09.10.1954
Sameinað þing: 1. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (3337)

Minning Sigurjóns Á. Ólafssonar

Aldursforseti (JörB):

Frá því er síðasta þingi sleit, á þjóðin á bak að sjá merkum fyrrverandi þingmanni, Sigurjóni Á. Ólafssyni, sem andaðist hér í bænum 15. apríl s.l. á sjötugasta aldursári, og vil ég nú, áður en þingstörf hefjast, minnast þessa þjóðkunna manns nokkrum orðum.

Sigurjón Árni Ólafsson fæddist 29. okt. 1884 að Hvallátrum á Rauðasandi, sonur Ólafs, síðar bónda í Króki á Rauðasandi, Jónssonar og konu hans, Guðbjargar Árnadóttur bónda í Hvallátrum Thoroddsens. Ungur að árum tók hann að stunda sjóinn fyrst á opnum bátum og síðar á þilskipum, hóf nám í Stýrimannaskólanum 1904 og lauk þar almennu stýrimannaprófi að tveim árum liðnum, réðst þá aftur á skip og gegndi ýmist háseta- eða stýrimannsstarfi í siglingum og á fiskveiðum næstu tólf árin, til 1918, og á árunum 1918–1919 hafði hann skipstjórn á hendi. Síðan stundaði hann ýmis störf hér í bænum, var afgreiðslumaður Alþýðublaðsins 1919–1927, fátækrafulltrúi 1922–1927 og afgreiðslumaður og verkstjóri hjá Skipaútgerð ríkisins 1930–1942, auk fjölmargra trúnaðarstarfa, er á hann hlóðust í almenningsþarfir og of langt yrði hér öll upp að telja. Hér skal þó getið nokkurra hinna helztu þeirra. Hann var forseti Alþýðusambands Íslands 1940–1942, átti sæti í félagsdómi 1938–1944 og í sjó- og verzlunardómi Reykjavíkur frá 1930 til æviloka, var yfirskoðunarmaður ríkisreikninganna 1938–1943 og frá 1947 til dauðadags, sat í Landsbankanefnd 1936–1953 og í eftirlitsnefnd með opinberum sjóðum frá 1934. Hann átti og sæti í eigi færri en 8 milliþinganefndum, er flestar fjölluðu um ýmsa þætti siglinga-, atvinnu- og félagsmála. Þingmaður Reykvíkinga var hann á árunum 1928–1931 og 1934–1937 og landskjörinn þm. 1937–1942 og 1946–1948, sat alls á 22 þingum.

Ótalið er þó það starf, sem lengst mun geyma minningu Sigurjóns Á. Ólafssonar. Hann kynntist frá blautu barnsbeini af eigin raun, eins og fyrr segir, lífi og starfi sjómanna, fyrst sem undirmaður og síðar yfirmaður, og hóf snemma brautryðjandastarf fyrir bættum kjörum þeirra og öryggi, bæði með samningagerðum og íhlutun um og undirbúningi að lagasetningu þeim til hagsbóta. Hann gerðist oddviti stærstu samtaka þeirra, Sjómannafélags Reykjavíkur, og gegndi formennsku í því félagi í meira en 30 ár, 1917– 1918 og 1920–1951, eða þar til hann baðst undan endurkosningu. Um þá starfsemi hans farast einum forustumanna Alþfl. og samherja Sigurjóns um langt skeið svo orð m.a. í minningarorðum um hann:

„Mun óhætt að fullyrða, að það þurfti meira en meðalmann til að gegna um svo langt árabil forustu í jafnfjölmennu stéttarfélagi og Sjómannafélagi Reykjavíkur með slíkum eldmóði, starfsgleði og baráttuþrótti sem einkenndi alla félagsmálastarfsemi Sigurjóns.“

Undir þessi ummæli munu þeir almennt taka, sem kynni höfðu af Sigurjóni Á. Ólafssyni og störfum hans. Samfara baráttu fyrir bættum kjörum sjómanna var honum og ríkt í huga að auka öryggi þeirra á sjónum. Auk hlutdeildar að ýmiss konar lagasetningu í þeim efnum var hann einn stofnenda Slysavarnafélags Íslands og átti sæti í stjórn þess frá byrjun, 1928, til dauðadags. Hann var og einn af aðalhvatamönnum að stofnun dvalarheimilis aldraðra sjómanna.

Sigurjón Á. Ólafsson var upprunninn úr alþýðustétt og vann henni fyrst og fremst, bæði utan þings og innan, meðan honum entist þrek og heilsa. Með ötullegri málafylgju, elju og þrautseigju hófst hann til margvíslegra forustustarfa í þjóðfélaginu og hlífði sér ekki, á hverju sem gekk. Á Alþingi naut hann persónulegra vinsælda jafnt flokksmanna sem annarra.

Ég vil biðja þingheim að rísa úr sætum og votta með því minningu Sigurjóns Á. Ólafssonar virðingu sína. — [Þingmenn risu úr sætum. — Síðan gekk forseti Íslands út úr þingsalnum.]

Fundi frestað.