15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5303 í B-deild Alþingistíðinda. (4602)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það hefði einhvern tíma hvarflað að manni að örlítið fleiri hv. þm. sæju ástæðu til að vera viðstaddir umr. um mál af þessu tagi. Ég lít svo á að hér sé á ferðinni eitt af stærstu málum sem lögð hafa verið fyrir hv. Alþingi sem nú situr, en það eru greinilega ekki margir sammála mér um það.

Hér var áðan troðfullur þingsalur að greiða atkv. um áfengt öl og mikill tími á yfirstandandi þingi hefur farið í umræður um það mál. Út af fyrir sig er ég ekki að gagnrýna að svo hafi verið, en ég held þó að það væri ekki síður ástæða til þess, eins og málum er nú komið í íslenskum landbúnaði, að menn eyddu ofurlitilli orku í það að kynna sér þetta frv. og ræða málefni þess.

Ég vil í upphafi, herra forseti, lýsa furðu minni á þeim vinnubrögðum sem hæstv. ríkisstj. hefur viðhaft í þessu máli öllu. Þau eru með endemum. að mínu mati, og er þó ekki úr háum söðli að detta hvað varðar skipulag og markviss vinnubrögð af hálfu hæstv. ríkisstj. í þingstörfum og við samningu laga yfirleitt, herra forseti, ef ég má segja þá mína skoðun. Þetta frv., sem er allþykkt, birtist á borðum þm. 14. maí, þ. e. í gær, og að sjálfsögðu er það þegar tekið til umr. þegar einstakir þm. hafa haft tæpan sólarhring til að kynna sér efni þess.

Aðdragandinn að þessu er að sjálfsögðu lengri þó hann sé litlu fegurri. Þannig var til að mynda Stéttarsamband bænda kallað saman til aukafundar til að segja skoðun sína á þessu máli, en þá var þannig að því staðið að stéttarsambandsþingsfulltrúar fengu fyrstu drög frv. í hendur, að mér skilst, aðfaranótt fundardags og grg. eða einhver fleiri fskj. komu í hendur þeirra þegar búið var að setja fund. Þá lá það fyrir að þetta þing mundi einungis standa í einn dag. Gefur þá auga leið hversu hægt menn áttu um vik að glöggva sig á efnisþáttum málsins og mynda sér skoðun á því enda stóð upp úr svo til hverjum ræðumanni á því þingi, sem ég sat að verulegu leyti. herra forseti, gagnrýnin á þessi vinnubrögð. Niðurstaðan varð enda sú að þingið treysti sér ekki til þess að ganga frá áliti sínu sem vonlegt var, en setti þess í stað niður nefnd til að reyna að bjarga því sem bjargað varð. Ég tel lágmark, herra forseti, ef þessi afgreiðsla aukaþings Stéttarsambandsins hefði átt að vera marktæk, að öllum þingfulltrúum hefði borist þetta mál í hendur með góðum fyrirvara, ekki minna en hálfs mánaðar fyrirvara, til þess að þeir hefðu einhver minnstu tök á því að lesa frv. og kynna sér efnisþætti þess.

Ég er ekki að lasta þátttöku eða framgöngu stéttarsambandsins í þessu né heldur störf þeirra ágætu manna sem þar voru settir niður til nefndar. Ég er að reyna að lýsa þeim starfsskilyrðum sem þeim bauðst að vinna undir.

Þá er eftir sá þáttur þessa máls sem varðar samskiptin við almenna bændur í landinu og þau tækifæri sem bændastéttin og aðrir, sem hagsmuna eiga að gæta á sviði landbúnaðar, hafa haft til þess að fylgjast með og hafa áhrif á framgang þessara mála. Það mun hafa verið formaður Stéttarsambands bænda sem tók svo til orða að lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum væru vinnulöggjöf landbúnaðarins í landinu. Ég get tekið undir þau orð. Hér er í raun á ferðinni vinnulöggjöf íslensks landbúnaðar. Það gefur því auga leið að menn hljóta að vinna að framgangi þess máls með tilliti til þess mikilvægis sem það hefur fyrir þennan atvinnuveg. Ég get engan veginn sagt að ég telji að svo hafi verið gert og mér þykja þessi vinnubrögð öll hin furðulegustu, herra forseti.

Það er ljóst að stjórnarflokkarnir hafa ekki kosið að leita eftir samstöðu um þetta mál í meðferð þess. Því var haldið leyndu eftir því sem kostur var fyrir fulltrúum stjórnarandstöðunnar og það þurfti að kvelja það upp úr hæstv. landbrh. með eftirgangsmunum hér á hinu háa Alþingi að fulltrúar stjórnarandstöðunnar fengju þetta í hendur eigi síðar en stéttarþingsfulltrúar sem kæmu saman til aukaþings. Svo naumt var það, að ég hygg, að frumvarpsdrög komu í hendur formanns Alþb., sem ég er málkunnugur, kl. 22.30 að kvöldi dagsins áður en aukafundur Stéttarsambandsþings var haldinn. Síðan kemur frv. hingað fullbúið og er tekið til 1. umr. sólarhring eftir að það er lagt fram.

Það gefur því auga leið, herra forseti, að hér eru naumast tök á því að ræða ítarlega efnisþætti þessa máls, svo viðamikið sem það er og með tilliti til þessa aðdraganda þess. Það sem ég hef þó sérstaklega aths. við að gera hér og vildi inna hæstv. landbrh. nokkru nánar eftir áður en þetta mál fer til nefndar er í fyrsta lagi að hve miklu leyti þær brtt. sem sexmannanefnd Stéttarsambandsþings gerði við frumvarpsdrögin hafa verið teknar til greina og hvort þær hafa þá verið teknar til greina í þeim mæli að Stéttarsamband bænda telji sig bera á einhvern hátt ábyrgð á því frv. sem hér litur dagsins ljós. Ég held að það liggi í hlutarins eðli, miðað við þá afgreiðslu sem málið fékk á aukaþingi Stéttarsambandsins, að hafi þessar aths. þeirra og breytingar ekki verið teknar til greina í öllum aðalatriðum sé Stéttarsamband bænda laust allra mála og beri ekki ábyrgð á þessu máli eins og það hefur borið að. Þessu tel ég óhjákvæmilegt að fá hér svarað strax þó að vonandi gefist tími og tækifæri til að ganga eftir því í nefndarstörfum hvernig þessu er háttað.

Þá vil ég spyrja hæstv. landbrh. í tilefni af ályktunum sem samþykktar hafa verið á fundum bænda á fleiri en einum stað á landinu undanfarið hvað hann vilji segja okkur um þann tón sem þar varð vart við í garð þessa frv. og í garð þessara vinnubragða og hvað hann vilji segja um þá kröfu bænda sem höfð hefur verið uppi á fleiri stöðum en einum — ég nefni þó sérstaklega fund sem haldinn var í Húnavatnssýslum fyrir stuttu að þetta mál komi út á meðal bænda til skoðunar og þetta verði ekki lamið í gegn á yfirstandandi þingi.

Það er ljóst, herra forseti, að staða bænda og staða landbúnaðarins er ákaflega erfið. En það er einnig ljóst, að mínu viti, að þetta frv. tekur ekki á þeim vanda nema til framtíðar sé litið. Staðan er slík, sá mikli fjárhagsvandi sem bændur eiga við að glíma og gífurleg skuldasöfnun, ómældir erfiðleikar þeirra á þessu vori, til að mynda við að leysa út áburð og halda hreinlega búrekstri sínum gangandi, að þetta frv. kemur ekki til með að leysa vanda bænda á neinn hátt með skjótvirkum hætti. Því er eðlilegt að spurt sé í framhaldi af þessu: Eru einhverjar fleiri ráðstafanir væntanlegar eða á döfinni hjá hæstv. landbrh. til að grípa á þessum málum með skjótvirkari hætti en hér yrði raunin á?

Ég vil láta það koma fram strax, herra forseti, að ég tel það í raun ófært að ætla að afgreiða þetta frv. á yfirstandandi þingi. Nú hellast yfir málin. 13., 14. og 15. maí hellast inn mál frá hæstv. ríkisstj., sum hver frv. þykk og mikil, og uppi eru óskir um að afgreiða þetta allt saman, alla súpuna, ég hygg að það séu yfir 70 mál. áður en þinglausnir verða. Ég veit þá ekki hvenær í ósköpunum þær þinglausnir eiga að fara fram ef vinna á að öllum þessum málum með eðlilegum hætti — eða er hæstv. ríkisstj. að gefa það í skyn að það sé allt í lagi að sulla þessu í gegn án þess að skoða það nokkurn skapaðan hlut? Annað hvort hlýtur það að vera. Þessu ætti hæstv. ríkisstj. að svara — hæstv. landbrh. fyrir sinn hlut að svo miklu leyti sem hann er aðili að málinu.

Ég hafði talið miklu farsælla, herra forseti, úr því sem komið er, og ég hef góðan hug um að gera það að tillögu minni. að sett verði niður nefnd þm. allra flokka sem starfi í sumar að þessu máli með fulltrúum bænda og öðrum þeim sem aðild þurfa að eiga að þessu máli, farið verði með það til kynningar á skipulegan hátt út á meðal bænda og þeim gefist þannig kostur á því að segja milliliðalaust skoðun sína og koma henni á framfæri. Í gegnum fulltrúakerfi eins og það sem er viðhaft til að kjósa ákveðna menn til funda, ekki síst þegar þeir eiga að vinna við skilyrði eins og ég hef hér áður rakið, er ljóst að það er orðinn langur vegur frá hverjum einstökum hagsmunaaðila í málinu til þeirra sem stefnuna mótuðu. Ég mótmæli harðlega því að heilli atvinnugrein sé sett löggjöf með þessum hætti án þess að fulltrúar allra stjórnmálahreyfinga eigi aðild að málinu. Það eru í hæsta máta óeðlileg og óheppileg vinnubrögð að mínu mati, herra forseti. Ég held að það hefði verið þessu máli miklu fremur til framdráttar að stjórnarandstaðan hefði átt að því aðild á fyrri stigum. En að sama skapi er ljóst að þegar hæstv. ríkisstj. hefur valið þennan farveg ber hún ein ábyrgð á því sem hér er fram lagt og getur ekki ætlast til þess að stjórnarandstaðan bregðist öðruvísi við en í ljósi þess. Ég vil því spyrja hæstv. landbrh. hvað hann vilji segja um þá málsmeðferð að það verði ákveðið að afgreiða ekki þetta frv. á þessu þingi. en sett verði niður nefnd þm. úr öllum flokkum sem vinni með Stéttarsambandi bænda og bændum almennt í landinu og öðrum þeim sem hagsmuna eiga að gæta í landbúnaði og við úrvinnslu landbúnaðarafurða að því að móta heilsteyptari löggjöf sem kynnt verði með eðlilegum hætti og unnið verði að með eðlilegum hætti með það markmið í huga að ná fram slíkri lagasetningu á næsta þingi.

Í þessu frv. eru ýmis nýmæli. ýmsar breytingar. sem auðvitað verður að skoða mjög vandlega. Ég hygg að segja megi að þar séu ýmsir lausir endar sem verði að hnýta saman og ákvæði sem verði að skýra áður en þm. geta með nokkru móti gert sér grein fyrir hvert verið er að stefna. Það eru ýmis fögur fyrirheit í frv., en minna farið út í framkvæmdaatriðin. hvernig eigi að koma þeim fögru fyrirheitum í framkvæmd. Þar er t. d. talað um það að tryggja beri bændum greiðslur fyrir sínar afurðir með skjótvirkari hætti en verið hefur. en hvernig eigi að standa að því, hvernig eigi t. d. að gera afurðasölufyrirtækjum eða vinnslustöðvum sem kaupa vörur af bændum kleift að inna þær greiðslur af hendi, á það er ekki bent. Þetta er laus endi. herra forseti. Þetta er fagurt markmið sem ekki er með neinum hætti gerð grein fyrir hvernig eigi að standa við.

Eins og fréttamaður sjónvarpsins sagði glaðhlakkalega er ýmislegt opnað í frelsisátt í þessu frv. Alls staðar skal nú frelsinu troðið inn. Það gaf ónefndum fréttamanni tilefni til að brosa að hér væri farið mjög í frelsisátt. eins og það var orðað í fréttatíma ríkisfjölmiðilsins.

Það er opnað t. d. fyrir vinnslustöðvar og leyfisbinding þeirrar starfsemi er opnuð frá því sem áður hefur verið. Kannske finnst hæstv. landbrh. ekki nóg að gert, ekki hafi nóg verið fjárfest í vinnslustöðvum. Óttast hann ekkert að hér kunni að fara af stað skriða, að vinnslustöðvar og húsnæði sem þegar er fyrir hendi falli alveg niður, það leggist af starfsemin, en til viðbótar komi fjárfesting á öðrum stöðum o. s. frv., þetta verði m. ö. o. ein stjórnlaus hringavitleysa? Ég held að það þurfi að skýra það betur en gert er í þessu frv. hvernig á að stjórna þessum málum af einhverju skynsamlegu viti.

Ég óttast mjög, herra forseti, áhrif þessa frv. á byggðaþróun í landinu. Það eru í þessu frv. jákvæðir þættir eins og þeir, að mínu mati, að gefin er heimild til að svæðisbinda bú manna. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það væri það sem þyrfti að gera. En það er ekkert um það fjallað, ekkert út í það farið hvernig það svæðisbúmark eigi að vera. — Nú hristir hv. þm. og líklega höfundur eða guðfaðir þessa frv. að verulegu leyti, Egill Jónsson, höfuðið. (Gripið fram í: Hann á ekki að hrista höfuðið í þessari deild.) Hann hristir höfuðið í hliðarsal og við látum það gott heita, ég og herra forseti, að ég tel.

Það er t. d. ekki tekist á við það verkefni sem ég held að ætti að vera verkefni númer eitt í sambandi við framleiðslustýringu í landbúnaði á Íslandi, en það er að marka einhverja stefnu varðandi bústærð, varðandi einingastærð í rekstri landbúnaðar á Íslandi. Það eru áhrif þessa stefnuleysis á byggðajafnvægið, á búsetuþróunina, sem ég óttast. Við erum greinilega ekki nógu miklir kjarkmenn til þess, a. m. k. ekki höfundar þessa frv., að taka t. d. Norðmenn til fyrirmyndar í þessum efnum sem hafa sett sér ákveðin stærðarmörk og keppa að því að ákveðnar einingar í landbúnaði, einingar af ákveðinni stærð, verði rekstrarlega arðbærar einingar. Á þessu verkefni er ekki á nokkurn hátt tekið og ég óttast það, herra forseti, að enn muni þrengjast fyrir dyrum hjá smáfuglunum, að meðalbúum og smærri búum verði enn gert erfiðara fyrir og grundvallareiningunni sem lengi hefur verið í íslenskum landbúnaði, þ. e. fjölskyldubúinu, því búi sem ein fjölskylda hefur framfæri sitt af, verði úthýst. Hvar stendur íslenskur landbúnaður og hvar stendur byggðin í íslenskum sveitum þá? Á þessu grundvallaratriði er ekki tekið. Ég held að frv. sé stórgallað að þessu leyti. Ég er þeirrar skoðunar að bú af meðalstærð hafi ýmsa kosti fram yfir bæði minni og stærri einingar í rekstri í landbúnaði. Og það er svo merkilegt sem það er að þegar skoðaðar eru tölur koma þessi bú býsna vel út. Þess vegna held ég að það ætti að reyna að tryggja slíkum rekstri grundvöll, tryggja stöðu hans.

Herra forseti. Það er einn rauður þráður — eða kannske grænn þráður — í gegnum þetta frv. Hann er sá að vald er flutt til ráðh., að vald er tekið af framleiðsluráði, vald er flutt frá bændum og vald er flutt frá öðrum aðilum sem um þetta hafa sýslað í rn. og til ráðh. Það er t. d. ákaflega merkilegt, sem snertir fjármálastjórnun, að verulegum hluta þess fjármagns sem varið hefur verið til útflutningsbóta skal nú verja til annarrar atvinnuuppbyggingar í vaxandi mæli á næstu árum. Hver skal síðan stjórna í raun þeirri fjárúthlutun? Hver skal setja henni reglur? Það er landbrh. Hér er verið að taka stóran lið á fjárlögum og færa hann óskiptan undir aðra stofnun úti í bæ sem lýtur forræði og stjórn landbrh. sem starfar eftir sérstakri reglugerð hvað þetta varðar sem landbrh. setur. Hér hafa menn úr fjvn. iðulega haft uppi gagnrýnisraddir um að verið sé að flytja hið eiginlega fjárveitingavald í vaxandi mæli út úr sölum Alþingis með sérstakri lagasetningu og með m. a. málatilbúnaði eins og þessum. Er það hæstv. landbrh. keppikefli að fá þetta vald? Vill hann endilega einn fá að ráðskast með þessa fjármuni? Þetta gengur ekki eins og rauður þráður, herra forseti, því að það væri ranghermi, eins og grænn þráður í gegnum allt frv. Valdið færist til landbrh. frá öðrum aðilum. Þetta er ákaflega sérkennileg árátta hæstv. ráðh. í þessari ríkisstj. og hér hefur hæstv. landbrh. fetað dyggilega í spor flokksbróður síns, hæstv. sjútvrh., sem eins og kunnugt er hefur róið að því öllum árum undanfarin tvö ár að ná til sín sem allra mestu einræðisvaldi í sjávarútvegi á Íslandi, dyggilega studdur af einkaframtaksmönnum Sjálfstfl. Hér er sem sagt uppi á teningnum það sama í landbúnaðarmálunum og er nokkuð merkilegt. (HBl: Er þetta nú ekki ofsagt?) Það kann að vera að þetta sé nokkuð stórt sagt, en því miður, hv. þm. Halldór Blöndal, óttast ég að það sé ekki ofsagt.

Það er ekki með þessu tekið á nokkurn hátt á þeim grundvallarvanda í íslenskum landbúnaði sem er sífellt lækkandi launaliður hins íslenska bónda og vaxandi fjárhagserfiðleikar hans af þeim sökum, eins og ég gerði grein fyrir hér í upphafi, herra forseti. Þá skal verðstýring á landbúnaðarafurðum ýmist afnumin eða færð til.

Ég verð að segja það alveg eins og er, herra forseti, að ég óttast afleiðingar þess. Ég óttast að það muni leiða til hækkaðs vöruverðs í framtíðinni á landbúnaðarvörum. Og hvað sem öllum fallegum ræðum um blessun samkeppninnar líður hygg ég að reynslan sýni okkur að á ákveðnum hlutum eins og þessum er heppilegast að hafa ákveðna verðstýringu. Það hefur gefist best í gegnum tíðina.

Eitt aðalatriðið í þessu frv. varðar framleiðslustjórnunina og þá ákvörðun að draga úr útflutningsuppbótum á landbúnaðarvörum. Að vísu á að verja þeim, eins og ég áður sagði, að hluta til í annað en á heildina litið verður mikill samdráttur í útflutningsbótum. Sá samdráttur kemur að sjálfsögðu, eins og fróðir menn vita, til viðbótar þeim mikla framleiðslusamdrætti sem þegar er orðinn. Nú er það svo að sauðfé í landinu hefur t. d. fækkað á tiltölulega fáum árum um fast að 200 þús. vetrarfóðraðar kindur. Þessi samdráttur hefur þegar skapað gífurlega erfiðleika. Þessi samdráttur hefur þegar valdið gífurlegri tekjuskerðingu í heilum byggðarlögum, ekki bara hjá bændunum heldur hjá næstum því hverri starfandi hönd í heilum byggðarlögum, þeim byggðarlögum sem byggja afkomu sína að verulegu leyti eða næstum því alfarið á landbúnaðarframleiðslu og sauðfjárframleiðslu. Ég þekki slík byggðarlög þar sem samdrátturinn er 20 til 25 til 30% hjá bændunum, hjá afurðasölufyrirtækjunum, hjá sláturhúsunum, hjá allri úrvinnslu. Það kemur niður nánast sem nettótekjutap hjá þessum byggðarlögum. Ofan á þennan samdrátt eiga þessar ráðstafanir að bætast. Ég held að það sé á engan hátt séð fyrir endann á þeim afleiðingum sem það mun hafa fyrir búsetuna í landinu og fyrir íslenskan landbúnað.

Það á að miða í meginatriðum við innanlandsmarkaðinn. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvaða borð telja menn æskilegt að hafa fyrir báru í þeim efnum? Ég vil t. d. spyrja hæstv. landbrh.: Telur hann að við Íslendingar eigum að gefa Færeyjamarkað fyrir kindakjöt upp á bátinn sem hefur lengst af verið okkar traustasti markaður og gefið okkur einna best verð? Vill hann m. ö. o. gefast upp við þann markað? Og vill hann gefast upp við aðrar tilraunir við að reyna að markaðssetja og reyna að standa þannig að málum gagnvart útflutningi á íslenskum landbúnaðarvörum að eitthvað verði reynt að gera þar áfram? Ég held að það sé óðs manns æði að stefna að öðru en því að framleidd sé í landinu a. m. k. innanlandsframleiðslan, að alltaf, jafnvel í harðærunum, sé talsvert borð fyrir báru, og það muni vera þjóðhagslega hagkvæmt að halda uppi framleiðslustigi sem er það mikið fyrir ofan innanlandsneysluna að þessu markmiði sé náð.

Fleiri fréttir væri hollt að hugleiða í þessu efni. t. d. þá staðreynd að framleiðslan innanlands á hráefnum til iðnaðar er þegar komin niður að þeim mörkum sem hinn íslenski ullar- og skinnaiðnaður þarf. Meira að segja er Samband íslenskra samvinnufélaga tekið að flytja inn hráefni, tekið að flytja inn gærur.

Mundi þá ekki þegar þetta tvennt er borið saman, gjaldeyrir sem fæst fyrir útflutningsframleiðsluna á okkar bestu mörkuðum eins og Færeyjamarkaði og sá kostnaður sem hlýst af því að þurfa að flytja hráefnið inn í landið í staðinn, vera brúað þetta bil þannig að menn sæju að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að halda uppi þessu framleiðslustigi í landinu?

Ég er þeirrar skoðunar að með bættu skipulagi og bættri framleiðslustýringu, svæðabúmarki og fleiri slíkum ráðstöfunum, væri unnt að hafa þann sauðfjárfjölda í landinu sem nú er án þess að gróðurlendi væri stefnt í hættu í landinu. Ég er þeirrar skoðunar og vil að það komi hér fram. Það er veigamesta röksemd sem ég held að menn eigi að líta til í sambandi við það hversu mikið fé hér skuli haft, hversu mikið hér skuli framleitt, að það á að vera í fullu samræmi við afkastagetu íslenskrar náttúru og í fullri sátt við hana.

Það er ekki í þessu frv. gerð tillaga um að taka upp heildarframleiðslustýringu á öllum greinum. Því miður, segi ég. Ég held að það sé tómt kák og barnaskapur að vera með harðar framleiðslutakmarkanir á ákveðnum greinum landbúnaðarins en sleppa öðrum lausum. enda hefur það sýnt sig að upp í þann framleiðslusamdrátt sem bændur í hefðbundnum greinum hafa tekið á sig, t. a. m. í kjötframleiðslunni, hefur verið fyllt af öðrum að verulegu leyti. Ég held að hér þurfi að koma til heildarstýring og enn er þetta frv. gallað hvað þetta áhrærir.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara lengra út í efnislegar umr. um þetta frv. þó að það væri vissulega ástæða til að nefna fjölmarga hluti, en þetta mál kemur til hv. landbn. að líkindum og þar á ég sæti og ég mun að sjálfsögðu kynna mér það þar eftir því sem hægt er.

En ég vil þá endurtaka spurningar mínar til hæstv. landbrh. um það hvaða hraða hann hugsi sér á afgreiðslu þessa máls. Hvað þykir honum t. a. m., sem þingreyndum manni og fyrrverandi forseta á hv. Alþingi, eðlilegt að nefndir þingsins fái langan tíma til að starfa að máli eins og þessu, að viðamiklu máli með miklum breytingum eins og því sem hér um ræðir? Finnst þessum fyrrverandi hv. forseta Alþingis Íslendinga eðlilegt að afgreiða slíkt mál á kannske nokkrum dögum hér í gegnum þingið? Og hvað segir hann um þá vinnutilhögun að Alþingi setji niður þingmannanefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem starfi að þessu máli með hagsmunaaðilum í sumar til að gera þessa lagasetningu sæmilega myndarlega, að þannig verði að henni staðið að líkindi séu til þess að sæmileg sátt verði um þetta mál, ekki bara á hv. Alþingi heldur einnig meðal bænda og allra aðila sem aðild eiga að þessu?

Það stendur yfir sauðburður, herra forseti. Bændur munu því ekki eiga mjög hægt um að ríða til þings og fylla áhorfendapalla eða láta með öðrum hætti álit sitt í ljós. En ég er alveg sannfærður um að margan bóndann mun langa til þess að koma hingað til höfuðstaðarins og segja nokkur vel valin orð við hæstv. ríkisstj. og hæstv. landbrh. ef það á að berja þetta frv. hér í gegn á yfirstandandi þingi.