18.02.1971
Neðri deild: 48. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (3096)

196. mál, þjóðgarður á Vestfjörðum

Flm. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Það stóð nú svo illa á, þegar fundur hófst hér, að ég gat ekki komið inn í d. Þó að mörg mál séu nú á dagskrá hv. d. í dag, þá hefur forseti séð ástæðu til þess að taka þetta mál fram yfir öll önnur, þó að það sé, að ég held, 4. mál á dagskrá d., en ég var að afgreiða hér mikilvægt erindi og því gat ég ekki komizt inn. Því heyrði ég ekki upphafið af ræðu hv. 9. þm. Reykv. En það má e. t. v. segja, að það hafi ekki verið af mjög miklu að tapa, þó að ég hafi misst af þeim orðum og ég tel þá 2. flm. þessa frv., hv. 7. þm. Reykv., algerlega einfæran um að svara fyrir okkur báða í sambandi við þetta frv.

Eins og fram kom í upphafi þessa máls, þegar ég fylgdi því úr hlaði hér í hv. þd., þá sagði ég, að við flm. þessa máls teldum það mjög mikils virði að friðlýsa þetta land og að þjóðfélagið eignist þessar eyðijarðir með tíð og tíma. Ég bið hv. dm. að taka eftir þessum orðum mínum í framsöguræðunni, með tíð og tíma. Frv. gerir ráð fyrir, að það sé gert í því að friða landið og hafa eftirlit með, að það sé gengið sómasamlega um þetta svæði, en á því hefur verið mjög mikill misbrestur á undanförnum árum. Og ég bætti við þessum orðum: „Á þessu svæði hefur Slysavarnafélag Íslands eða deildir þess víða komið upp mjög myndarlegum skipbrotsmannaskýlum,“ og kem svo nokkuð inn á umgengni í þessum skýlum. Það hafa verið teknir úr þeim þarfir hlutir, sem þurfa að vera þar, og ég tel, að með friðlýsingu lands og eftirliti væri komið m. a. í veg fyrir þetta.

Hv. 9. þm. Reykv. er nú farinn að hallmæla mjög þjóðnýtingu á þessum síðustu og verstu tímum og telur, að við sjálfstæðismenn höfum horfið frá því að vernda rétt einstaklingsins í þjóðfélaginu með því að flytja þetta frv. En hver eru nú ákvæði þessa frv. um þjóðnýtinguna? Þau eru, að við teljum, að það eigi að stefna að því, eins og segir í 7. gr. frv., að ná samningum við eigendur þessara jarða um, að þjóðfélagið eignist þær og leita eftir því með frjálsum samningum. Náist þeir ekki, sé ákvæði um það, að þjóðgarðsstjórn, sem kjörin yrði af sameinuðu Alþ. og yrði þar af leiðandi eins og þing er skipað nú, menn frá þremur pólitískum flokkum, sé heimilt, en ekki skylt, — á því er mikill skilsmunur og eðlismunur; ég hugsa, að m. a. s. 9. þm. Reykv. játi það með mér, — heimilt að taka eignarnámi, samkv. lögum um eignarnám, jarðir, sem hún telur þörf á, að þjóðfélagið eignist í sambandi við stofnun þessa þjóðgarðs, en það verði gert með þeim hætti, að tveir dómkvaddir óvilhallir menn meti þessar jarðir. Verði annar hvor aðili ekki ásáttur með þetta mat, þá getur sá, sem óánægður er með matið, krafizt yfirmats þriggja dómkvaddra manna og svo kemur það, sem skiptir mestu máli í frv., að Alþingi veitir á hverjum tíma framlag til þjóðgarðsins í fjárlögum, svo að þjóðgarðsstjórnin, sem frv. gerir ráð fyrir, að kosin verði, er algerlega háð því, hvað Alþ. vill á hverjum tíma láta mikið fé í þetta. Meiri hl. Alþingis ræður því á hverjum tíma, ef þessi þjóðgarðsstjórn kynni að bregðast, hvað skuli langt gengið í þessu svokallaða eignarnámi.

Ég gat þess í minni framsögu, að ég teldi enga ástæðu til þess að leggja á það kapp nú á næstu árum að eignast þetta svæði. Hins vegar teldi ég fulla ástæðu til, að þjóðin eignaðist í framtíðinni meira af óbyggðum svæðum til þess að njóta útivistar og lifa þar eðlilegu lífi í leyfistíma sínum burtu frá hávaða og mengun í bæjum og borgum. Þetta er ekki orðið aðkallandi mál enn á Íslandi, ekki tiltölulega, en það verður það örugglega innan nokkurra ára, því að þetta er stöðugt að breytast, hin frjálsu útivistarsvæði, sem fólkið í þéttbýlinu hefur, eru alltaf að verða minni og minni, eftir því sem landið byggist meira og þess vegna eigum við auðvitað að horfa fram í tímann, ekki næstu 3, 4 eða 5 árin, heldur nokkra áratugi fram í tímann og reyna að afmarka svæði, þar sem hægt er að lifa þessu lífi, sem fólkið kemur til með að þrá meira í framtíðinni heldur en nú í dag eða á allra næstu árum.

Ég vil líka láta koma hér fram, að í fyrri ræðu minni sagði ég, að það væri lítið gert fyrir jarðir í Sléttuhreppi og þessum hluta Grunnavíkurhrepps, sem við leggjum til, að sé gert að þjóðgarði, en þó væri frá þessu undantekning, þar sem væri Átthagafélag Sléttuhreppsbúa, sagði ég í þessari framsöguræðu minni. Þar hafa gamlir Sléttuhreppsbúar og þó einkum Aðalvíkingar heimsótt þessar fornu byggðir sínar einu sinni á hverju sumri og sýnt í því mikla ræktarsemi. Þar hafa haft samband gamlir vinir, kunningjar og börn þeirra til þess að viðhalda gömlum átthagatengslum. Þetta frv. kemur á engan hátt í veg fyrir, að slíkir samfundir geti átt sér stað og átthagafélög — takið eftir, ekki félag, heldur félög, ef fleiri kynnu að verða mynduð, — geta átt griðland á þessu svæði og það yrði þessu svæði til góðs eins, að þessi starfsemi héldi áfram eins og hún hefur verið í fjölmörg undanfarandi ár. Þetta sagði ég, þegar ég fylgdi frv. úr hlaði. En það var ekki getið um þennan kafla í ræðu minni í frásögn af fundi d. eða umr. um þetta mál í Morgunblaðinu, sem er nú eiginlega eitt íslenzkra dagblaða, sem getur um ræður þm. almennt, án tillits til þess, hvar þeir eru í flokki. Hins vegar fer það oft þannig, að þegar blaðamaður situr hér uppi og hlustar á ræður þm., þá tekur hann útdrátt úr ræðum þeirra og birtir í blaði sínu. Og ég tel, að hér hafi verið um að ræða langsterkasta atriðið fyrir mig sem talsmann þessa máls til að birta í frásögn Morgunblaðsins. En það kom aðeins kaflinn á undan, þar sem ég tala um, að hús á þessum jörðum séu að grotna niður. Á þennan hátt geta félagsmenn í þessu félagi, Átthagafélagi Sléttuhreppsbúa, séð það, að ég hef skýrt þetta mál töluvert á annan veg heldur en þeir hafa talið og dæmt þar eftir þessari frásögn af minni stuttu ræðu í Morgunblaðinu, og fram yfir það, sem segir í grg. með frv. Til þeirra er tekið fullt tillit, og ég segi það hér einu sinni enn þá, að ég tel enga ástæðu til þess, þó að þetta frv. verði að lögum, að það sé gengið með oddi og egg í að fá fjárframlög á næstu árum til þess að kaupa upp þær jarðir, þar sem fólk kemur og heldur við húsum sínum. En eins og ég sagði í upphafi þessa máls, þessar jarðir eru miklu færri en hinar. Þetta svæði er auðvitað miklu meira en Aðalvík og Hesteyri, sem verið er að fjalla hér um. Ég á auðvitað enga kröfu til þess, að þm. eða aðrir séu sammála því máli, sem ég flyt, í höfuðatriðum. Á það verður auðvitað að reyna. En hér er verið að hreyfa máli, sem er ekki dægurmál eða mál næstu ára, heldur fyrst og fremst mál framtíðarinnar, og einhvern tíma verður að hreyfa framtíðarmálum. Og mín skoðun er sú, að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða, ekki eingöngu séð frá sjónarmiði þessa svæðis, sem við hér leggjum til að gera að þjóðgarði, Sléttuhrepps og hluta úr Grunnavíkurhreppi, heldur frá heildarsjónarmiði allra íbúa þessa lands. Við höfum byrjað á því að friðlýsa svæði. Það var keypt mjög mikilvægt landsvæði, Skaftafell, fyrir nokkrum árum, sem er undir vernd náttúruverndarráðs og stjórn þess, og ég hygg, að þeir, sem síðar koma eftir okkar daga, muni telja, að þar hafi verið stigið merkilegt spor í rétta átt og mönnum muni ekki verða álasað fyrir kaup og friðlýsingu Skaftafells, og mín trú er sú, að þetta svæði, þar sem ekkert fólk hefur búið yfir 20 ár að undanskildum vitaverði í Látravík, sé mjög ákjósanlegur staður til þess að friða með þessum hætti eins og frv. gerir ráð fyrir.

Út af síðustu orðum hv. 9. þm. Reykv. vegna blaðagreinar, sem birtist m. a. í Morgunblaðinu, þar sem talið er, að ég hafi verið að ásælast land, ákveðna jörð, þá hef ég ekki lagt það í vana minn að leiða inn í umr. á Alþ. persónuleg mál mín. En fyrst þetta barst hér í tal, þá ætla ég að segja það, að ég hef aldrei talað við eiganda þessarar jarðar, sem um er rætt, um nein kaup á henni og aldrei beðið neinn annan að tala við hann, en hins vegar er lítill sannleiksneisti til í þessu. Og hann er sá, að góður vinur minn, sem var á ferð með mér einu sinni á Horni, var yfir sig hrifinn af landinu þar, enda vorum við svo heppnir, að við sáum þetta land í því fegursta veðri, sem hægt var að sjá það í, og hann var yfir sig hrifinn af þessari jörð og áleit, að þar mætti margt gera til þess að auka þar veiði. Og hann spurði mig: Ef við fengjum þetta keypt, viltu þá vera með, ef við færum nokkrir í það upp á það að vernda silungsstofninn og gera eitthvað fyrir þetta? Og ég segi svona: Ég væri alveg til í það, ef þetta fengist fyrir skaplegt verð. Ég tel mig vel hafa efni á því að láta nokkra tugi þúsunda í að auka silungsveiði á þessum stað. Og ég segi alveg eins og er, að þegar hann sagði mér, að þetta væri það hátt, að hann væri fallinn frá þessu, þá gerði ég ekkert meira og ég talaði aldrei við nokkurn mann. En svo kemur formaður Átthagafélags Sléttuhrepps með þetta í grein, og mér finnst það auðvitað langt fyrir neðan virðingu manna, þegar þeir ræða um frv. eða mál, sem er flutt á Alþ., að þurfa að ausa flm. þessara mála auri í blöðum. Það er hægt að ræða þessi mál fullkomlega málefnalega án þess. Í þessari grein er stefnt að mér allt að því ærumeiðandi ummælum. Maður er orðinn svo vanur því á löngum stjórnmálaferli að fá ýmislegt að heyra frá mönnum, sem hella úr skálum reiði sinnar yfir menn, að ég ætla ekkert frekar í þessu að gera og hef allt annað við tíma minn að gera heldur en eltast við slík ummæli. En hitt fer ekki á milli mála, að við, sem erum í opinberum málum, eigum okkar tilfinningar eins og annað fólk og teljum slík ummæli algerlega ástæðulaus.

Ég tel, að ég hafi svarað nokkuð því, sem hv. 9. þm. Reykv. kom með hér áðan í sambandi við þessi þjóðnýtingaráform okkar, sem ég vísa algerlega á bug. Ég ætla ekki að álasa öllu því fólki á einn eða annan veg, sem hefur skrifað undir þessi mótmæli við frv., og ég skal alveg taka undir það með hv. 9. þm. Reykv., að við því, sem fylgir þessum mótmælum, eða formála þess er ekkert hægt að segja. Það er fullkomlega kurteist, en greinin var ekki kurteis, sem birtist í blaðinu. En það er allt önnur saga.

Ég veit, að þegar einhver mótmæli fara af stað, þá er ekki alltaf spurt að því, hvert er eðli málsins, heldur er einblínt á það, sem mönnum ekki líkar í orðalagi, og það er það, sem hér hefur átt sér stað. Hv. 9. þm. Reykv. sagði hér í upphafi umr. um þetta mál fyrir nokkrum dögum, að við hefðum ekki spurt neinn að því, hvort mönnum líkaði, að við flyttum svona frv., og átti þá auðvitað við tengslin við átthagana þar nyrðra. Það er alveg rétt, og ég tel, að við þurfum ekki, þm., að spyrja einn eða annan, hvaða mál við flytjum á Alþ., og ég tel ekki heldur og fer ekki fram á það við hv. 9. þm. Reykv., að þegar hann sem forustumaður í verkalýðsmálum vill segja upp samningum og fá hækkuð laun, byrji hann á því að ganga á fund formanns Vinnuveitendafélags Íslands eða framkvæmdastjóra þess og spyrja, hvort þeir gætu fellt sig við að hækka launin. Ég hygg, að hann hafi aldrei gert það. En hins vegar eru önnur vinnubrögð á Alþingi Íslendinga, sem betur fer. Þegar mál hefur verið flutt, fer fram umr. um málið í viðkomandi d. — eða í Sþ. eftir því sem það er flutt — og síðan er málinu vísað til n. N. hefur svo aftur málið til ítarlegrar athugunar og það eru nefndir þingsins, sem spyrja um álit þeirra, sem gerst þekkja það mál, sem um er að ræða hverju sinni. Á því hefur ekki staðið þau ár, sem ég hef átt sæti á Alþ., að þetta væri gert. Ég hefði talið, að að lokinni þessari umr. hefði sú n., sem málið tæki til meðferðar, eðlilega átt að leita til ýmissa aðila, þ. á m. Átthagafélagsins, um álit þess á málinu og Átthagafélagið hefði átt að líta á málið frá víðari sjóndeildarhring heldur en grein formanns þess ber vott um. Ég hefði talið t. d., þegar þetta félag tók þetta frv. til umræðu á sínum fundi, að það hefði gjarnan getað spurt annan hvorn okkar flm., hvort við vildum nú ekki mæta á fundi hjá þeim, svo að þeir gætu rakið úr okkur garnirnar um það, hvað við værum nú að fara, hvort við værum að ráðast á eignarrétt þeirra á landsvæðinu, og fengið ýmsar upplýsingar um okkar skoðanir. Það hefði líka verið gagnlegt, að fram hefðu komið þessi ummæli mín í framsöguræðu um Átthagafélagið og þetta fólk, sem hefur ekki rofið tengslin við sína gömlu átthaga. Ég hygg, að það hefði orðið til þess að skapa meiri skilning á málinu í heild, en ekki á þessu eina ákvæði um sölu eða eignarnámsheimild jarða. En þetta var því miður ekki gert og við skulum ekki vera að saka neinn um það. Það er svona, þegar mönnum hleypur kapp í kinn, þá eru kannske hlutirnir ekki skoðaðir alveg frá réttu sjónarmiði. Og svo kemur aftur hitt atriði málsins: Þó að frv. sé flutt, er það ekki alveg skýlaus krafa flm. frv., að það fari bara óbreytt í gegnum þingið og það megi enginn hreyfa neitt við því, að það sé bara annaðhvort að drepa mál eða láta það fara gersamlega óbreytt. Ég segi fyrir mitt leyti, ég tel mig ekki vera þann lagaspeking, að það megi ekki ýmislegt færa til betri vegar í orðalagi eða fyllri meiningu í þessu frv., og að ég væri ekki fús til þess að fallast á ýmsar leiðréttingar eða aths. í þeim efnum. Hins vegar er grundvallarskoðun mín sú í þessu máli, að þetta mál og þessi hugmynd sé skynsamleg og Alþ. eigi ekki að hafna henni, þó að það hafi verið hleypt af stað einhverri skriðu mótmæla. Það er líka ósköp auðvelt að okkar undirlagi að fara út í að semja einhverja áskorun um að samþykkja frv. Mér finnst þetta eiginlega ekki ná nokkurri átt að fara að safna svona. Það á að vera hægt að ræða þessi mál á ósköp hóflegan og skynsamlegan hátt og komast að niðurstöðu, sem allir ættu að geta verið sæmilega ánægðir með. Þó að það hafi hlaupið í suma í sambandi við þetta frv., þá ætla ég ekkert að taka það nærri mér. Það breytir ekki minni grundvallarskoðun í þessu máli, að það sé skynsamlegt, ekki vegna nútíðarinnar eða næstu ára, að gera þetta svæði að þjóðgarði og sinna því og gera ýmislegt fyrir það.

Það var spurt að því, hvaðan mér kæmi sú vitneskja að þetta svæði byggðist ekki aftur. Auðvitað getur enginn maður fullyrt um það, hvaða svæði verður um aldur og ævi óbyggt eða hvaða byggð svæði fara í eyði. En þegar maður segir, að það séu ekki líkur fyrir því, að þetta landsvæði byggist, þá byggir maður það á þeim ísköldu staðreyndum, að þetta landsvæði er nú búið að vera óbyggt með einni undantekningu, sem áður hefur verið nefnd, í yfir 20 ár, að mig minnir rétt. Mig minnir, að síðustu íbúar hafi flutt úr Aðalvík 1949, þó skal ég ekki alveg fullyrða það. Það er mjög nálægt því. Síðan hefur það gerzt í okkar landi, að fleiri byggðir og fjöldi bæja í sveitum landsins eru komnir í eyði og það í héruðum, þar sem eru tiltölulega góðar samgöngur og mjög sæmileg lífsafkoma. Þessi þróun hefur valdið bæði mér og mörgum öðrum miklum áhyggjum og ég hef miklu meiri áhyggjur af því, að fleiri byggðir fari í eyði heldur en að ég geri mér neinar vonir um eða telji neina höfuðþýðingu hafa að það setjist aftur nokkrir menn að í Sléttuhreppi, þar sem allt vantar til alls til þess að búa því menningar- og samfélagslífi, sem við þráum að búa í okkar landi. Þróunin hefur verið sú, að fólkið er að fara frá hinum dreifðu byggðum í æ ríkari mæli til kaupstaða og þéttbýlis. Það höfum við séð á þessu tímabili. Þess vegna getum við ekki ætlað, að það verði straumhvörf í aðra átt. En við skulum vona samt, að það verði straumhvörf þó innan tíðar og þá í þá áttina, að það fari ekki fleiri byggðir í eyði heldur en orðið er og það á þjóðfélagið fyrst og fremst að koma í veg fyrir með því að gera í tæka tíð það, sem hægt er að gera til þess að vernda þær byggðir. Þar eru mér mjög ofarlega í huga innhreppar Ísafjarðardjúps, hvernig þeir eru að fara og hafa verið að fara á síðustu árum, þó að grasleysið eigi þar eðlilega langmesta sök.

Ég skal biðja hv. 9. þm. Reykv. og aðra hv. þm. hér í þessari d. afsökunar á þeirri fljótfærni minni, þegar ég leiðrétti nokkrar prentvillur í grg. frv., en eins og þm. vita, þá lesa aðrir handrit að frv. heldur en við sjálfir og þegar grg. kom fram, þá leiðrétti ég nokkrar prentvillur og óskaði, að það yrði prentað upp. Hins vegar láðist mér að leiðrétta Hesteyrarfjörð, en í grg. stóð Hestfjörður. En kortið gat ég nú ekki leiðrétt, því að Landmælingar Íslands urðu við þeim tilmælum okkar að gera þetta kort, og mér fannst rétt eða okkur flm. að láta kortið fylgja, til þess að þm., sem eru mjög ókunnugir margir hverjir á þessu svæði, fengju yfirlitsmynd um, hvað væri verið að ræða. Og í handriti mínu var Hesteyrarfjörður í grg., en sennilega hefur kortið truflað. En það er mín yfirsjón að sjást ekki fyrir í þessum efnum, þegar grg. var prentuð upp. Í framsöguræðu minni vitnaði ég í grg, og það kemur alveg greinilega fram hjá mér í minni ræðu, sem þm. geta séð í handriti, að ég tala um „frá Hrafnsfirði til Hesteyrarfjarðar,“ enda er mér alveg ljóst og þarf engar leiðréttingar á því eða langar blaðagreinar, ég veit vel, hvar Hesteyrarfjörður er og hvar Hestfjörður er, sem og um aðra firði vestra.

Hins vegar þykir mér dálitið undarlegt í sambandi við þá lýsingu, sem við gefum á þessu landi í grg., að í margumræddri blaðagrein finnst formanni Átthagafélagsins lýsingin á átthögum sínum eiginlega vera allt of heillandi og of djúpt tekið í árinni og segir, að annað eins hafi ekki heyrzt frá því að Hrafna-Flóki lýsti landinu. Sennilega á hann við Þórólf smjör. En látum það nú vera. En ég segi, að ég tel, að við flm. höfum lýst þessu landsvæði eins og það hefur komið okkur fyrir sjónir. Við höfum aldrei verið þar á ferð um hávetur. Við höfum verið þar á ferð að sumri til og oftast, þegar maður hefur verið á ferð, hef ég verið sérstaklega heppinn með veður. Og ég vil enda þessi orð mín með því að endurtaka það, sem ég sagði í upphafi míns máls, og segja það sem mína skoðun, þrátt fyrir það, að formaður Átthagafélagsins telji það ofsögum sagt um gæði og gagn þessa svæðis, að þetta landsvæði býr yfir fjölbreytilegri náttúrufegurð. Þar eru fögur vötn, ár og ósar með miklum silungi, stórfengleg björg iðandi af fugli og lífi. Meðal þeirra er hið stórbrotna Hornbjarg, sem enginn getur gleymt, sem þangað hefur einu sinni komið. Margar víkur á þessu svæði eru mjög grasgefnar með töfrandi sumarfegurð, Jökulfirðir frá Hesteyrarfirði til Hrafnsfjarðar eru fagrir og friðsælir. Í hlíðum þeirra eru einhver beztu berjalönd, sem finnast á landi okkar. Á þessu landsvæði er víðast ósnortin náttúra.