01.11.1971
Sameinað þing: 8. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

Minning látinna fyrrv. þingmanna

Forseti (EystJ):

Kristín L. Sigurðardóttir fyrrv. alþm. andaðist í gær, 31. okt., í sjúkrahúsi hér í borg eftir langvarandi vanheilsu, 73 ára að aldri. Vil ég leyfa mér að minnast hennar með nokkrum orðum, áður en gengið verður til dagskrár.

Kristín L. Sigurðardóttir var fædd í Reykjavík 23. marz 1898. Foreldrar hennar voru Sigurður síðar stofnandi og skólastjóri lýðháskólans að Hvítárbakka í Borgarfirði Þórólfsson bónda að Holti og síðar á Skriðnafelli á Barðaströnd Einarssonar og fyrri kona hans, Anna Guðmundsdóttir skipstjóra í Hafnarfirði Ólafssonar. Kristín stundaði barnaskólanám í Reykjavík og framhaldsnám í Hvítárbakkaskóla tvo vetur og var síðan við verzlunar- og skrifstofustörf í Reykjavík á árunum 1915–1918. Frá 1919 og svo lengi sem heilsa entist gegndi hún húsmóðurstörfum í Reykjavík.

Kristín L. Sigurðardóttir vann um langt skeið mikið starf að ýmiss konar félagsmálum. Hún var í framkvæmdanefnd kvennaheimilisins Hallveigarstaða 1945–1966, formaður þeirrar nefndar 1950–1966, í áfengisvarnanefnd kvenna 1946–1966 og formaður hennar 1946–1948, í orlofsnefnd húsmæðra 1961–1966, í barnaverndarnefnd 1962–1966 og í mæðrastyrksnefnd allmörg ár. Hún var í stjórn Húsmæðrafélags Reykjavíkur um skeið og átti sæti í stjórn Kvenréttindafélags Íslands 1952–1968, var kjörin heiðursfélagi þess, er hún lét af stjórnarstörfum. Enn fremur starfaði hún mikið í Góðtemplarareglunni á árunum 1937–1954. Hún var í stjórn sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar 1937–1967, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna 1956–1965 og vann ýmis önnur trúnaðarstörf í þágu Sjálfstfl. Hún átti sæti á Alþingi kjörtímabilið 1949–1953 og tók auk þess nokkrum sinnum sæti á Alþingi sem varaþm. á árunum 1953–1956. Sat hún á sjö þingum alls.

Af starfsferli þeim, sem hér hefur verið rakinn, má glöggt sjá, að Kristín L. Sigurðardóttir hefur jafnframt húsmóðurstörfum á rausnarheimili látið sig margt varða í félagsmálum samborgara sinna og valdist þar mjög til forustu. Hún var fremur hlédræg, en lá ekki á liði sínu, er til hennar var leitað til stuðnings þeim málefnum, sem hún bar fyrir brjósti, og hún vildi í engu bregðast þeim skyldum, sem hún tók sér á herðar.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Kristínar L. Sigurðardóttur með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]