10.10.1957
Sameinað þing: 1. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2962)

Minning Barða Guðmundssonar

Aldursforseti (Jóhann Jósefsson):

Hæstvirtir handhafar forsetavalds. Háttvirtir alþingismenn. Frá því er síðasta þingi sleit, hefur látizt einn fyrrverandi alþingismaður; Barði Guðmundsson þjóðskjalavörður, sem andaðist að heimili sínu hér í bæ 11. ágúst s.l., 56 ára að aldri.

Barði Guðmundsson fæddist 12. október árið 1900 á Þúfnavöllum í Hörgárdal, sonur Guðmundar bónda þar Guðmundssonar og konu hans, Guðnýjar Loftsdóttir bónda í Baugaseli í Barkárdal Guðmundssonar. Hann brautskráðist úr menntaskólanum í Reykjavík 1923, fór því næst utan til háskólanáms í sagnfræði, fyrst í Osló, en síðan í Kaupmannahöfn, og lauk þar meistaraprófi haustið 1929. Hann var kennari við Menntaskólann í Reykjavík 1929–1936, stundakennari síðasta veturinn. 1930–1931 var hann settur prófessor í Íslandssögu við heimspekideild Háskóla Íslands. Á árinu 1935 var hann skipaður þjóðskjalavörður, og því embætti gegndi hann til æviloka. Jafnframt aðalstarfi sínu gegndi hann lengst af ýmsum öðrum trúnaðarstörfum. Hann átti sæti í menntamálaráði 1931–1953, var formaður þess 1931–1933, sat í verðlaunanefnd Gjafar Jóns Sigurðssonar 1931–1938, var í stjórn Þjóðvinafélagsins frá 1934 til dauðadags, varaforseti þess frá 1944, og í alþingissögunefnd 1943–1956. Hann var formaður í nefnd fræðimanna, sem vann af Íslands hálfu að endurskoðun norrænna sögukennslubóka. Á Alþingi átti hann sæti sem landskjörinn þingmaður 1942–1949, sat á 8 þingum alls. Forseti neðri deildar var hann 1945–1949.

Ótalinn er þó einn veigamesti þátturinn í ævistarfi Barða Guðmundssonar, sögurannsóknir hans og ritstörf. Snemma kom í ljós, hvert hugur hans stefndi til mennta. Innan tvítugs vakti hann á sér athygli með snjallri ritgerð um sagnfræðilegt efni. Tvo síðustu áratugi ævinnar birti hann margar greinar og greinaflokka um ýmsa þætti úr sögu Íslendinga og varpaði meðal annars nýju ljósi á goðorðaskipunina fornu. Viðamestar eru rannsóknir hans á ritun Njáls sögu og uppruna íslenzks þjóðernis. Í rannsóknum sínum fór hann ekki að jafnaði troðnar slóðir annarra fræðimanna og valdi sér einatt torleyst viðfangsefni úr myrkviði sögunnar. Hefur því sumt í ályktunum hans átt erfitt uppdráttar til almennrar viðurkenningar sem söguleg sannindi. Hitt orkar ekki tvímælis, að skoðanir hans og menningar mótuðust af skarpri athyglisgáfu og ríkri hugkvæmni, voru studdar staðgóðum rökum og settar fram af skýrleik og ritsnilld.

Barði Guðmundsson var viðkvæmur í lund og tók sér nærri, ef gert var á hluta hans. Hann var enginn hávaðamaður á mannfundum, en mælskur vel og flutti mál sitt af slíkum tilfinningaþunga, að athygli vakti. Samstarfsmönnum sínum reyndist hann ljúfmenni, og þeir eru ótaldir, sem reyndu hann að hjálpfýsi og góðvild.

Ég vil biðja hv. þingmenn að rísa úr sætum og votta með því minningu Barða Guðmundssonar virðingu sína. — [Þingmenn risu úr sætum.]

Kosning forseta.

Er kosning forseta skyldi hefjast, mælti