19.12.1962
Sameinað þing: 23. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

Minning látinna manna

forseti (FS):

Áður en gengið er til dagskrár, vil ég leyfa mér að minnast Sigurðar E. Hlíðar fyrrv. yfirdýralæknis og alþm., sem lézt í Landakotsspítala í gær, 18. des., 77 ára að aldri.

Sigurður E. Hlíðar var fæddur 4. apríl 1885 í Hafnarfirði. Foreldrar hans voru Einar organisti og trésmiður þar Einarssonar bónda í Laxárdal í Eystrahrepp Einarssonar og kona hans, Sigríður Jónsdóttir bónda í Hörgsholti í Ytra-hrepp Jónssonar. Hann lauk fjórða bekkjar prófi í Lærða skólanum í Reykjavík 1904 og embættisprófi í dýralækningum við dýralækna- og landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn 1910. Síðar var hann á þriggja mánaða námskeiði við sama skóla, á árinu 1922, og veturinn 1929–30 stundaði hann nám í efnagreiningu mjólkur og kjarnfóðurs og jarðvegsrannsóknum við rannsóknarstofnun í Kiel. Árið 1910 var hann skipaður dýralæknir á Norður- og Austurlandi með búsetu á Akureyri. Gegndi hann því embætti fram til ársins 1943, er hann var skipaður dýralæknir í Reykjavík og yfirdýralæknir landsins. Af dýralæknisembætti í Reykjavík lét hann 1950, en yfirdýralæknisembætti gegndi hann til sjötugsaldurs.

Sigurður E. Hlíðar var valinn til ýmissa trúnaðarstarfa og vann að ýmsum félagsstörfum jafnframt embætti sínu. Hann var stjórnarnefndarmaður Ræktunarfélags Norðurlands frá 1912–1943, og formaður þess 1921–1943. Í bæjarstjórn Akureyrar átti hann sæti 1917–1938 og var forseti hennar frá 1932. Heilbrigðisfulltrúi á Akureyri var hann 1918–1943. Hann átti sæti á búnaðarþingi 1921–31. Þm. Akureyringa var hann 1937–1949, sat á 17 þingum alls. Hann var kosinn í fulltrúaráð Rannsóknarstofnunar háskólans 1936 og formaður mþn. í mjólkurmálum 1943. Hann átti sæti í stjórn Stúdentafélagsins á Akureyri, Taflfélags Akureyrar og Leikfélags Akureyrar, var formaður Dýralæknafélags Íslands 1935–1943 og formaður Dýraverndunarfélags Íslands um langt skeið. Hann sinnti ýmsum ritstörfum, stofnaði blaðið Íslending á Akureyri 1915 og var ritstjóri þess til 1920, var ritstjóri Dagblaðsins á Akureyri 1914–1915 og Einars Þveræings 1926 og ritaði fjölda greina í erlend og innlend tímarit og blöð. Hann samdi og gaf út nokkur rit um búfjársjúkdóma. Hann var og kunnáttumaður og áhugamaður um mannfræði og ættfræði, og eftir að hann lét af embætti, gaf hann út mikið rit um Árnesingaættir.

Sigurður E. Hlíðar gegndi um langt skeið annasömu embætti af árvekni og áhuga, en sinnti jafnframt því fjöldamörgum störfum öðrum af alúð og ósérhlífni, eins og ráða má af því, sem hér hefur verið rakið af æviferli hans. Hann vann á löngum embættisferli giftudrjúg störf fyrir bændastétt landsins. Hann var ljúfmenni og gott til hans að leita með ýmis vandamál, afburða vinsæll og vel látinn af öllum, sem við hann þurftu að skipta, stefnufastur í skoðunum, en samvinnuþýður í félagsmálum.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Sigurðar E. Hlíðar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]