02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

Minning Halldórs Stefánssonar

forseti (BF):

Halldór Stefánsson fyrrv. alþm. og forstjóri Brunabótafélags Íslands lézt að heimili. sínu hér í borg í gærmorgun, 93 ára að aldri.

Halldór Stefánsson var fæddur að Desjamýri í Norður-Múlasýslu 26. maí 1877. Foreldrar hans voru Stefán prestur þar Pétursson prests á Valþjófsstað Jónssonar og kona hans, Ragnhildur Metúsalemsdóttir bónda í Möðrudal Jónssonar. Hann stundaði nám í Möðruvallaskóla 1895–1897. Næstu ár var hann verkstjóri og heimiliskennari á Egilsstöðum á Völlum og Skriðuklaustri í Fljótsdal. Hann var forstöðumaður söludeildar Pöntunarfélags Fljótsdalshéraðs á Seyðisfirði 1903–1909, bóndi í Hamborg í Fljótsdal var hann 1909–1921 og á Torfastöðum í Vopnafirði 1921–1928. Á árinu 1928 var hann skipaður forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, þ.e. Brunabótafélags Íslands og Slysatrygginga ríkisins, og gegndi því starfi til 1936, en var síðan á árunum 1936–1945 forstjóri Brunabótafélags Íslands.

Halldór Stefánsson gegndi ýmsum störfum í þágu sveitar sinnar og héraðs, meðan hann var búsettur á Austurlandi. Alþm. var hann 1924–1933, sat á 12 þingum alls. Hann var formaður mþn. í skattamálum 1928–1932, átti sæti í Landsbankanefnd 1928–1935 og var formaður hennar 1934–1935, og hann var formaður í stjórn Tryggingasjóðs sparisjóða 1944-1961.

Halldór Stefánsson náði háum aldri og hélt góðri heilsu og starfskröftum fram á elliár. Hann aflaði sér góðrar menntunar, þótt námstími í skóla væri skammur, gerðist ungur ráðsmaður á stórbúi, fékkst við verzlunarstörf nokkur ár, var bóndi um skeið og loks forstöðumaður opinberrar stofnunar. Fóru honum öll þessi störf vel úr hendi. Hann átti sæti á Alþ. einn áratug ævi sinnar, var enginn málskrafsmaður, en glöggsýnn og rökfastur. Hann hætti að mestu afskiptum af stjórnmálum á góðum aldri, gegndi forstjóraembætti þar til aldur tók að færast yfir hann, en fór jafnframt að sinna austfirzkum fræðum. Rannsakaði hann margt og ritaði um sögu og ættir Austurlands, auk nokkurra ritstarfa á öðrum sviðum. Honum entust lengi starfskraftar til að sinna þessum hugðarefnum sínum, og mun þeirra verka hans lengi sjá stað.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Halldórs Stefánssonar með því að rísa úr sætum.