03.05.1982
Sameinað þing: 85. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4477 í B-deild Alþingistíðinda. (4230)

Minnst látins fyrrv. ráðherra og alþingismanns

Forseti (Jón Helgason):

Kristinn Guðmundsson fyrrv. utanríkisráðherra og sendiherra andaðist s.l. föstudag, 30. apríl, á áttugasta og fimmta aldursári. Hann tók sæti hér á Alþingi tvisvar skamma stund sem varaþingmaður á árunum 1947 og 1949, en átti síðan setu á Alþingi sem utanríkisráðherra þrjú þing á kjörtímabilinu 1953-1956.

Kristinn Guðmundsson var fæddur 14. október 1897 að Króki á Rauðasandi. Foreldrar hans voru Guðmundur bóndi og hreppstjóri þar, síðar í Lögmannshlíð í Glæsibæjarhreppi Sigfreðsson og Guðrún Júlíana, kona hans, Einarsdóttir Thoroddsens. Kristinn stundaði nám í ungmennaskólanum á Núpi í Dýrafirði 1914–1916, en lauk síðan stúdentsprófi utanskóla frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1920. Hann las lögfræði við Háskóla Íslands veturinn 1920–1921, en nam síðan hagfræði og lögfræði við háskólann í Kiel 1921 og 1923–1926 og í Berlín 1921–1923. Árið 1926 lauk hann doktorsprófi við háskólann í Kiel. Á árunum 1926–1929 vann hann við einkakennslu og verslun í Reykjavík og Hamborg. Fastur kennari við Menntaskólann á Akureyri var hann 1929–1944 og stundakennari þar 1944–1953, en var á þeim árum að aðalstarfi skattstjóri á Akureyri. Haustið 1953 varð hann utanríkisráðherra og gegndi ráðherrastörfum fram í júlí 1956. Nokkru síðar var hann skipaður sendiherra Íslands í Stóra-Bretlandi og í ársbyrjun 1961 varð hann sendiherra í Sovétríkjunum. Af sendiherrastörfum lét hann sjötugur í árslok 1967 og átti upp frá því heimili í Reykjavík.

Kristinn Guðmundsson var frá æskuárum mikill námsmaður, jafnt í skólum sem utan skóla. Með aldri varð hann fjölfróður menntamaður og miðlaði námsmönnum af víðtækum fróðleik sínum og þekkingu. Á starfsárum sínum í Sovétríkjunum á sjötugsaldri hóf hann af kappi nám í rússnesku. Á Akureyri voru honum falin ýmis störf í þágu bæjarfélagsins og þar var hann bæjarfulltrúi 1950-1953. Hann var ágætur liðsmaður í stjórnmálaflokki og honum voru falin vandasöm ráðherrastörf á umbrotatímum. Með góðvild og drengskap ávann hann sér hvarvetna vinsældir í störfum. Gilti það um kennslustörf, skattheimtu, stjórnmálabaráttu og ráðherradóm. Síðasta áratug starfsævi sinnar gegndi hann með sæmd og háttprýði mikilvægum störfum fyrir þjóð sína á erlendum vettvangi.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Kristins Guðmundssonar með því að rísa úr sætum.— [Þingmenn risu úr sætum.]