04.04.1960
Sameinað þing: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3639 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

Minning látinna fyrrverandi alþingismanna

forseti (SÁ):

Jónas Kristjánsson læknir og fyrrum alþingismaður andaðist í Hveragerði í gær, sunnudaginn 3. apríl, tæplega níræður að aldri.

Jónas Kristjánsson fæddist á Snæringsstöðum í Svínadal 20. sept. 1870. Foreldrar hans voru Kristján bóndi þar Kristjánsson og kona hans, Steinunn Guðmundsdóttir bónda í Kirkjubæ í Norðurárdal Ólafssonar. Hann lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1896 og embættisprófi við læknaskólann í Reykjavík 1901. Að loknu embættisprófi var hann um skeið við framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Hann var skipaður héraðslæknir á Fljótsdalshéraði 1901 og gegndi því embætti fram til 1911. Héraðslæknir í Sauðárkrókshéraði var hann 1911–1938. Eftir þann tíma átti hann lengst af heimili í Reykjavík, stundaði hér lækningar og vann að framgangi hugðarmála sinna. Síðustu ár ævinnar dvaldist hann á heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, var læknir hælisins fyrst í stað og átti þar síðan heimili sitt.

Jónas Kristjánsson varð landskjörinn þingmaður við kosningar 1926 og átti sæti á Alþingi á árunum 1927–1930, sat á fjórum þingum. Á þingi sinnti hann einkum læknamálum og heilbrigðismálum, en lét sig einnig landbúnaðarmál allmiklu varða. Hann var forseti Framfarafélags Skagfirðinga 1914–1938, stofnaði Náttúrulækningafélag á Sauðárkróki 1937 og var einn af forustumönnum Náttúrulækningafélags Íslands frá 1939 til dauðadags.

Jónas Kristjánsson var um tvítugt, þegar hann hóf skólanám, og rúmlega þrítugur, þegar skólagöngu lauk. En starfsævi hans varð löng og starf hans mikið. Hann hóf læknisstörf sín í erfiðu héraði við léleg starfsskilyrði. Hann bjó þar eystra lengst af á Brekku í Fljótsdal og þurfti oft að fara lækningaferðir yfir Fljótsdalsheiði að vetrarlagi. Einatt var þar erfið aðstaða til skurðlækninga í slæmum húsakynnum. En Jónas Kristjánsson var farsæll læknir og vel látinn. Hann sinnti störfum sínum af áhuga og hélt áfram námi, þó að skólagöngu lyki, fór mörgum sinnum til útlanda til að kynna sér lækningar og heilbrigðismál. Á miðjum aldri fór hann að boða hér nýjar leiðir í heilbrigðismálum, heilsuvernd með sérstöku mataræði. Eftir að hann lét af embættisstörfum tæplega sjötugur að aldri, helgaði hann starf sitt að mestu útbreiðslu þeirrar kenningar. Hann hafði mikið starfsþrek langt fram á níræðisaldur, og honum varð mikið ágengt. Með aðstoð félaga sinna í Náttúrulækningafélagi Íslands og fulltingi margra annarra tókst honum að reisa af grunni heilsuhæli, þar sem starfað er að heilsuvernd eftir hinum nýju leiðum náttúrulækningamanna, og afla lækningum þar opinberrar viðurkenningar. Sú stofnun verður bezt vitni um árangur starfa hans á síðari hluta ævinnar.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Jónasar Kristjánssonar læknis með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]