21.11.1962
Sameinað þing: 14. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

Minning látinna manna

forseti (FS):

Sú fregn hefur borizt, að Björn Hallsson á Rangá, fyrrv. alþm., hafi andazt aðfaranótt s.l. sunnudags, 18. nóv., tæpra 87 ára að aldri.

Björn Hallsson fæddist 21. nóv. 1875 að Litla-Steinsvaði í Hróarstungu. Foreldrar hans voru Hallur bóndi þar og síðar á Rangá Einarsson bónda á Litla-Steinsvaði Sigurðssonar og kona hans, Gróa Björnsdóttir bónda í Brúnavík, síðar á Bóndastöðum, Björnssonar. Hann lauk prófi úr Möðruvallaskóla 1893 og gerðist sama ár bóndi að Rangá í Hróarstungu, rak þar bú fram á níræðisaldur og átti þar heimili til dánardags.

Mannkostir Björns Hallssonar og staðgóð menntun hans í Möðruvallaskóla gerðu hann að sjálfkjörnum forustumanni á mörgum sviðum í sveit sinni og héraði. Hann var hreppstjóri Tungusveitar rúm 50 ár, sýslunefndarmaður á þriðja áratug, í stjórn Búnaðarsambands Austurlands um langan tíma, formaður þess 1940–1948, sat árum saman í stjórn Eiðaskóla, var einn af hvatamönnum að stofnun Kaupfélags Héraðsbúa og löngum í stjórn þess. Á búnaðarþingi átti hann sæti 1923–1929 og 1933–1945. Þingmaður Norðmýlinga var hann tvívegis, 1914–1915 og 1920–1923, sat á 6 þingum alls. Í póstmálanefnd var hann skipaður 1928.

Liðnir eru nær fjórir áratugir, frá því er Björn Hallsson sat á Alþingi, og nú eru allir þeir menn, sem áttu hér með honum sæti, horfnir frá þingstörfum. Ræður hans á þingi bera honum það vitni, að hann hafi verið hygginn maður, athugull og varkár. Störf hans á búi sínu og í héraði bera vitni atorkumanni, sem notið hefur mikils trausts þeirra, sem af honum höfðu mest kynni. Hann hefur getið sér það orð, að hann hafi verið góður búmaður og heimilisfaðir, höfðingi heim að sækja, afkastamaður við störf, drengskaparmaður í hvívetna, góðgjarn, hollráður og hjálpfús. Nú er hann látinn í hárri elli að loknu miklu ævistarfi.

Ég vil biðja hv. alþm. að rísa úr sætum og votta með því minningu hins látna bændahöfðingja virðingu sína. — [Þingmenn risu úr sætum.]