jóhannssonar o.fl., að Alþingi skuli taka til meðferðar á hverju hausti mótun fiskveiðistefnu. Ég tel ekki aðeins skynsamlegt heldur nauðsynlegt að Alþingi taki á þeim hlutum og marki nokkuð stefnuna í þeim efnum, án þess að ég treysti mér til þess á þessari stundu að nefna sérstaklega hvað væri þar undir í þeirri meðferð. Þessar till. eru sjálfsagt báðar samdar á mjög stuttum tíma og kannske hefur ekki gefist tóm til að gera þær till. eins fullar og þyrfti að vera, en það skiptir ekki máli nú vegna þess að ég tel að þrátt fyrir góðan anda og skynsamlega hugmynd sé því miður ekki hægt að samþykkja þessar till.

Það segir í sjálfri tillgr. að ráðh. skuli leggja till. Hafrannsóknastofnunar og ákvarðanir ráðh. fyrir þingið. Svo segir í þskj. 242, með leyfi forseta: „Skal Alþingi síðan fjalla um mótun fiskveiðistefnu og ákveða stefnuna með þál.“ — Jafnvel þó menn gætu fallist á þessa málsmeðferð, sem mér finnst út af fyrir sig skynsamlegt, þá er tíminn runninn frá okkur og þess ekki kostur að beita þessu í raun. Ég vona að flm. átti sig á því.

Í 3. brtt. á þskj. 242 er fjallað um að setja upp nefnd sem fjallar um framkvæmd stefnu. Það er í eðli sínu ákaflega svipað því sem er nú í frv. sem hér er komið til 2. umr. og í grg. og nál., því að þeir aðilar, eins og það heitir nú til dags, sem þar eru nefndir eru einmitt það fólk sem samráð skal haft við. Þarna er því ekki um mjög frábrugðna hugmynd að ræða. Hins vegar stendur þarna að nefndin skuli... (ÓRG: Hvar stendur þetta í frv.?) Herra forseti. Ég get að vísu ekki gert að því hversu útbreitt ólæsi er í Háskólanum, hvort sem er hjá nemendum eða kennurum. En það er auðvitað alveg ljóst að í frv. er þetta sagt. (ÓRG: Vill ekki þm. lesa það upp fyrir okkur?) Jú, ég leyfi mér að lesa það upp, með leyfi forseta. Á bls. 3 um aths. við einstakar greinar þar segir:

„Sérstaklega skal áréttað og á það lögð áhersla, að náið samráð verður haft við hagsmunaaðila um framkvæmd ákvæða greinarinnar í heild, svo og einstakra þátta hennar.“

Þetta stendur ekki í lagatextanum ef þetta frv. verður að lögum, það vitum við. Og hverjir eru það svo sem hafa óskað eftir því að þetta samráð verði sett í lög? Er það hv. frammíkallandi prófessor, dr. Ólafur Ragnar Grímsson, hv. þm.? Það eru ekki hagsmunaaðilar. Það eru ekki þeir sem eru hvattir til að hafa samráð í þessum efnum. Þeir hafa beðist undan því. Aðeins einn aðili hefur lagt til að það verði gert, en enginn hinna.

Ég tel fyrir mína parta óhæft að ganga fram hjá fulltrúum allra þessara samtaka, sem eru mjög fjölmenn og þessi mál skipta mestu. Þess vegna leit n. svo á að nægilegt væri að taka þetta fram með þeim hætti sem ég hef lesið. Þess er einnig getið í nál. sjútvn. En ég tel og mér sýnist ótvírætt að ekki sé unnt að fara þessa leið vegna þess hversu liðið er á þingtíma og árið og hversu nálægt við erum upphafi veiða árið 1984. Ég tel að þess sé hreinlega ekki kostur. Af þeim ástæðum, þó einar væru, dugar ekki að samþykkja þessa till.

Herra forseti. Í 4. brtt. á þskj. 242 er talað um sérstöðu handfæra- og línuveiða. Þetta hefur verið rætt mikið í n. og hæstv. ráðh. hefur einnig lýst sínum skoðunum í því efni og teljum við það sem betur fer allir skynsamlegt. (SJS: Fyrirgefðu þm. Viltu ekki lesa ákvæði til bráðabirgða?) Já, ég er búinn að því. Það dugar ekki, því miður.

Hin till. á þskj. 235 er svipuðu marki brennd. Auðvitað er mjög margt í þeirri till. nákvæmlega eins og í frv. sjálfu. Um framkvæmd fiskveiðistefnu er einmitt gert ráð fyrir því að þáltill. skuli vera á undan og síðan komi til framkvæmda fiskveiðistefnunnar. Við erum sem sagt orðnir of seinir í þessu efni einnig.

Að vísu er í tillgr. tveimur að hluta til það sama og er í frv. og það sama sem hefur verið framkvæmt til langs tíma. Hámarksafla hefur verið skipt milli togara og báta og ákveðinn hefur verið hámarksafli fyrir mjög margar fisktegundir. Þessi tillgr. er því ekki ný.

En nú er einmitt um það að tefla, eins og segir í 2. lið tillgr., hvort eigi að úthluta aflamagni á einstök skip eða ekki og hvaða viðmiðanir eða forsendur skuli gilda um úthlutun. Þessar tillgr. eru auðvitað um það efni sem á að vera í þáltill. Síðari greinin fjallar einmitt um það sem við erum að greiða atkv. um nú. Ég vil vekja athygli á því. Þið skuluð ekki vera það einsýnir að þið sjáið ekki það frv. sem fyrir liggur og viljið taka annað.

Þarna er talað um kvótadæmið og um það þurfum við að greiða atkv. Viðmiðanir, forsendur og reiknireglur liggja fyrir. Það hefur verið lýst yfir því að farið verði eftir tillögum Fiskiþings í þeim efnum. Þar eru því ekki nein leyndarmál liggjandi.

Um kvóta eða aflamagn er fjallað í báðum till. Ég legg á það áherslu af minni hálfu að ekki sé möguleiki á að selja kvóta milli manna. Ég tel sjálfsagt að hægt sé að nýta kvóta skips sem fellur út af skipaskrá eða þess skips sem kann að vera lagt og þessi kvóti geti farið á önnur skip. En ég legg á það áherslu að það aflamagn fari ekki út úr viðkomandi byggðarlagi, nema þá til byggðarlaga í sama landshluta í því skyni að jafna aflamagn milli fiskvinnslustöðva á svæðinu. Við vitum að sums staðar háttar svo til að ekki er nægilegt hráefni fyrir hendi, en annars staðar er svo ástatt að of mikið hráefni stendur til boða með þeim afleiðingum að flytja hefur þurft erlent vinnuafl til landsins. Það er afar óæskilegt. Þarna skapast einmitt tækifæri til að samræma að nokkru veiðar og vinnslu, hluti sem við höfum talað um hér til langs tíma.

Till. hv. þm. Kjartans Jóhannssonar o.fl. er einnig of seint fram komin. Það er ekki óeðlilegt og það er ekki þeim að kenna. Það er vegna þess að við höfum ekki átt þess kost að fjalla um þessa hluti fyrr en svo seint. Og hvað svo sem menn segja um það hvernig hafi verið haldið á málinu í rn., þá held ég að flestallir geti verið sammála um að óskynsamlegt hefði verið að ganga til svo róttækra breytinga í þessum efnum að Fiskiþingi væri ekki gert kleift að segja sitt álit.

Herra forseti. Ég hef harmað að við skyldum ekki allir í hv. sjútvn. geta staðið saman að flutningi þessa máls vegna þess að ágreiningurinn er tiltölulega lítill. Og ég hélt að þeir sem hafa verið í þessari vinnu og kannað þar allar aðstæður og ástæður hljóti að hafa gert sér ljóst að við áttum þess ekki kost að fara þá leið sem hv. þm. Guðmundur Einarsson nefndi. Ég ætla ekki að gera honum upp óeðlilegar hugmyndir í þessu efni, enda fellst hv. þm. á að nauðsynlegt sé, segir hér í hans nál.,“ að grípa til stórum róttækari aðgerða við stjórn veiðanna heldur en gert hefur verið hingað til.“

Um þessi mál má margt segja og menn hafa auðvitað verið að velta vöngum yfir ýmsum hlutum og sem betur fer flestir af ástæðum sem rekja má til þess að menn hafa nokkrar áhyggjur yfir hvernig hið nýja kerfi muni reynast. Það eru ekki nema örfáir þm. sem hafa rætt þetta einungis frá formlegu hliðinni eða þá af einhverjum öðrum hvötum sem eiga ekki að eiga heima í huga alþm. sem vilja vinna heiðarlega og efnislega að hlutunum. Ég hefði haldið að menn sem setið hafa á hinu háa Alþingi til margra ára vissu hvert er hlutverk þeirra í nefndum. Þar koma menn ekki inn sem fulltrúar ráðh., heldur er þeim falið að fjalla um þessa hluti á efnislegum grundvelli og helst af skynsemi. Ég harma það satt að segja að einn félagi minn skuli hafa látið sitt margfræga ergelsi út í Framsfl. stjórna orðum sínum að þessu sinni, því hér er vissulega um of alvarlega hluti að tefla. Ég mun ekki beita neinum þeim orðum sem kalla mætti hnjóðsyrði í garð slíkra manna, en það er sorglegt ef menn kalla það að verið sé að ganga erinda eins eða annars þegar reynt er eftir bestu getu að fjalla um svo flókið og svo mar breytilegt mál.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að segja margt fleira um þetta að þessu sinni. Ég vil þó ítreka að hæstv. ráðh. og rn. hans hafi í huga að þessi lög, ef þetta frv. verður að lögum, eiga aðeins að gilda í eitt ár. Það þýðir að þeir sem fjalla um þessa hluti verða að taka til við endurskoðun málsins nægilega snemma til þess að þeir lendi ekki í svipaðri tímaþröng og við erum í nú.