12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2864 í B-deild Alþingistíðinda. (2982)

Minnst látins fyrrverandi þingmanns

Forseti (Jón Helgason):

Áður en gengið verður til dagskrár vil ég minnast nokkrum orðum Steingríms Pálssonar fyrrv, símstjóra og alþm., sem andaðist í fyrradag, þriðjudaginn 10. mars, á sextugasta og þriðja aldursári.

Steingrímur Pálsson var fæddur 29. maí 1918 vestur í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Faðir hans, Páll Sigurðsson, var þá prestur í Íslendingabyggð þar, Garðabyggð í Norður-Dakota. Móðir Steingríms var Þorbjörg Steingrímsdóttir trésmiðs frá Brúsastöðum í Vatnsdal Guðmundssonar. Á barnsaldri fluttist Steingrímur heim til Íslands með móður sinni.

Steingrímur Pálsson lauk gagnfræðaprófi í Reykjavík árið 1938 og loftskeyta- og símritunarprófi 1941. Ævistarf sitt vann hann fyrst og fremst hjá Landssíma Íslands, hóf störf þar sem sendisveinn árið 1930. Hann var símritari 1941–1952, lengst af í Reykjavík. Jafnframt var hann starfsmaður í skrifstofu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja 1945–1946, og kennari við símritunarskólann í Reykjavík 1947–1948. Hann var síðan umdæmisstjóri Pósts og síma að Brú í Hrútafirði á árunum 1952–1974. Fluttist hann þá aftur til Reykjavíkur og var síðast skrifstofustjóri í umdæmisskrifstofu rekstramála Landssímans, uns hann lét af störfum þar sökum vanheilsu um áramótin 1978–1979.

Steingrímur Pálsson var áhugasamur félagi í samtökum símamanna, sat í stjórn Félags ísl. símamanna, var formaður þess, og nokkur ár var hann í stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Hann var varaþingmaður í Vestfjarðakjördæmi 1963–1967, og tók þá þrisvar sæti um skeið á Alþingi. Síðan var hann landskjörinn þingmaður 1967–1971, átti sæti á sjö þingum alls.

Steingrímur Pálsson var í þjónustu Landssímans nærri hálfa öld. Þar var meginvettvangur starfa hans. Áhugi hans og störf að félagsmálum og þjóðmálum leiddu til setu hans á Alþingi nokkur ár. Hann var háttvís drengskapannaður og vann störf sín hér sem annars staðar af skyldurækni og prúðmennsku.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Steingríms Pálssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]