14.12.1962
Sameinað þing: 22. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

Minning látinna manna

forseti (FS):

Áður en þingstörf hefjast í dag, vil ég leyfa mér að minnast hér nokkrum orðum nýlátins fyrrv. alþm:, Gunnars Sigurðssonar frá Selalæk, sem lézt í sjúkrahúsi hér í bæ í gær, fimmtudaginn 13. des., 74 ára að aldri.

Gunnar Sigurðsson var fæddur 14. júlí 1888 að Hellu í Ásahreppi. Foreldrar hans voru Sigurður bóndi þar og síðar á Selalæk Guðmundsson bónda á Keldum Brynjólfssonar og kona hans, Ingigerður Gunnarsdóttir bónda í Eystri-Kirkjubæ Einarssonar. Hann lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1911, var við laganám í Kaupmannahafnarháskóla veturinn 1911–1912, en nam síðan lögfræði við Háskóla Íslands og lauk prófi vorið 1917. Hann var ritstjóri dagblaðsins Vísis 1914–1915. Að loknu lögfræðiprófi stundaði hann málflutning við landsyfirdóminn og síðar hæstarétt á árunum 1917–1922. Bóndi á Selalæk var hann 1924–1928. Fluttist hann síðan aftur til Reykjavíkur og átti hér heimili til æviloka. Vann hann á þeim árum ýmis lögfræðistörf og sinnti margvíslegum hugðarmálum sínum. Hann var þm. Rangæinga 1920–1923 og 1925–1931, sat á 8 þingum alls. Yfirskoðunarmaður landsreikninga var hann kjörinn á þingunum 1928 og 1929, og á árinu 1929 var hann skipaður formaður fasteignamatsnefndar Reykjavíkur og lóðamatsnefndar.

Gunnar Sigurðsson fékkst við margt um ævidagana og átti sér mörg áhugamál. Á háskólaárum sínum gerðist hann ritstjóri og var gunnreifur og harðskeyttur baráttumaður. Um hálffertugt hvarf hann frá lögfræðistörfum í Reykjavík að búskap austur í Rangárvallasýslu, og á hinum síðari Reykjavíkurárum sínum rak hann um skeið stórbú þar eystra. Hann kom víðar við í athöfnum sínum en hér verður talið. Þess skal getið, að um langt skeið stundaði hann fasteignasölu, hrossaverzlun og fékkst við síldarútgerð. Hann var og mikill áhugamaður um loðdýrarækt og einn af stofnendum Veiði- og loðdýraræktarfélags Íslands 1931 og formaður þess. Hann safnaði kímnisögum og lausavísum og gaf út mikið safn þess háttar gamanmála, eins og alkunnugt er. Í landsmálum fór hann eigin götur, var á yngri árum landvarnarmaður og sjálfstæðismaður, en eftir að Ísland hafði öðlazt fullveldi, var hann lítt bundinn stjórnmálaflokkum. Í þau tvö skipti, sem hann var kosinn til setu á Alþingi, var hann í framboði utanflokka.

Gunnar Sigurðsson var mikill vexti og karlmannlegur í fasi. Hann var einarður og hispurslaus og átti sér ríka kímnigáfu og var mikill gleðimaður Honum var gefin djörfung og áræði, framtakssemi og höfðingsskapur. Hann átti misjöfnu veraldargengi að fagna um ævina, en persónuleiki hans var jafnan samur við sig, sérstæður og stórbrotinn.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Gunnars Sigurðssonar frá Selalæk með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]