17.12.1968
Sameinað þing: 23. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2185 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

Minning látinna fyrrv. alþingismanna

forseti (BF):

Til þessa fundar er boðað til þess að minnast Péturs Ottesen fyrrv. alþm. og bónda á Ytra-Hólmi, sem varð bráðkvaddur á heimili sínu í gær, áttræður að aldri.

Pétur Ottesen var fæddur á Ytra-Hólmi á Akranesi 2. ágúst 1888. Foreldrar hans voru Oddgeir bóndi og kaupmaður þar Pétursson Ottesens dannebrogsmanns á Ytra-Hólmi Lárussonar og kona hans, Sigurbjörg Sigurðardóttir bónda á Efstabæ í Skorradal Vigfússonar. Hann átti heima á Ytra-Hólmi alla ævi, ólst þar upp hjá foreldrum sínum, varð bóndi árið 1916, rak stórbú um áratugi og lét búsforráð að miklu leyti í hendur syni sínum, þegar aldur færðist yfir.

Pétur Ottesen komst ekki hjá því, að honum væru jafnframt búrekstri falin margvísleg trúnaðarstörf í þágu sveitar sinnar og héraðs, stéttarsamtaka bænda og þjóðarinnar allrar. Haustið 1916 kusu sýslungar hann til setu á Alþingi, 28 ára að aldri, og var hann síðan fulltrúi þeirra á Alþingi á meðan hann gaf kost á því, en hann lét af þingmennsku vorið 1959. Hann var því þingmaður í nær 43 ár samfleytt, lengur en nokkur maður annar frá því að Alþingi var endurreist 1845, og sat á 52 þingum alls. Hann átti lengi sæti í hreppsnefnd og var hreppstjóri frá 1918 til dánardags. Hann var í sýslunefnd 51 ár samfellt og átti sæti í fasteignamatsnefnd. Í stjórn Sláturfélags Suðurlands var hann frá 1929, formaður þess frá 1948, í stjórn Búnaðarfélags Íslands frá 1942, átti um skeið sæti í Framleiðsluráði landbúnaðarins og var í stjórn Fiskifélags Íslands 1945–1966. Hann átti sæti í Landsbankanefnd 1928 til 1930 og 1938 til 1945 og var í stjórn Sementsverksmiðju ríkisins.

Pétur Ottesen átti ættir að rekja til athafnasamra búhölda og frábærra gáfumanna í Borgarfjarðarsýslu. Hann stundaði á unglingsárum sjóróðra jafnframt landbúnaðarstörfum, kynntist gjörla atvinnuháttum þjóðar sinnar til lands og sjávar, vann alla ævi jöfnum höndum að bættum hag landbúnaðar og sjávarútvegs og naut þess trausts að verða kjörinn forustumaður í landssamtökum þessara tveggja höfuðatvinnuvega landsmanna um langt skeið. Ekki hefur hann þó látið hlut sinn eftir liggja, þegar unnið hefur verið að eflingu iðnaðar í landinu, var t. d. ötull hvatamaður að stofnun sementsverksmiðju, sem reist var í kjördæmi hans, og gegndi þar stjórnarstörfum.

Pétur Ottesen naut mikilla persónulegra vinsælda og trausts í kjördæmi sínu. Hann átti jafnan vísan stuðning mikils meiri hluta kjósenda í alþingiskosningum, þótt við mæta og mikilhæfa andstæðinga væri að etja, og fyrir kom, að hann væri sjálfkjörinn án mótframboðs til þingsetu. Hann brást ekki heldur trausti kjósenda sinna, hafði náin kynni af sýslungum sínum öllum, þekkti vilja þeirra og óskir og vann ötullega að því að hlutur þeirra yrði ekki fyrir borð borinn á sviði hvers konar verklegra framkvæmda.

Pétur Ottesen hóf starf sitt á Alþingi á þeim árum þegar náð var mikilvægum áfanga í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og stefnt að algjöru sjálfstæði. Er landslýð í fersku minni, er hann fyrir rúmum tveimur vikum rifjaði upp í áheyrn alþjóðar ýmsa viðburði frá lokastigi þess áfanga í tilefni af hálfrar aldar afmæli fullveldisins. Hann var jafnan í hópi þeirra, sem fylgdu fast fram kröfum um sjálfstæði þjóðarinnar, barðist fyrir endurheimt íslenzkra handrita úr höndum Dana og vildi standa fast á rétti Íslendinga til Grænlands. Friðun fiskimiðanna umhverfis Ísland og réttur íslenzku þjóðarinnar til þeirra var honum mikið áhuga- og baráttumál. Hann unni þjóðlegum fróðleik og var einn af forustumönnum Rímnafélagsins. Hann var bindindismaður og ötull liðsmaður í félagi góðtemplara.

Pétur Ottesen var mikill eljumaður og ósérhlífinn, hvort sem hann vann heima á búi sínu, sinnti félagsstörfum eða sat á Alþingi. Hann sóttist ekki eftir vegtyllum, skoraðist að sögn undan miklum virðingarstöðum, sem voru í boði af hálfu flokksbræðra hans, og sat lengi vel hér í þingsalnum að eigin ósk í sæti frammi við dyr. Hann var mælskumaður, talaði hátt og snjallt, sagði skoðanir sínar afdráttarlaust og einarðlega. Hann var hreinlundaður skapmaður, en naut trausts og vinsælda vegna,skapfestu, grandvarleika og vilja til að leggja góðum málum lið og leysa vandræði manna. Hann var einn af mestu þingskörungum Íslendinga, svipmikill og sjálfstæður.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Péturs Ottesen með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]