10.10.1981
Sameinað þing: 1. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Minnst látinna fyrrv. alþingismanna

Aldursforseti (Gunnar Thoroddsen forsrh.):

Ég býð hv. alþm. og starfsfólk Alþingis velkomið til starfa. Tveir fyrrv. alþingismenn hafa dáið frá því að síðasta þingi var slitið. Erlendur Þorsteinsson fyrrv. skrifstofustjóri andaðist 10. júlí, 75 ára að aldri. Magnús Kjartansson fyrrv. ritstjóri og ráðh. andaðist 28. júlí, 62. ára.

Erlendur Þorsteinsson var fæddur á Búðum í Fáskrúðsfirði 12. júní 1906. Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn sjómaður þar og síðar vélstjóri á Akureyri og Siglufirði Sigurðsson og Helga Erlendsdóttir. Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri 1925 og stundaði síðan framhaldsnám þar fram á árið 1927. Þá hvarf hann frá námi og gerðist skrifari bæjarfógetaembættisins á Siglufirði og ári síðar fulltrúi bæjarfógeta. Árið 1936 var hann ráðinn skrifstofustjóri síldarútvegsnefndar og þremur árum síðar framkvæmdastjóri hennar. 1958 varð hann skrifstofustjóri Brunabótafélags Íslands og gegndi því starfi til sjötugsaldurs.

Erlendur Þorsteinsson aðhylltist ungur stefnu jafnaðarmanna í þjóðmálum. Hann átti sæti af þeirra hálfu í bæjarstjórn Siglufjarðar 1938–1947 og var forseti bæjarstjórnar fyrsta kjörtímabilið. Hann var skipaður í nýbyggingarráð 1944, var í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins 1947–1952 og í síldarútvegsnefnd og stjórn Tunnuverksmiðja ríkisins 1947–1970, og formaður beggja 1958–1969. Á Alþingi átti hann sæti sem landskjörinn þm. 1938–1942 og sat auk þess sem varaþm. 1938 og 1949–1950, tók sæti á 9 þingum alls.

Erlendur Þorsteinsson átti heimili og vettvang starfa sinna á Siglufirði á miklum athafnatímum í því bæjarfélagi. Þar gegndi hann forustustörfum við vinnslu og sölu síldar. Hann öðlaðist mikla reynslu á því sviði og tók margsinnis þátt í viðskiptasamningum Íslendinga við aðrar þjóðir. Samstarfsmenn hans bera honum það vitni, að hann hafi verið réttsýnn í stjórnarstörfum og vinsæll í samstarfi.

Magnús Kjartansson var fæddur á Stokkseyri 25. febrúar 1919, sonur hjónanna Kjartans Ólafssonar og Sigrúnar Guðmundsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1938, var síðan við verkfræðinám í Kaupmannahöfn 1938–1940, en hvarf þá að námi í norrænum og íslenskum fræðum. Hann var ritstjóri Þjóðviljans 1947–1971. Á Alþingi tók hann sæti varamanns á árunum 1950–1952 og 1965, var kosinn alþm. Reykvíkinga 1967 og átti sæti á þingi til vors 1978, alls á 17 þingum. Hann var heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og iðnaðarráðherra 1971–1974. Í menntamálaráði átti hann sæti 1946–1953 og 1956–1963, var þingkjörinn fulltrúi í Norðurlandaráði 1967–1971 og 1974–1978 og í orkuráði 1975–1979.

Magnús Kjartansson var hátt á þrítugsaldri þegar hann hvarf frá námi að ritstjórn og þátttöku í stjórnmálabaráttu. Hann var snjall í ræðu og riti, baráttuglaður, harðskeyttur og markviss. Hann var mikilvirkur alþingismaður og ráðherra. Í ríkisstj. voru honum falin ráðuneyti sem voru í mótun sem sjálfstæðar stjórnardeildir. Hann beitti sér af dugnaði fyrir nýmælum í iðnaðar- og orkumálum, en þó einkum í heilbrigðis- og tryggingamálum. Þá átti hann þó við að stríða sjúkleika sem þyngdist síðar og neyddi hann að lokum til að draga sig í hlé frá stjórnmálastörfum. Síðustu starfskrafta sína á opinberum vettvangi helgaði hann einkum réttindamálum öryrkja. Samherjar Magnúsar dáðu hann og andstæðingar hans í stjórnmálum kunnu að meta mikla hæfileika hans.

Ég bið þingheim að minnast Erlendar Þorsteinssonar og Magnúsar Kjartanssonar með því að rísa úr sætum. –[Þingmenn risu úr sætum.]