11.03.1987
Sameinað þing: 61. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3919 í B-deild Alþingistíðinda. (3596)

396. mál, utanríkismál

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frá því að síðasta skýrsla um utanríkismál var rædd hér á Alþingi hinn 15. apríl á s.l. ári hafa margir atburðir og merkir orðið á sviði alþjóðastjórnmála. Merkastur er þó tvímælalaust fundur þeirra Ronalds Reagans og Mikaels Gorbatsjoffs hér í Reykjavík. Aldrei áður hefur Ísland tengst samskiptum austurs og vesturs með eins áberandi hætti og dagana sem fundurinn stóð. Það er því við hæfi að hefja þessa umræðu á Alþingi um utanríkismál með því að víkja að þeim málum sem þar voru til umfjöllunar.

Segja má að augu heimsbyggðarinnar hafi beinst að Íslandi þessa þrjá daga og á þriðja deginum, sunnudaginn 12. okt., má fullyrða að milljónir manna hafi með aðstoð sjónvarpstækninnar mænt á lokaðar dyr fundarstaðarins, Höfða, í þeirri von að þar væri heimssögulegra tíðinda að vænta. Það urðu mönnum því nokkur vonbrigði þegar leiðtogarnir loksins birtust og greint var frá því að engin niðurstaða hefði orðið í viðræðum þeirra.

Eftir því sem lengra leið frá fundinum varð þó lýðum ljóst að grunnur að samkomulagi hafði í raun verið lagður hér í Reykjavík, en árangur strandað vegna ágreinings um geimvarnir. Í stuttu máli hefur eftirfarandi komið fram um viðræður leiðtoganna hér í Reykjavík:

Þeir voru sammála um að á næstu fimm árum ætti að fækka langdrægum kjarnavopnum um helming. Þeir urðu ásáttir um hámark 6000 kjarnaodda í langdrægum skotkerfum sem ekki mættu vera fleiri en 1600 talsins. Þá urðu þeir ásáttir um geysimikla fækkun meðaldrægra kjarnavopna. Þannig skyldu leyfðir 100 kjarnaoddar í slíkum sovéskum flaugum í Asíu af gerðinni SS-20 og 100 í Bandaríkjunum, en engar í Evrópu.

Leiðtogarnir ræddu einnig bann við kjarnavopnatilraunum þótt ekki næðist samkomulag. Þeir virtust komast að samkomulagi um að virða samninginn frá 1972 um takmörkun gagneldflauga, svokallaðan ABM-samning, næstu tíu árin þótt Bandaríkjamenn hafi ítrekað ásetning sinn að halda áfram rannsóknum á geimvörnum sem þeir segjast geta stundað án þess að brjóta í bága við þann samning.

Ágreiningur leiðtoganna tveggja var fyrst og fremst um geimvarnir. Reagan samþykkti að geimvarnakerfi skyldi ekki tekið í notkun í tíu ár en á sama tíma yrði langdrægum kjarnaeldflaugum útrýmt. Gorbatsjoff gat fallist á tíu ára takmörkunina, en gerði jafnframt þá kröfu að rannsóknir á og tilraunir með geimvarnakerfi færu eingöngu fram í rannsóknarstofum.

Undanfarna daga hafa borist fregnir af tilslökun Sovétmanna í viðræðum risaveldanna. Hafa þeir lýst sig reiðubúna að ræða útrýmingu meðaldrægra kjarnaflauga úr Evrópu, svokallaðra Evrópuflauga, óháð því hvort Bandaríkjamenn halda áfram tilraunum sínum með geimvarnir. Þá hafa Sovétmenn einnig lýst sig reiðubúna að koma til móts við kröfur Bandaríkjamanna varðandi gagnkvæmt og raunhæft eftirlit með framkvæmd samninga um þetta efni.

Ef þessar yfirlýsingar ganga fram við samningaborðið í Genf má búast við að skriður komist á viðræður risaveldanna og að samkomulag um útrýmingu meðaldrægra kjarnaflauga geti litið dagsins ljós á næstu vikum eða mánuðum. Samkomulag um þetta efni mundi tvímælalaust verða til góðs og draga úr spennu milli austurs og vesturs.

Hver yrðu að öðru leyti áhrif slíks samkomulags? Útrýming meðaldrægra kjarnaflauga úr Evrópu breytir m.a. nokkuð forsendum hugmyndarinnar um kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum. Mun ég víkja nánar að því hér á eftir.

Ágreiningurinn um Evrópuflaugarnar hefur staðið nær óslitið síðan 1977, en það ár hófu Sovétmenn að endurnýja eldri og ófullkomnari flaugar með hinum hárnákvæmu og ógnvekjandi SS-20 flaugum. Á örfáum árum komu þeir fyrir hundruðum slíkra flauga í nágrenni Evrópu. Í flaugum þessum eru þrír kjarnaoddar og hefur hver um sig um það bil sjöfaldan sprengikraft Hiroshima-sprengjunnar. Þær gætu farið allt að 5 þús. km vegalengd og því hæft skotmark í öllum ríkjum Vestur-Evrópu. Það var því ekki nema von að mönnum á Vesturlöndum hrysi hugur við þessari ógn þar sem hún bættist við afar mikla yfirburði Rauða hersins á sviði hefðbundins vígbúnaðar.

Með uppsetningu SS-20 flauganna röskuðu Sovétmenn mjög verulega þeirri stöðu sem var í samskiptum austurs og vesturs um miðjan síðasta áratug. Þjóðir Vestur-Evrópu gátu ekki látið slíkt óátalið. Að frumkvæði Vestur-Þjóðverja samþykktu ríki Atlantshafsbandalagsins í desember 1979 að koma fyrir bandarískum Pershing II flaugum og stýriflaugum í fimm ríkjum Vestur-Evrópu til að skapa jafnvægi í þessum efnum. Á sama tíma var ákveðið að Bandaríkjamenn byðu Sovétmönnum til viðræðna um takmörkun slíkra flauga og var tiltekinn frestur gefinn í því sambandi fjögur ár. Ríki Atlantshafsbandalagsins hétu að hefja ekki uppsetningu flauganna á þessu tímabili og við það var staðið.

Svokallaðar INF-viðræður hófust síðan í Genf árið 1981. Þá kom fyrst fram hugmyndin um svokallaða núlllausn, en hún fólst í því að Bandaríkjamenn buðust til að falla frá uppsetningu flauganna ef Sovétmenn fjarlægðu SS-20 flaugarnar úr Evrópu. Sovétmenn höfnuðu þessu tilboði og þegar ljóst varð að til uppsetningar kæmi gengu Sovétmenn frá samningaborðinu í Genf. Þeir vonuðust til þess að áróður friðarhreyfinga í vestrænum fjölmiðlum mundi hefta framgang áætlunar Atlantshafsbandalagsins.

Eftir að uppsetning hófst afréðu þeir þó að snúa aftur að samningaborðinu í Genf. Ef samkomulag næst um útrýmingu meðaldrægra flauga úr Evrópu hefur það þannig tekið ein sex ár að sannfæra Sovétmenn um gildi þess að draga úr vígbúnaði á þessu sviði. Sá árangur yrði þá tilkominn einungis vegna samstöðu ríkja Atlantshafsbandalagsins um að vega upp yfirburði Sovétmanna. Þetta ætti að vera íhugunarefni fyrir þá sem á sínum tíma börðust gegn fyrrgreindri ákvörðun ríkja Atlantshafsbandalagsins. Ef vestræn ríki hefðu látið undan er afar vafasamt að samkomulag um útrýmingu slíkra flauga hefði nokkurn tíma séð dagsins ljós.

Ég gat þess hér að framan að hugsanlegt samkomulag um útrýmingu meðaldrægra kjarnaflauga úr Evrópu hefði áhrif á hugmyndina um kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum. Þessi hugmynd hefur verið á dagskrá funda norrænna utanrrh. allt frá 1981 þrátt fyrir að um það hafi verið óformlegt samkomulag allt frá 1951 að öryggis- og varnarmál væru utan norræns samstarfs. Norðurlöndin höfðu líka valið sér ólíkar leiðir í þeim málaflokkum. Það mun hafa verið Uhro Kekkonen, fyrrum forseti Finnlands, sem fyrstur hreyfði þessu máli fyrir um aldarfjórðungi, en hugmyndin fékk byr undir báða vængi í upphafi þessa áratugs vegna uppsetningar Evrópuflauganna. Þeir voru til sem vildu að þessi hugmynd yrði tekin upp í tengslum við INF-viðræður risaveldanna, en því var hafnað þar sem talið var að hún gæti tafið og flækt þar viðræður.

Hugmyndin um kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum felur í stuttu máli í sér að löndin fimm lýsi því yfir að þau muni aldrei grípa til kjarnavopna, hvorki til árásar né til varnar. Fengin yrði trygging risaveldanna um að virða svæðið og gerður um það sérstakur milliríkjasamningur.

Þegar hugmyndin kom fram í upphafi þessa áratugs lýsti þáv. utanrrh. Ólafur Jóhannesson skoðun sinni í skýrslu til Alþingis 1982, með leyfi forseta. Hann segir:

„Hugmyndina um kjarnavopnalaust svæði í Evrópu má vissulega ræða nánar. Að því er norðurhluta Evrópu varðar hlýtur þó að vera alveg ljóst að ekki er unnt að líta fram hjá þeirri staðreynd að kjarnavopn eru til staðar í stórum stíl í næsta nágrenni við Norðurlönd. Á það ekki síst við um víghreiður Sovétríkjanna á Kolaskaga og svo Eystrasaltið eins og kjarnavopnakafbátur Sovétmanna, sem rak á fjörur Svía, færði okkur áþreifanlega heim sanninn um.“

Það á við um Ísland eins og önnur Norðurlönd að þar eru engin kjarnavopn og stefna stjórnvalda er að slík vopn verði þar ekki. Formlegur milliríkjasamningur varðandi þau málefni hlýtur því eingöngu að koma til greina í víðara samhengi þar sem fjallað er um raunverulega tryggingu þjóða Evrópu fyrir auknu öryggi. Ólafur Jóhannesson taldi að kjarnavopnalaust svæði væri því aðeins hugsanlegt að það væri hluti af samningi kjarnorkuveldanna um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar.

Geir Hallgrímsson fyrrv. utanrrh. lýsti sömu skoðun í skýrslu sinni um utanríkismál 1985 og sagði þá m.a., með leyfi forseta:

„Yfirlýsing um kjarnavopnalaus svæði ein sér kann því miður að hafa minni áhrif en vonir standa til. Ég nefni tvennt. Fyrst það að lítill ávinningur er í því að ákveðin svæði séu lýst kjarnavopnalaus ef kjarnavopnum fækkar ekki en eru ýmist flutt þéttar saman eða út í hafið. Við Íslendingar viljum enn þá síður kjarnavopn í eða á höfum úti, þar sem óhapp á friðartímum gæti eytt sjávarauðlindum okkar og þar með lífsbjörg, hvað þá heldur ef hugsað er til þess sem ætti sér stað í styrjöld. Annað er það, að kjarnavopnum er vandalaust að skjóta langa vegalengd og einhliða yfirlýsing um kjarnavopnalaus svæði tryggir ekki að þau svæði verði ekki fyrir kjarnavopnaárás ef til átaka kemur.“

Svipuð sjónarmið koma fram í ályktun Alþingis frá 23. maí 1985 um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum. Í ályktuninni er hvatt til þess að könnuð verði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu, jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því, sem liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaði og spennu. Ályktunin tekur til mun víðtækara svæðis en Norðurlanda einna, enda er eðlilegt að stefnt sé að því að fækka þessum vopnum fremur en að einskorða sig við bæði svæði sem þegar er án slíkra vopna og einnig er gert ráð fyrir því í ályktun Alþingis að slíkt svæði sé liður í víðtækara samkomulagi. Á fundum norrænna utanríkisráðherra sem ég hef setið hef ég talið óraunhæft að hefja undirbúning að stofnun slíks svæðis nema tekið sé tillit til þeirra svæða þar sem kjarnavopn eru til staðar og er því sammála þeim tveimur forverum mínum sem ég hér hef vitnað til.

Á bls. 16 í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu segi ég, með leyfi forseta, á miðri síðu:

„Á fundinum í Kaupmannahöfn greindi ég frá því, að afstaða mín til stofnunar norrænnar nefndar embættismanna mótaðist af ályktun Alþingis um afvopnunarmál. Í fyrsta lagi væri svæði, sem aðeins næði til Norðurlanda, ófullnægjandi jafnframt því sem nýtt skref í þessum efnum væri aðeins raunhæft sem liður í víðtækari aðgerðum til að efla öryggi í okkar heimshluta, þar á meðal með samkomulagi risaveldanna. Kjarni málsins er sú staðreynd, að öll löndin fimm eru nú þegar kjarnavopnalaus. Þau ógna engum. Það eru ekki þau sem valda ugg eða ótta á friðarrofi.“

Ekki hafa allir ráðherrarnir verið sammála og hafa sumir þeirra t.d. viljað undanskilja hafsvæðin umhverfis Norðurlönd. Getur nokkur Íslendingur fallist á slíkt? Það get ég ekki ímyndað mér. Í ræðu er ég flutti hér á Alþingi 29. janúar s.l. segi ég, með leyfi forseta:

„Tillaga um skipun nefndar sem kanni möguleika á og geri tillögur um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum var lögð fram á fundi utanríkisráðherra í Svíþjóð á s.l. ári. Hún var áfram til umræðu á fundi utanríkisráðherranna í ágústmánuði s.l., fundi sem haldinn var í Kaupmannahöfn, og þar var skrifstofustjórum ráðuneytanna falið að athuga hvort grundvöllur væri fyrir stofnun slíkrar nefndar embættismanna og gert ráð fyrir því að utanríkisráðherrarnir gætu tekið afstöðu til málsins á fundi sem verður í Reykjavík í marsmánuði n.k. Könnun skrifstofustjóranna stendur yfir, en meðal þess sem þeir eru að athuga eru verkefni og verksvið hugsanlegrar nefndar embættismanna og ætlunin, eins og ég gat um, að því verði lokið fyrir þennan fund ráðherranna.“

Ég sagði enn fremur: „Flestir hljóta að vera sammála um það að verr væri af stað farið en heima setið ef hafsvæðunum umhverfis Norðurlönd, svo og kjarnavopnabúrum í nágrenni þeirra, svo sem Kolaskaga, yrði sleppt úr allri umfjöllun um þetta efni á vettvangi norræns samstarfs. Ef það verður gert eru menn að loka skilningarvitum sínum fyrir þeirri ógn og fyrir þeirri hættu sem raunverulega er við að fást. Ég met það svo að það sem í ályktun Alþingis stendur sé forsenda umræðna af okkar hálfu á þessum vettvangi varðandi hugmyndina um kjarnavopnalaust svæði.“

Af þessum sökum hefur m.a. ekki náðst samstaða um skipun sérstakrar nefndar norrænna embættismanna er fengi það verkefni að kanna skilyrði yfirlýsingar um Norðurlönd sem kjarnavopnalaust svæði, en með vísan til þess sem ég sagði áðan fer sú skoðun fram þar til fundur ráðherranna verður hér 25. mars hvort hægt er að ná slíku samkomulagi. Ég mun að sjálfsögðu greina utanríkismálanefnd frá framvindu þess starfs sem verið er að vinna til undirbúnings fundi norrænu utanríkisráðherranna, eins og ég gat um í fyrrgreindri ræðu, og hafa um það samráð þegar því verki er lokið.

Ef risaveldin ganga nú til samninga um útrýmingu þeirra kjarnavopna sem einna helst hafa ógnað öryggi Norðurlanda er ljóst að forsendur slíkrar yfirlýsingar hafa breyst - eða hvaða frekari tryggingu getur slík yfirlýsing veitt umfram samkomulag risaveldanna? Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það eru þessi tvö ríki sem hafa vald til að semja um takmörkun slíkra vopna. Okkar öryggi hefur best verið tryggt með einingu ríkja Atlantshafsbandalagsins. Þessi eining er forsenda hugsanlegs samkomulags risaveldanna um útrýmingu Evrópuflauganna.

Hvað Norðurlönd varðar tel ég að hyggilegast sé að sjá hver framvindan verður í samningamálum risaveldanna. Á meðan er óhyggilegt að aðhafast nokkuð það sem gæti virkað þannig að eining ríkja Atlantshafsbandalagsins væri að rofna.

Í síðustu skýrslu til Alþingis lýsti ég því viðhorfi að mikilvægt væri að staðið verði við ákvæði hins svonefnda ABM-samnings frá 1972, en hann takmarkar varnir gegn kjarnavopnum. Ekki er raunhæft að banna tilraunir með geimvarnakerfi eins og Sovétmenn hafa krafist, enda hafa þeir sjálfir staðið að slíkum tilraunum um árabil, en mikilvægt er að þær tilraunir fari fram innan þeirra marka sem samningurinn setur.

Að undanförnu hefur nokkur umræða farið fram um nýja túlkun samningsins og jafnvel að uppsetningu geimvarna verði flýtt. Ég er þeirrar skoðunar að hyggilegt sé að rasa ekki um ráð fram í því efni og aðhafast ekkert það er spillt getur fyrir árangri á öðrum sviðum afvopnunar eða hleypt af stað vígbúnaðarkapphlaupi í geimnum.

Sú staðreynd að samkomulag virtist ekki langt undan í viðræðum þeirra Reagans og Gorbatsjoffs hér í Reykjavík gerði það að verkum þegar frá leið að athygli stjórnmálamanna, einkum í Vestur-Evrópu, beindist í auknum mæli að hinum gífurlegu yfirburðum Varsjárbandalagsins á sviði hefðbundins vígbúnaðar. Af þeim sökum m.a. hefur aukin áhersla verið lögð á þá stefnu af hálfu vestrænna ríkja að niðurskurði kjarnavopna verði að fylgja stöðugleiki á öðrum sviðum vígbúnaðar svo sem hefðbundinna vopna, efnavopna og skammdrægra kjarnavopna.

Á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsríkjanna í Halifax s.l. vor var settur sérstakur vinnuhópur í það verkefni að undirbúa tillögur um samdrátt hefðbundins vígbúnaðar í Evrópu. Þessi hópur skilaði hugmyndum sínum fyrir fund utanríkisráðherra bandalagsins sem haldinn var í Brussel í desember og á þeim fundi var samþykkt sérstök yfirlýsing þar sem ríkjum Varsjárbandalagsins er boðið til viðræðna um víðtækan niðurskurð hefðbundinna vopna.

Þessar viðræður munu fara fram í Vín, þar sem nú stendur yfir þriðji framhaldsfundur ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, en á þeim fundi er farið yfir framkvæmd ákvæða Helsinki-samþykktarinnar. Vonandi verður þetta frumkvæði Atlantshafsbandalagsins til að hleypa nýju lífi í hinar svokölluðu MBFR-viðræður sem staðið hafa í Vínarborg frá 1973 án sýnilegs árangurs.

Það eru því ýmis teikn á lofti sem gefa mönnum vonir um að árangurs geti orðið að vænta á ýmsum sviðum viðræðna til að draga úr vígbúnaði. Raunar hefur beinn árangur náðst á einu sviði frá því síðasta skýrsla um utanríkismál var rædd hér á Alþingi. Á ég þar við niðurstöðu Stokkhólmsráðstefnunnar sem lauk 22. september s.l. með samkomulagi um ítarlegt skjal. Í því skjali er hert á ákvæðum Helsinkisamþykktarinnar þess efnis að hvert aðildarríki veiti öðrum upplýsingar um heræfingar. Þetta samkomulag á hernaðarsviðinu kom rétt fyrir upphaf þriðja framhaldsfundar ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu sem hófst í Vínarborg hinn 4. nóvember s.l. Stokkhólmsráðstefnan var einn af þeim fundum sem ákveðnir voru á öðrum framhaldsfundi öryggismálaráðstefnunnar sem stóð yfir í Madrid á árunum 1980-1983. Þar voru einnig ákveðnir nokkrir fundir um mannréttindamál og mannleg tengsl, en þeim fundum lauk því miður án árangurs.

Á öryggismálafundinum í Vínarborg fer nú fram mikil umræða um mannréttindamál. Eins og kunnugt er hafa ríki Vesturlanda ávallt lagt mikla áherslu á þann þátt Helsinki-samkomulagsins er lýtur að auknum mannréttindum. Á undanförnum vikum hafa Sovétmenn staðið að ýmsum tilslökunum á því sviði sem hljóta að verða til þess að bæta nokkuð andrúmsloftið milli austurs og vesturs eftir nokkuð langt kuldaskeið.

Enn vantar þó töluvert á fullar efndir á ákvæðum Helsinki-samþykktarinnar. T. d. hvað varðar heimildir einstaklinga til að flytjast búferlum milli landa. Aðeins með fullri viðurkenningu ákvæða samþykktarinnar getum við vænst þess að samskipti austurs og vesturs komist í eðlilegt horf.

Eins og fram hefur komið í umræðum á Alþingi um till. til þál. um mannréttindamál hafa Íslendingar gerst meðflutningsmenn að tillögu á Vínarfundinum um virðingu fyrir mannréttindum og um framhald umræðunnar innan öryggismálaráðstefnunnar um mannréttindi.

Ég get ekki látið hjá líða í þessari umfjöllun að minna á mörg ljón sem eru í vegi friðsamlegrar sambúðar ríkja heims þótt nokkuð virðist hafa miðað í samkomulagsátt í samskiptum austurs og vesturs. Taka má nokkur dæmi:

Sovétmenn halda áfram hernaði sínum í Afganistan, í Kampútseu starfar leppstjórn í skjóli Víetnama. Stríð Írana og Íraka er í algleymingi. Auk beinna hernaðarlegra aðgerða þurfa svo íbúar í mörgum heimsálfum að þola ýmsar aðrar erjur og skærur. Nefna má t.d. ástandið í sunnanverðri Afríku og Mið-Ameríku. Þá vil ég sérstaklega nefna alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi í þessu sambandi, en slík iðja hefur færst í vöxt á undanförnum árum og bitnar einna helst a saklausum borgurum.

Ekki er óeðlilegt að ljúka þessari umfjöllun um stríð og frið með því að minnast nokkrum orðum á Sameinuðu þjóðirnar, en því miður er staða þeirra nokkuð veik um þessar mundir. Fjárhagsvandi Sameinuðu þjóðanna er e.t.v. lýsandi dæmi um þessa erfiðu stöðu, en hann stafar af því að ríkin hafa vanrækt að inna af hendi skylduframlög sín til samtakanna. Um árabil voru Sovétríkin stærstu skuldararnir, en á árinu 1985 urðu Bandaríkin stærsti skuldarinn eftir að lög voru samþykkt í bandaríska þinginu sem skertu verulega skylduframlag Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna. Ástæðan fyrir lagasetningu Bandaríkjaþings var m.a. óánægja með að Vesturlönd, sem greiða 3/4 útgjalda Sameinuðu þjóðanna, hafa aðeins 15% atkvæða í allsherjarþinginu sem samþykkir fjárlög samtakanna. Ríkin sem minnst greiða hafa því nær óskorað vald við ákvörðun útgjalda Sameinuðu þjóðanna. Eftir að samþykktar hafa verið tillögur nefndar sem vann að endurskoðun fjármála samtakanna má búast við að risaveldin greiði skuldir sínar og þannig finnist nokkur lausn á fjárhagsvandanum sem staðið hefur starfi samtakanna fyrir þrifum undanfarin ár.

Hér að framan hef ég vikið að nokkrum málum sem eru ofarlega á baugi í alþjóðamálum um þessar mundir og sem fjallað er um í þeirri skýrslu sem lögð hefur verið fram á Alþingi og hér er til umræðu. Varðandi íslensk sérhagsmunamál er það að segja að í síðustu skýrslu var gerð ítarleg grein fyrir stefnunni í öryggis- og varnarmálum og aðgerðum til að auka íslenskt frumkvæði á því sviði og vísast til þess. Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir framvindu einstakra þátta öryggis- og varnarmála á þeim tíma sem liðinn er frá því að síðasta skýrsla var lögð fram hér á Alþingi. Enn fremur er skýrt frá varnarliðsframkvæmdum sem heimilaðar hafa verið á árinu 1987, en utanrmn. hefur verið gerð grein fyrir þessum framkvæmdum. Sérstaka athygli vil ég vekja á að framkvæmdum við hina nýju flugstöð er senn lokið og gert ráð fyrir því að hún verði tekin í notkun hinn 14. apríl n.k. Framkvæmdir við flugstöðina hafa staðið yfir síðan 1983. Í skýrslunni er vikið að þróunarsamvinnumálum, en þar hafa fjárveitingar verið takmarkaðar og eru raunar langt undir því marki sem Alþingi sjálft hefur sett sér.

Varðandi hafréttarmál vil ég taka fram hér að nýlega var haldinn fundur í Kaupmannahöfn þar sem Danir og Íslendingar ákváðu að efna til rannsókna í sumar á Hatton Rockall-svæðinu og verður Bretum og Írum boðin þátttaka í þeim rannsóknum.

Í síðustu skýrslu lýsti ég því aukna vægi sem alþjóðaefnahagsmál hafa fengið á vettvangi alþjóðamála. Almennt efnahagsástand í heiminum hefur ekki aðeins áhrif á afkomu einstakra ríkja heldur tengjast efnahags- og öryggismál margvíslegum böndum. Þessar staðreyndir kalla á árvekni okkar Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi á sviði efnahagsmála. Við verðum annars vegar að tryggja framleiðslu okkar hindrunarlausan aðgang að helstu mörkuðum og hins vegar að gera átak í sölu- og markaðsmálum með hliðsjón af þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í íslensku atvinnulífi með tilkomu nýrra atvinnugreina.

Á grundvelli þessarar skoðunar minnar kynnti ég í inngangi síðustu skýrslu nokkur þau atriði sem ég hugðist beita mér fyrir og mun ég nú víkja að framgangi þeirra.

Hinn 10. desember s.l. var opnuð sérstök skrifstofa við sendiráð Íslands í Brussel þar sem aðsetur fastafulltrúa okkar Íslendinga hjá Evrópubandalaginu verður í framtíðinni. Þessari skrifstofu er ætlað það hlutverk að fylgjast grannt með málefnum bandalagsins og koma á framfæri íslenskum sjónarmiðum hvenær sem þörf er talin á slíku.

Í samvinnu við Útflutningsráð Íslands er nú verið að ganga frá fyrirkomulagi við ráðningu sérstakra markaðsfulltrúa sem starfa munu í íslenskum sendiráðum. Þessir fulltrúar munu koma til viðbótar þeim tveim markaðsfulltrúum sem áður höfðu verið ráðnir. Útflutningsráð Íslands hóf starf sitt 1. október s.l. og þar með eru skilyrði fyrir hendi til mun víðtækara samstarfs allra þeirra aðila er sinna útflutningi en áður hefur þekkst.

Nefnd undir forustu Davíðs Ólafssonar fyrrverandi seðlabankastjóra hefur kannað hvernig best sé að haga utanríkis- og viðskiptaþjónustu okkar Íslendinga í Asíu. Í niðurstöðum nefndarinnar, sem kynntar hafa verið alþm., segir að ekki séu enn fyrir hendi þær forsendur er réttlæti stofnun sérstaks sendiráðs eða viðskiptaskrifstofu í Asíu með öllum þeim kostnaði sem því yrði samfara. Nefndin fellst á þá áherslu í störfum Útflutningsráðs Íslands að við núverandi aðstæður beri að leggja aukna rækt við markaðsstarf í nálægari löndum. Á hinn bóginn er lagt til að samskipti við ríki Asíu, einkum Japan, verði efld t.d. með styrkjum til náms og skipulögðum kynnisferðum. Einnig leggur nefndin til að ráðnir verði sérfræðingar til ráðuneyta eða Útflutningsráðs Íslands sem hefðu það hlutverk að safna upplýsingum, tæknilegum og viðskiptalegum, fyrst í stað aðallega frá Japan. Sérfræðingarnir mundu vinna úr upplýsingum og búa þær úr garði þannig að þær væru aðgengilegar fyrir útflytjendur og framleiðendur sem væri þannig auðveldað að fylgjast með því sem væri að gerast á þessum sviðum.

Herra forseti. Hér að framan hef ég aðeins vikið að nokkrum þeirra fjölmörgu mála sem tengjast efni þeirrar skýrslu sem hér er til umræðu. Ég hef þannig ekki fjallað um ýmis þau mál sem komið hafa til umræðu á Alþingi fyrr í vetur, svo sem lausn siglingamálsins, en þung áhersla var lögð á það í síðustu skýrslu að lausn fyndist á þeirri deilu, hvað og varð á s.l. hausti.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.