10.10.1968
Sameinað þing: 0. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning látinna fyrrv. þingmanna

Aldursforseti (Sigurvin Einarsson):

Frá því að síðasta Alþingi var slitið hinn 20. apríl, hafa fallið frá þrír fyrrv. alþm., og vil ég leyfa mér að minnast þeirra í nokkrum orðum, áður en horfið verður að lögbundnum störfum þessa fundar.

Menn þessir eru Sigurður Kristjánsson fyrrv. forstjóri, sem lézt 27. maí, Jónas Þorbergsson fyrrv. útvarpsstjóri, sem lézt 6. júní, og Jónas Jónsson fyrrv. ráðh. og skólastjóri, sem lézt 19. júlí. Voru þeir allir 83 ára að aldri.

Sigurður Kristjánsson var fæddur 14. apríl 1885 að Ófeigsstöðum í Ljósavatnshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Foreldrar hans voru Kristján bóndi þar Árnason, bónda á Hóli í Ljósavatnshreppi Kristjánssonar, og kona hans, Kristín Ásmundsdóttir, bónda í Heiðarseli og á Stöng í Mývatnssveit Jónssonar. Hann ólst upp í hópi margra systkina, sótti unglingaskóla heima í héraði og fór tvítugur að aldri í Bændaskólann að Hólum, en þaðan lauk hann prófi 1907. Að loknu búfræðinámi starfaði hann um skeið hjá Ræktunarfélagi Norðurlands, en réðst síðan til Búnaðarsambands Vestfjarða og var ráðunautur þess í 7 ár. Jafnframt því starfi stundaði hann á vetrum nám í Kennaraskólanum og lauk kennaraprófi vorið 1910. Hann var skólastjóri barnaskólans í Bolungarvík veturinn 1910–1911, skólastjóri iðnskóla á Ísafirði í 3 ár og kennari við barnaskólann þar 1915–1930. Á Ísafirði stofnaði hann blaðið Vesturland og var ritstjóri þess 1923–1930. Árið 1930 fluttist hann til Reykjavíkur og var ritstjóri Ísafoldar og Varðar 1930–1932 og Heimdallar 1932–1934. Árið 1934 varð hann framkvstj. Sjálfstfl. og gegndi því starfi um skeið og um langt árabil átti hann sæti í miðstjórn þess flokks. Forstjóri Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum var hann á árunum 1939-1956, en lét þá af þeim störfum fyrir aldurs sakir.

Sigurður Kristjánsson átti sæti á Alþingi á árunum 1934–1949, var þm. Reykv. nema á sumarþinginu 1942, er hann var landsk. þm. Sat hann á 21 þingi alls. Hann var valinn til ýmissa annarra trúnaðarstarfa, sat í bæjarstjórn Ísafjarðar 1916–1922, 1924–1927 og 1930–1931. Var hann í skattanefnd þar í 6 ár og í fasteignamatsnefnd árið 1930. Hann átti sæti í mþn. í sjávarútvegsmálum 1932–1933 og 1938–1939, í Landsbankanefnd 1936–1956 og í Þingvallanefnd 1937–1942.

Sigurður Kristjánsson hafði á langri ævi náin kynni af atvinnuvegum þjóðarinnar og margs konar þjóðmálum. Hann ólst upp við landbúnaðarstörf, nam búfræði og leiðbeindi um ræktun lands framan af ævi sinni. Á miðjum aldri sinnti hann um langt skeið fræðslu barna og unglinga og síðasta hluta starfsævi sinnar fjallaði hann mikið um sjávarútvegsmál. Á því skeiði ævinnar var hann lengi alþm. og lét sjávarútvegsmál mest til sín taka á Alþingi.

Sigurður Kristjánsson naut vinsælda í kennarastarfi. Í blaðamennsku og annars staðar á vettvangi stjórnmála var hann harðskeyttur baráttumaður, stefnufastur og hreinskilinn, ritfær vel og djarfur í sókn og vörn. Hann naut mikils trausts meðal samherja sinna í stjórnmálum. Hann átti einnig við harða mótstöðu að etja á því sviði, svo sem títt er um slíka málafylgjumenn. En þrátt fyrir snarpar sennur við andstæðinga sína í stjórnmálum um stefnumál, deildi hann geði við þá af ljúfmennsku um önnur málefni og átti meðal þeirra trausta vini.

Jónas Þorbergsson var fæddur 22. janúar 1885 á Helgastöðum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Foreldrar hans voru Þorbergur bóndi þar Hallgrímsson, bónda í Hraunkoti í Aðaldælahreppi Þorgrímssonar, og kona hans, Þóra Hálfdánardóttir, síðast bónda á Öndólfsstöðum Björnssonar. Haustið 1906 hóf hann nám í Gagnfræðaskólanum á Akureyri og lauk þaðan gagnfræðaprófi vorið 1909. Að námi loknu var hann einn vetur barnakennari í Reykjadal, en fór til Kanada sumarið 1910. Þar dvaldist hann 6 ár og stundaði margs konar störf. Eftir heimkomuna frá Kanada var hann um skeið við búskap á Arnarvatni, en fluttist til Akureyrar árið 1920 og varð ritstjóri Dags. Á árinu 1927 fluttist hann til Reykjavíkur og tók við ritstjórn Tímans. Um áramótin 1929-1930 lét hann af því starfi, er hann varð forstöðumaður nýstofnaðs ríkisútvarps og var hann síðan útvarpsstjóri fram á árið 1953. Hann átti sæti á Alþingi 1931-1933, var þingmaður Dalamanna og sat á þremur þingum. Í mþn. í kirkjumálum var hann 1929-1930.

Jónas Þorbergsson ólst upp við þröngan efnahag, var þjáður af berklaveiki í æsku og á unglingsárum og varð að sjá á bak nánum ættingjum og ástvinum, sem berklar urðu að aldurtila. Síðar á árum var hann ötull forvígismaður og félagi í samtökum þeirra manna, sem háðu langa og sigursæla baráttu til þess að vinna bug á hinum skæða sjúkdómi. Hann átti ekki kost langrar skólagöngu, en var fjölmenntaður, og vesturförin mun hafa reynzt honum þroskavænleg. Hann var snjall blaðamaður á tímum mikilla átaka og hörku í íslenzkum stjórnmálum. Hálffimmtugum var honum falin forstaða nýrrar stofnunar, ríkisútvarpsins, sem varð á skömmum tíma áhrifamikill þáttur í þjóðlífinu, boðberi menningar og skemmtunar um land allt. Er óhætt að segja, að hann hafi unnið það brautryðjandastarf af alhug og tekizt vel að móta starfsemi stofnunarinnar Jónas Þorbergsson var tæplega sjötugur að aldri, er hann lét af störfum útvarpsstjóra, en starfsþrek hans entist honum fram undir banadægur. Á ritstjórnarárum sínum varð hann kunnur af snilldartökum á rituðu máli og síðustu æviárin var hann afkastamikill rithöfundur, samdi m.a. æviminningar sínar og ritaði mikið um hugðarefni sitt, sálarrannsóknir og líf að loknu þessu.

Jónas Jónsson var fæddur 1. maí 1885 í Hriflu í Ljósavatnshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Foreldrar hans voru Jón bóndi þar Kristjánsson, bónda í Sýrnesi í Aðaldal Jónssonar, og kona hans, Rannveig Jónsdóttir, bónda á Gvendarstöðum í Kinn Jónssonar. Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri vorið 1905, var kennari við unglingaskóla í Ljósavatnshreppi veturinn 1905–1906 og stundaði síðan framhaldsnám erlendis á árunum 1906–1909, var í lýðháskólanum í Askov, í Kaupmannahöfn, í Berlín, í Oxford, London og París. Að námsferðum þessum loknum varð hann kennari við Kennaraskólann og gegndi því starfi árin 1909–1918. Hann átti frumkvæði að stofnun Samvinnuskólans árið 1918 og varð þá skólastjóri hans, og það starf hafði hann með höndum fram á árið 1956, að undanskildum árunum 1927–1931, er hann gegndi ráðherrastörfum.

Jónas Jónsson átti sæti á Alþingi á árunum 1922–1949, var fyrst landsk. þm., síðan þm. S-Þing. Alls sat hann á 34 þingum. Hann var dóms- og menntmrh. árin 1927–1931, að undanteknum 4 mánuðum á árinu 1931, eftir að þing hafði verið rofið og meðan efnt var til alþingiskosninga. Hann var kosinn í mþn. um bankamál 1925, átti sæti í dansk-íslenzkri ráðgjafarnefnd 1926–1939, í Alþingishátíðarnefnd 1926–1930, í Þingvallanefnd 1928–1946, í menntamálaráði 1934–1946, í orðunefnd 1935–1944, og hann átti lengi sæti í bankaráði Landsbankans. Hann var formaður Framsfl. 1934–1944. Ritstjóri Skinfaxa, tímarits ungmennafélaganna, var hann 1911–1917, ritstjóri Tímarits samvinnufélaganna 1917–1927, Samvinnunnar 1926–1927 og 1931–1946 og Ófeigs 1944–1956.

Jónas Jónsson ólst upp í héraði, þar sem menningarvakning og menningarstraumar, innlendir og erlendir áttu sér greiðan farveg á unglingsárum hans. Hann var í þeim efnum vel að heiman búinn, er hann fór til náms, fyrst innanlands, síðan erlendis. Hann var gæddur miklum námsgáfum, afhugull og minnugur, og honum nýttist vel til menntunar frekar stuttur námsferill. Hann bjó sig undir kennslu og uppeldisstörf, og kennsla og skólastjórn var aðalstarf hans lengst ævinnar. Hann var frábær kennari, og honum var alla tíð lagið að umgangast ungt fólk og miðla af þekkingu sinni og lífs reynslu. Við heimkomuna gerðist hann þátttakandi í ungmennafélagshreyfingunni, sem var þá ung að árum, en átti miklu fylgi að fagna, og hann varð brátt ritstjóri málgagns hennar, Skinfaxa. Samvinnuhreyfingunni kynntist hann á uppvaxtarárum sínum, tók ástfóstri við hana, varð ritstjóri tímarits hennar og skólastjóri á hennar vegum þrítugur og vann að eflingu hennar á þeim vettvangi það ævistarf, sem lengi mun minnzt verða.

Merkasti og kunnasti þáttur í ævistarfi Jónasar Jónssonar frá Hriflu eru afskipti hans af stjórnmálum. Um þrítugsaldur átti hann ríkan þátt í stofnun tveggja stjórnmálasamtaka, annars vegar flokks verkamanna, Alþfl., hins vegar Framsfl. Í Framsfl. haslaði hann sér völl í þróttmikilli og harðri baráttu, var þar lengi forystumaður og mikill ráðamaður, þótt ekki yrði hann formaður flokksins fyrr en löngu síðar. Hann var ótrauður málsvari flokksins í málgagni hans, í kappræðum á Alþingi og á fundum um land allt, eignaðist einhuga stuðningsmenn og aðdáendur og svarna andstæðinga. Í ráðherradómi var hann hugmyndaríkur og framtakssamur. Hann var frumkvöðull að miklum og merkum framkvæmdum á mörgum sviðum, en einkum þó í menntamálum og heilbrigðismálum. Mun þjóðin lengi búa að þeim verkum hans.

Það varð hlutskipti hans að hverfa úr forystusveit flokksins á góðum starfsaldri, en stjórnmál voru honum jafnan hugleikin og hann barðist djarflega til æviloka í ræðu og riti fyrir þeim málefnum, sem hann taldi landi og lýð til velfarnaðar. Ævisaga Jónasar Jónssonar frá Hriflu er svo stórbrotin, hugsjónir hans og framkvæmdir svo víðtækar. áhrif hans svo gagnger, að lengi mun uppi. Hann var mælskur maður í kappræðum. ritfær með afbrigðum, skrifaði mikið um margvísleg efni, samdi vinsælar kennslubækur, ritaði um þjóðmál og dægurmál, um sögu landsins, bókmenntir og listir og lét sér fátt óviðkomandi. Við fráfall hans á þjóðin á bak að sjá miklum hugsjónamanni, hugkvæmum brautryðjanda, snjöllum rithöfundi, dáðríkum stjórnmálamanni, einum svipmesta persónuleika á þessari öld.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast þessara þriggja látnu merkismanna, Sigurðar Kristjánssonar, Jónasar Þorbergssonar og Jónasar Jónssonar, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum].