18.11.1963
Sameinað þing: 17. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

Minning látinna fyrrv. ráðherra

forseti (BF):

S.l. fimmtudag, 15. nóv., andaðist á sjúkrahúsi hér í Reykjavík Sigurður Kristinsson fyrrv. forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga, 83 ára að aldri. Hann gegndi ráðherrastörfum um skeið fyrir rúmum þremur áratugum og átti sem ráðh. sæti á Alþingi. Vil ég því leyfa mér að minnast hans nokkrum orðum.

Sigurður Kristinsson var fæddur 2. júlí 1880 í Öxnafellskoti í Eyjafirði. Foreldrar hans voru Kristinn bóndi þar Ketilsson bónda í Miklagarði í Eyjafirði Sigurðssonar og kona hans, Hólmfríður Pálsdóttir bónda á Hánefsstöðum í Svarfaðardal Jónssonar. Hann ólst upp með foreldrum sínum á þremur bæjum í Eyjafirði fram til fermingaraldurs. Réðst hann þá að heiman í vinnumennsku og þótti góður fjárhirðir og vænlegt búmannsefni. Haustið 1899 hóf hann nám í Möðruvallaskóla og lauk gagnfræðaprófi þaðan vorið 1901. Næsta vetur stundaði hann barnakennslu í sveit sinni. Haustið 1902 réðst hann verzlunarmaður til Fáskrúðsfjarðar. Árið 1906 sneri hann aftur til Eyjafjarðar og var verzlunarmaður hjá Kaupfélagi Eyfirðinga til ársloka 1917, og veitti hann kaupfélaginu forstöðu öðru hverju á því Umabili. Framkvæmdastjóri Kaupfélags Eyfirðinga var hann á árunum 1918–1923. Þá varð hann forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga og hafði forstöðu þess á hendi fram til ársloka 1945, er hann lét af störfum eftir eigin ósk hálfsjötugur. Formaður stjórnar Sambands ísl. samvinnufélaga var hann síðan 1948–1960. Hann var atvinnumálaráðherra frá 20. apríl til 20. ágúst 1931. Veturinn 1932–1933 átti hann sæti í svokallaðri bændanefnd, sem hafði það hlutverk að kanna hag landbúnaðarins og fjárhagsástæður bænda og gera till. um ráðstafanir til að styrkja fjárhag þeirra.

Sigurður Kristinsson var kominn af traustum ættstofnum á Norðurlandi. Voru þeir fjórir bræður, sem allir urðu þjóðkunnir menn, þrír fyrir störf í þágu samvinnuhreyfingarinnar, en einn fyrir þátt sinn í skóla- og fræðslumálum. Ekki er talið, að hugur Sigurðar hafi í öndverðu staðið til verzlunarstarfa, þótt örlög hans yrðu þau að vinna á því sviði mikið og giftudrjúgt ævistarf. Verzlunarstörf hóf hann hjá frænda sínum austanlands. Um þær mundir var mikil vakning í félagsmálum í landinu, samvinnuhreyfingin að eflast og samvinnufélög um verzlun að ryðja sér til rúms. Hallgrímur Kristinsson var þar í broddi fylkingar, og gerðist Sigurður fljótlega samstarfsmaður bróður síns og síðar eftirmaður, fyrst hjá Kaupfélagi Eyfirðinga, síðar hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Samvinnan varð honum hugsjón og hugðarefni, og hann starfaði að eflingu hennar með ósérplægni og skyldurækni, vann nótt með degi, þegar mikils þurfti með. Við margs konar örðugleika var að stríða á styrjaldar- og kreppuárum, en honum tókst með hagsýni og festu að stýra hjá áföllum, samvinnuhreyfingin breiddist út og efldist og samvinnufélögin urðu fjölmenn og voldug samtök. Seta Sigurðar Kristinssonar í ráðherrastóli var ekki ætluð til langframa, en val hans í það starf á ólgutímum í stjórnmálum sýnir glögglega það traust, sem hann hafði áunnið sér. Hann sat í bráðabirgðastjórn Tryggva Þórhallssonar um fjögurra mánaða skeið og átti sem ráðh. sæti á sumarþingi árið 1931.

Sigurður Kristinsson var friðsamur maður og óáleitinn, dagfarsprúður og yfirlætislaus. Hann var vel látinn og virtur af samstarfsmönnum sínum og vakti traust þeirra, sem við hann áttu að skipta. Honum auðnaðist á langri ævi að vinna mikið gagn þeirri félagsmálastefnu, sem honum var hugfólgin. Við fráfall hans er á bak að sjá hógværum og heilsteyptum manni.

Ég vil biðja hv. alþingismenn að vatta minningu þessa merka manns virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]