10.10.1960
Sameinað þing: 0. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning látinna fyrrverandi þingmanna

Aldursforseti (GíslJ):

Áður en þingstörf hefjast, vil ég minnast tveggja manna, sem sæti hafa átt á Alþingi og látizt hafa, eftir að síðasta þingi var slitið, þeirra Helga Jónassonar læknis og Péturs Hannessonar póst- og símstjóra.

Helgi Jónasson læknir andaðist að heimili sínu hér í bæ 20. júlí s.1., 66 ára að aldri. Hann átti sæti á Alþingi um langt skeið, en varð fyrir nokkrum árum að draga sig í hlé frá flestum opinberum störfum vegna vanheilsu.

Helgi Jónasson fæddist að Reynifelli á Rangárvöllum 19. apríl 1894. Foreldrar hans voru Jónas. bóndi þar Árnason, er þar bjó einnig, Guðmundssonar og kona hans, Sigríður Helgadóttir bónda í Árbæ í Holtum Jónssonar. Hann lauk stúdentsprófi frá menntaskólanum í Reykjavík árið 1916 og embættisprófi í læknisfræði við Háskóla Íslands 1922. Hann dvaldist um missirisskeið 1922–1923 við störf í sjúkrahúsum í Kaupmannahöfn, en var að öðru leyti staðgöngumaður héraðslæknisins í Rangárhéraði 1922–1925. Á árinu 1925 var hann skipaður héraðslæknir í Rangárhéraði, og því embætti gegndi hann til ársloka 1955. Hann sat á Stórólfshvoli og rak þar stórbú jafnframt læknis störfum sínum. Ýmsum trúnaðarstörfum gegndi hann í sveit sinni og héraði. Hann var lengi formaður sparisjóðs Rangárvallasýslu, var formaður skólanefndar Hvolhrepps, átti sæti í sóknarnefnd og hreppsnefnd. Hann var þingmaður Rangæinga á árunum 1937–1956, sat á 24 þingum alls. Í tryggingaráð var hann skipaður 1938 og átti þar sæti til æviloka, var formaður þess frá 1954. Á árinu 1958 var hann skipaður í mþn. til að endurskoða ákvæði almannatryggingalaga um lífeyrisgreiðslur. Síðustu æviár sín átti hann heimili í Reykjavík.

Helgi Jónasson var Rangæingur að ætt og uppruna, og í þágu Rangæinga vann hann meginhluta ævistarfs síns. Hann var um áratugi læknir í fjölmennu og víðlendu héraði og varð framan af að vitja sjúklinga um vegleysur og yfir óbrúuð stórfljót. Hann sýndi djörfung og þrótt í löngum og erfiðum ferðalögum og hlaut vinsældir meðal héraðsbúa fyrir læknisstörf sín. Hann var þrekmenni að uppruna, en ósérhlífinn í erilsömum störfum og missti heilsu fyrir aldur fram. Á Alþingi átti hann jafnan sæti í fjvn. og lengi sat hann í heilbr.- og félmn. Í nefndarstörfum lét hann ekki hlut sinn eftir liggja, en tók hins vegar ekki mikinn þátt í umr. í þingsal.

Helgi Jónasson var mikill vexti og skapríkur. Hreinskilni hans og drengskapur vöktu á honum traust, og fljótt kom í ljós hjálpsemi og góðvild þess manns, sem ungur að árum valdi sér það ævistarf að líkna sjúkum mönnum og þjáðum.