15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5311 í B-deild Alþingistíðinda. (4604)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ímyndum okkur að þetta frv. til laga fjallaði ekki um landbúnaðarmál, heldur heildverslun. Gerðum síðan ráð fyrir því að helstu heildsalar sem sæti ættu á Alþingi Íslendinga væru skipaðir í nefnd til að semja lögin. Heildsalarnir meðal þingmannanna ynnu lengi og kappsamlega að lögunum og á ársþingi heildsala yrði frv. lagt fram og settar fram ýmsar ábendingar og gagnrýni um að ekki væri nægilega vel haldið á málum heildsala, en síðan gerðist það nú að lokum að hæstv. heildverslunarráðherra sýndi Alþingi þá virðingu að leggja málið fram á Alþingi degi áður en umr. hefjast, eftir að stórvesíraráð heildsalafélagsins er búið að fjalla um þetta rækilega fyrir hönd heildsala til að tryggja hagsmuni þeirra. Ef við í staðinn fyrir orðin „bændur“ eða „vinnslustöðvar“ settum orðin „heildsalar“ eða „samtök heildsala“, þá er ég hræddur um að það mundi lyftast brúnin á mörgum hv. alþm. Tilgangur frv. væri sem sé sá að tryggja að heildsalar tækju enga áhættu í sínum atvinnurekstri; ef heildsölum þætti það verð sem þeir fá fyrir sina vöru og þjónustu ekki nóg væri það leitt í lög að ríkið, þ. e. skattgreiðendur, neytendur, viðskiptavinir heildsala, skyldu tryggja heildsölunum hærra verð og sér í lagi að ef heildsalar í útflutningi fengju ekki nægilegt verð erlendis skyldi það tryggt að heildsölum yrði bætt það í formi verðlagsbóta eða hækkaðra umboðslauna eða heimildar til að þurfa ekki að skila umboðslaunum, sem þeir taka erlendis, til landsins. Þá færi nú að kárna gamanið. Þá er ég hræddur um að það færi meira en að lyftast brúnin á einhverjum hv. alþm. Þá er ég hræddur um að það yrðu nokkurn veginn flestir á einu máli um að þetta mál væri eitt samfellt endemis hneyksli, sem það er og sem það væri.

Vinnubrögð landbúnaðarkerfisins í þessu máli eru hneyksli. Virðingarleysi fyrir löggjafarsamkomunni er hneyksli. — Við gætum svo sem í staðinn fyrir orðin „heildverslun“ eða „samtökum heildsala“ sett hvert annað það apparat sem okkur þóknaðist að láta okkur detta í hug. Við gætum sagt að þetta væri frv. tillaga um olíuverslun eða um tryggingastarfsemi. Et' við settum sem sé „olíufurstar“ eða „tryggingafélagaforstjórar“ á réttan stað í frv. gæti það orðið til þess að opna augu manna talsvert.

Þetta frv. táknar enga stefnubreytingu. Þetta er dæmigert framhald óbreyttrar landbúnaðarstefnu með smávægilegum breytingum. Þetta er innsiglun á áframhaldandi ríkisforsjárpólitík, algerlega í blóra við margyfirlýsta stefnu stærsta stjórnarflokksins. Það vekur athygli t. d. að í þeirri nefnd sem er sögð hafa tekið þetta saman með aðstoð kerfisins átti upphaflega sæti formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson, en lét af störfum og í hans stað kom hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson. Aðrir sem í nefndinni eiga sæti, hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, Egill Jónsson og Þórarinn Sigurjónsson, eru bændur og tilheyra því framsóknarkerfi sem farið hefur með mál bændastéttarinnar áratugum saman í umboði framsóknarmanna í að minnsta kosti tveimur ef ekki þremur flokkum.

Það er mörgum undrunarefni hversu miklir snillingar við virðumst vera í því að gera einfalda hluti flókna, að spinna lagavef eins og þennan sem er annars öðrum þræði frómar hugleiðingar, moðsuða, óframkvæmanleg meira og minna, blaðsíðu eftir blaðsíðu eftir blaðsíðu, án þess að þarna sé nokkur raunverulegur rökréttur þráður af hagfræðilegri hugsun og er þó verið að fjalla þarna um málefni heils atvinnuvegar. Hverjir eru bændur? Bændur eru atvinnurekendur. Sem slíkir þurfa þeir að taka talsverða áhættu því að landbúnaður er áhættuatvinnurekstur. Þeir eiga sitt mikið til undir forsjóninni, undir veðri og náttúruskilyrðum. Þeir hafa vöru að selja. Stærsta og þýðingarmesta mál fyrir bændur er að tilkostnaður þeirrar framleiðslu sé sem minnstur. Landbúnaðarframleiðsla fer ekki fram án þess að einhverjir séu neytendur. Hverjir eru hagsmunir neytenda? Þeir eru að verðlag á þessum afurðum sé sem lægst. Hvaða leiðir eru best færar til þess? Að draga úr tilkostnaði og tryggja sem lægst verð. Hefur einhverri hugsun verið eytt að því hjá frumvarpssmiðunum þessum?

Í 1. gr. eru settar fram ýmsar hugleiðingar um markmið. Eitt markmiðið er að tryggja hagkvæmni í búvöruframleiðslu. Þetta frv. gengur allt út á það að auka óhagkvæmni í búvöruframleiðslu. Eitt markmiðið á að vera að tryggja nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu. Nægjanlegt vöruframboð í landi þar sem offramleiðsla landbúnaðarvara er búin að vera viðvarandi ástand í áratugi! Auðvitað gerir þetta frv. ekkert í þá átt að tryggja vöruframboð við breytilegar aðstæður. Auðvitað sveiflast það til og frá. Að nýttir verði sölumöguleikar fyrir búvörur erlendis. Hverjir eru sölumöguleikar fyrir búvörur erlendis? Einn hv. þm. var hér áðan að tala um traustasta markað okkar fyrir lambakjöt erlendis. Hvar skyldi hann nú fyrirfinnast í veröldinni, traustasti markaðurinn? Síðan segir hér: Eitt markmiðið á að vera að stuðla að jöfnuði á milli framleiðslu í hverri búgrein. Það gengur auðvitað þvert á hin yfirlýstu markmið. Hvar er hagkvæmast að framleiða mjólk? Er það ekki í sem mestu nábýli við þéttbýlisstaði? Hvar er hagkvæmast að framleiða kjöt? Er það ekki þar sem beitarland er hvað best? (Gripið fram í: Í Ketildalahreppi.) T. d. já, í Ketildalahreppi. Ætli bændum sé þetta ekki ljóst sjálfum? Hvers vegna þá að koma á heilu kerfi til að koma í veg fyrir að bændur lagi sig að slíkum aðstæðum? Hvað eiga menn við með framleiðslustjórnun, verðmiðlun og allri þessari íhlutun? Dettur mönnum virkilega í hug að allt þetta fjölmenna viðamikla bákn valdi þessum verkefnum þó að markmiðin séu fróm? Auðvitað ekki. Allt er þetta bákn til þess fyrst og fremst að auka óhagkvæmni, auka tilkostnað og gera landbúnaðarframleiðsluna dýrari.

Þau vandamál sem við er að fást í landbúnaði eru mörg en það mætti kannske setja þau fram með þessum hætti: Íslensk landbúnaðarframleiðsla er dýr og eitt aðalvandamálið er að draga úr tilkostnaði við hana. Ágætur bóndi á Suðurlandi sagði mér nýlega frá því að búið velti um 3 millj. kr. Þetta er aðallega mjólkurbú. Hann ver 1 millj. kr. í fóðurkaup. Hann kaupir kjarnfóður fyrir 1 millj. kr. til þess að framleiða mjólk. Hluti af þeirri mjólk telst vera offramleiðsla, er notuð til að framleiða osta, flutt síðan út til New York og sá útflutningur styrktur stórlega. Þessi bóndi sagði: Ef við þurfum einhverja ráðgjöf öðru fremur er hún fyrst og fremst um hvaða leiðir við eigum að fara til að draga úr okkar framleiðslukostnaði. — Ég er hræddur um að hann fái litla ráðgjöf hér.

Í annan stað er eitt vandamál í íslenskum landbúnaði viðvarandi og það er offramleiðsla í hefðbundnum greinum. Menn hafa haldið að unnt væri að leysa það með útflutningi. Hins vegar hefur ekkert verið gert til þess að leysa það vandamál eftir skynsamlegum og hagkvæmum leiðum, enda að mjög takmörkuðu leyti á okkar færi. Ástæðurnar eru nefnilega þær að markaðslöndin í kringum okkur, þar sem við eigum að geta gert okkur vonir um að geta selt þessa vöru, niðurgreiða landbúnaðarafurðir í svo stórum stíl að það er borin von að dýr landbúnaðarframleiðsla hér. m. a. með miklum erlendum tilkostnaði, verði samkeppnishæf á þeim mörkuðum. Í ríkjum Efnahagsbandalagsins eru mjólkurstöðuvötn, vínstöðuvötn, kjötfjöll, smjörfjöll. Níutíu prósent af sameiginlegri fjárhagsáætlun Efnahagsbandalagsins fara í niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum. Það er reyndar samræmd stefna iðnríkjanna að reyna að halda verði á landbúnaðarvörum niðri og kostnaðurinn er auðvitað borinn uppi af iðnaðarframleiðslunni. Niðurstaðan að því er varðar vanþróaðar þjóðir, framleiðendur matvæla og hráefna, er auðvitað að þetta verður til þess að breyta viðskiptakjörum þeim í óhag, bitnar m. a. á okkur á fiskimörkuðum heimsins.

Nú höfum við af því áratuga reynslu að ríkið segir við bændur: Við ætlum að tryggja ykkur verð á framleiðslunni, hver sem hún er, hversu mikil sem hún er, hversu langt umfram innanlandsþarfir hún er. Að vísu er það ekki tryggt með einu og sama verðinu. Það eru afbrigði í því. Þetta er auðvitað stórlega framleiðsluhvetjandi, síðan kemur að því að það á að flytja þessar vörur út til þeirra landa þar sem samsvarandi vörur fást á stórlega niðurgreiddu verði með þeim afleiðingum að verðið sem við fáum fyrir þessar afurðir er brotabrot af framleiðslukostnaði. Þá gerum við það auðvitað með þeim hætti að ríkið stendur við sína tryggingu. Og hvað er þetta ríki? Það eru skattgreiðendur, neytendur í landinu. Og að þetta vandamál skuli hafa verið í 20 ár og að það skuli hafa verið talið gagnrýnisvert að eyða að því orðum er alveg makalaust. Hér er enn gert ráð fyrir því að halda þessu áfram. Til ársins 1990 eða meir.

Það er svo saga út af fyrir sig hvernig staðið er að þessum útflutningi. Sérfróðir menn í matvælaiðnaði telja ekki útilokað að sitthvað sé hægt að gera hl þess að fá takmarkaðan markað fyrir einstaka gæðavöru ef hún er framleidd skv. ýtrustu kúnstum matvælaiðnaðar. þ. e. máltíðaframleiðsla í þar til gerðum neytendapakkningum. En hin venjulega regla hefur verið sú að flytja þetta í skrokkum í grisjupokum vegna þess að útflytjandinn, stóri bróðir SÍS, hefur ekki hinna minnstu hagsmuna að gæta í því að tryggja betra verð á sérmörkuðum. Hann fær allt sitt á þurru gegnum ríkið frá skattgreiðendum með umboðslaunum sem hlutfall af tilbúnu innlendu heildsöluverði án tillits til kostnaðar. Og áfram má halda með það.

Þriðja atriðið sem hefur orðið að sívaxandi vandamáli í íslenskum landbúnaði er að kerfið sem tekur við afurð bóndans, flutningakerfið, vinnslukerfið, sláturhús, framleiðslukerfið, dreifingarkerfið, sölukerfið, er orðið gífurlega viðamikið bákn og feikilega dýrt. Þetta bákn er orðið að þungri byrði á herðum bænda sjálfra og að sjálfsögðu neytenda líka. Reyndar má segja að allt þetta kerfi, sem hér er búið að vera að byggja upp og fær svolitla andlitslyftingu í þessu frv., er bæði bændum sem framleiðendum og neytendum orðið að þungbærri byrði. Bæði bændur og neytendur eru fórnarlömb þessa kerfis, enda er svo komið að bændur eru farnir að stofna sérstök samtök, mjólkurbændur sunnanlands og sauðfjárbændur norðanlands. til að verja hagsmuni sína gagnvart þessu kerfi. Og hvað er nú verið að gera til að draga úr kostnaði milliliðakerfisins skv. þessu? Ekki neitt. Það er verið að tryggja hagsmuni milliliðakerfisins sem áfram á auðvitað að hafa allt sitt á þurru.

Framleiðslustjórnun. Hver er nú hugsunin í því? Annars vegar er augljóst mál að þessi ríkistrygging. þ. e. sú trygging skattgreiðenda að kaupa á tilteknu verði alla framleiðslu, hversu mikil sem hún verður umfram innanlandsþarfir, er framleiðsluhvetjandi. Niðurgreiðslur á vöruverði, af því að landbúnaðarframleiðsla er dýr og hefur verið gerð enn þá dýrari með þessari hagstjórn og framsóknarheimspeki, eru auðvitað framleiðsluhvetjandi. Útflutningsbætur, sem eru partur af þessari ríkistryggingu, eru auðvitað framleiðsluhvetjandi. Allt hefur þetta kerfi verið við lýði á sama tíma og menn hafa öðru hverju rokið upp til handa og fóta og hannað of mikla framleiðslu og of mikinn tilkostnað.

Svo er loksins komið til bóndans og sagt: Nei, kæri minn. Framleiðslan er of mikil. Nú verður þú að draga úr framleiðslunni. Og þá er auðvitað gripið til hinnar rökréttu niðurstöðu þessarar framsóknarheimspeki sem er kvótakerfið. Þá er sagt við bóndann: Þú verður að takmarka þína framleiðslu. Og gengur þá jafnt yfir hinar hefðbundnu greinar. Hver er nú rökvísin í þessu? Til eru þeir bændur sem sitja á grónum jörðum og hafa afskrifað sína fjárfestingu. Aukin framleiðsla á slíkum búum getur verið hagkvæm, leitt til lækkunar á tilkostnaði. Aðrir eru þeir bændur sem standa í miklum fjárfestingum. eiga eftir að nýta þær að fullu. þ. e. aukin framleiðsla yrði til þess að létta þeim byrðarnar og auka hagkvæmni. Bændurnir sem sitja á hinum grónu búum gætu kannske borið afleiðingarnar af kvótunum, en hinir, sem bera mikinn framleiðslukostnað og fá ekki að nýta þessa fjárfestingu, bera af því verulegan skaða. Ég hygg að það sé að verða rétt að tekjubilið innbyrðis innan bændastéttarinnar sé orðið geysilega áberandi. Það mun vera rétt sem hv. fyrrv. þm. Björn á Löngumýri hefur sagt. Sem betur fer er að finna í bændastéttinni ýmsa vellauðuga menn á íslenskan mælikvarða, praktuglega efnaða menn, en það er líka að finna meðal íslenskra bænda menn sem eru bókstaflega sokknir í skuldafen og þetta ofstýringarhelsi kerfisins og eru raunverulega þar eins og fiskar í neti. Það er svo sem gjarnan verið að reyna að herða möskvana á þeim. Með annarri hendinni eru bændur hvattir til að auka framleiðslu, með hinni hendinni eru þeim refsað fyrir fjárfestingu og settar á þá framleiðsluhömlur sem þýðir auðvitað að greiðslubyrði þeirra af fjármagnskostnaði er að verða óbærileg.

Þetta er ekki skilmerkileg landbúnaðarstefna. Ég skal taka það fram að þm. hefur ekki gefist mikill kostur á að lesa þetta plagg, sem þeir fengu í miðjum umr. í gær, en við fljótlegan yfirlestur virðist augljóst að sú hv. nefnd sem þetta plagg hefur samið hafi eytt litlum tíma í að hugsa vandamálið út frá þessum sjónarhóli, spyrja sig þessarar einföldu spurningar: Hvað á að gera til að draga úr tilkostnaði, hvað á að gera til að draga úr kostnaði við milliliða- og vinnslu- og dreifingar- og sölukerfið, hvað á að gera til að draga úr þeim mikla tilkostnaði sem lendir á neytendum, skattgreiðendum?

Ég held að stærsta hagsmunamál bænda á Íslandi í dag sé það að létta af þeim þeirri ofurþungu byrði þessa kerfis sem nú hvílir á þeim eins og mara. Ef bændur fengju ráðrúm til að bjóða sína vöru, ef bændur hefðu raunverulega tök á þessu milliliðakerfi, þ. e. fyrst og fremst á vinnslukerfinu, dreifingar- og sölukerfinu, og þeir hefðu tök á því að koma sinni vöru á markað milliliðalaust án allra reglugerða og hvers kyns aðgerða sem gera þeim þetta erfitt, banna þeim þetta, þá væru þeir mun betur settir en sem niðursetningar þessa kerfis.

Hvernig á verðmyndunarkerfið að vera í landbúnaði? Sexmannanefndarkerfi og síðan verðmiðlunarkerfi í fimm manna nefndum? Það hefur vakið athygli bænda að á sama tíma og hluti bændastéttarinnar er í helsi kvótans og fær sig hvergi hrært horfa þeir upp á það að það eru nánast engar hömlur á getu vinnslukerfisins til fjárfestingar. Þar hefur verið mjög mikil fjárfesting, mikið um nýbyggingar og fjárfestingu í vélum og tækjum. Hvernig er þessi fjárfesting borin uppi? Það vakti athygli á sínum tíma að þetta kerfi virtist hafa til þess fjárhagslega burði að fjárfesta og byggja fyrir fé sem tekið var út úr rekstri og þurfti litið að leita til fjárfestingarlánasjóða eða banka. Auðvitað er hægt að nefna önnur dæmi. Auðvitað hefur verið tekið mikið af fjárfestingarlánum. Hvaða kostnaðarhugtak er til í þessum rekstri? Hvaða hvati er til þess að beina fjárfestingunni á skynsamlegar brautir eða halda niðri tilkostnaði í þessu kerfi? Hann er enginn. Hann er þvert á móti alveg eins og hjá olíufélögunum sem leggja sína reikninga bara á borð ráðamanna og segja: Þetta kostar það. — Forsjármenn þessa kerfis hafa beinna hagsmuna að gæta að koma þessum kostnaði sem mestum út í verðið og enginn hefur nein tök til þess að gæta almannahagsmuna, gagnrýna þetta, fara þarna ofan í saumana eða tryggja með öðrum hætti að þetta sé innan eðlilegra marka.

Það er ekki nema eitt ráð til að lagfæra þetta og það er að bændur fái aukið vald yfir sínum málefnum sjálfir, að þeir nái tökum á vinnslustöðvunum. Það er ekki nægjanlegt að segja að þeir hafi það núna að forminu til. Þeir hafa það ekki í reynd. Ef um ætti að vera að ræða samninga milli ríkisvalds og bænda ætti það að vera um verðlagningu á fullunnum landbúnaðarafurðum þar sem bændur hefðu beinna hagsmuna að gæta í því að allur tilkostnaður við framleiðsluna, eftir að þeir láta frumhráefnið af hendi, sé í lágmarki. Að öðru leyti er reyndar engin sérstök ástæða til þess að ætla að það sé á valdi ríkisins að tryggja að þarna sé haldið uppi einhverju tilteknu verði. Bændur gætu að sjálfsögðu samið beint við dreifingar- og söluaðila og losað sig þar við gífurlegan milliliðakostnað kerfis sem hvílir á þeim eins og mara.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég þarf ekki að taka það fram að ég er hissa á þessu frv. Þetta frv. er nákvæmlega eins og við var að búast. Þarna koma menn saman, sem eru hagvanir hirðmenn þessa kerfis, til þess fyrst og fremst að gæta hagsmuna kerfisins. Hér talaði hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, 5. þm. Vestf., í gær um óskylt mál. Þá var honum mikið niðri fyrir þegar hann sagði að ósæmilegt væri með öllu að einstakir þm., sem hefðu beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta af einhverju máli, væru um það að fjalla og greiða því atkv. og það væri lágmarkskrafa að þeir sætu hjá í slíkum málum. Þetta á að heita að vera algild vinnuregla í bandarísku stjórnkerfi, ekki bara að því er varðar þing heldur það þegar menn taka að sér störf hjá framkvæmdavaldinu. Þá verða menn a. m. k. að gera grein fyrir fjárreiðum sínum sem og því að þeir hafi engra beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta í stjórnarstörfum. Af því tilefni er kannske ástæða til að minna enn á að þeir sem a. m. k. að nafni til eru höfundar þessa frv. hafa sjálfir verulegra hagsmuna að gæta. Sama máli skilst mér að gegni um hæstv. landbrh. Nú spyr ég: Taka þessir máttarstólpar framsóknarheimspekinnar mark á hv. 5. þm. Vestf.? Telja þeir að það sé eðlileg krafa, fram borin af hv. 5. þm. Vestf., að þeir sjái sóma sinn í því að sitja a. m. k. hjá við afgreiðslu þessa máls og láta þá öðrum eftir að útkljá það að svo miklu leyti sem um beina fjárhagslega hagsmuni þeirra er að ræða?

Herra forseti. Ég hef ekki meira um þetta að segja að sinni. Það er ekki við því að búast að hægt sé að fara ofan í saumana á þessu í smáatriðum við 1. umr. þegar sett er fram jafnítarlegt mál. Það hefur verið í umfjöllun vikum, mánuðum og misserum saman utan Alþingis, en alþm. er sýnd sú virðing að ræða þetta mál eftir að þeir hafa fengið tækifæri til að renna yfir það augum eina kvöldstund. Hitt er svo annað mál að augljóslega þarf þetta mál að fá mjög rækilega og ítarlega umfjöllun í landbn. þingsins. Það er augljóst að þetta mál þarf að senda samkv. venju og hefð til umsagnar fjölmargra fulltrúa neytenda. Reyndar væri ekki óeðlilegt að senda það beint til nýstofnaðra samtaka bænda, þ. e. sauðfjárbænda og kúabænda, og reyndar ýmissa annarra aðila svo sem eins og þeirra fáu framleiðenda sem eru utan hins hefðbundna landbúnaðarkerfis og á ég þá við framleiðendur eggja, alifugla og svína. Sjálfsagt mál er að senda þetta neytendasamtökum. Sjálfsagt mál er að senda þetta til umsagnar til Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og hugsanlega Verkamannasambands Íslands. Og af því að hér er mikið fjallað um verslun og viðskipti með landbúnaðarafurðir er auðvitað sjálfsagt að senda þetta til rækilegrar umfjöllunar til Verslunarráðs Íslands sem telur sig vera háborð einkaframtaksins og reyndar hagdeild Sjálfstfl. þegar kemur að því að gera tillögur um hvernig megi draga úr bákninu.