21.11.1977
Sameinað þing: 20. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

Minnst látins þingmanns

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Hannes Jónsson fyrrv. alþm. andaðist í Reykjavík s.l. fimmtudag, 17. nóv., á áttugasta og fjórða afmælisdegi sinum. Hannes Jónsson var fæddur í Þórormstungu í Vatnsdal 17. nóv. 1893. Foreldrar hans voru Jón bóndi þar, síðar á Undirfelli og aftur í Þórormstungu Hannesson bónda á Haukagili í Vatnsdal Þorvarðssonar og kona hans, Ásta Margrét Bjarnadóttir bónda í Þórormstungu Snæbjarnarsonar. Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri vorið 1915, var á samvinnunámskeiði á Akureyri síðari hluta vetrar 1915–1916 og við nám í Samvinnuskólanum veturinn 1918–1919 og lauk þaðan burtfararprófi um vorið. Hann var sundkennari í Austur-Húnavatnssýslu 1909–1915, starfsmaður Sláturfélags Austur-Húnvetninga 1915–19l7, endurskoðandi þess 19l8 og forstjóri 1918– 1922. Árið 1923 varð hann kaupfélagsstjóri Kaupfélags Vestur-Húnvetninga á Hvammstanga og gegndi því starfi til ársloka 1933. Hann rak bú í Kirkjuhvammi á Vatnsnesi 1929–1948 og í Þórormsstungu árið 1943. Á tímabilinu 1938–1941 var hann á vegum Landsbanka Íslands forstjóri síldarverksmiðjunnar í Nesi í Norðfirði, vann jafnframt við endurskoðun í Landsbankanum og var fulltrúi bankans í stjórn hlutafélagsins Alliance 1939–1941. Á þessum árum rak hann jafnframt síldarútgerð frá Norðfirði með leiguskipum frá Færeyjum. Fulltrúi í endurskoðunardeild fjmrn, var hann 1943–1963. Leyfi frá því starfi fékk hann frá 1. nóv. 1960 til 1. júní 1962 og var þann tíma sveitarstjóri í Ólafsvik. Eftir 1963 vann hann ýmis endurskoðunarstörf, m.a. fyrir bændasamtökin.

Hannes Jónsson var kosinn alþm. Vestur-Húnvetninga árið 1927 og átti sæti á Alþingi til 1937, á 12 þingum alls. Yfirskoðunarmaður ríkisreikninga var hann kjörinn á þingunum 1930–1933. Hann var formaður mþn. um skipulag og sölu landbúnaðarvara 1932–1934. Endurskoðandi Síldarverksmiðja ríkisins var hann 1935–1939. Í stjórn Byggingarsamvinnufélags starfsmanna stjórnarráðsins átti hann sæti 1950–1964 og gjaldkeri þess öll árin.

Nú eru liðnir fjórir tugir ára síðan Hannes Jónsson hvarf af Alþ. Á því tímabili, sem hann sat á þingi, var oft stormasamt í stjórnmáladeilum, jafnt innan þings sem utan. Í þeim átökum kvað allmikið að Hannesi Jónssyni, enda var hann jafnan ákveðinn í skoðunum og einarður. Hann var í Framsfl. fram undir árslok 1933, en þá skildu leiðir með honum og flokknum vegna málefnaágreinings. Varð hann þá einn af stofnendum og forvígismönnum Bændaflokksins og var einn manna kjördæmiskjörinn þm, hins nýja flokks næsta vor. Hann tók allmikinn þátt í umr. á þingi, átti hér sæti í fjvn., samgn, og fjvn. og hafði mest afskipti af málum sem heyrðu undir þær n., en einnig landbúnaðarmálum og menntamálum. Ævistarf Hannesar á öðrum vettvangi var stjórn á rekstri af ýmsu tagi, en þó lengst og mest umfjöllun reikninga og endurskoðunarstörf, sem hann rækti af atorku og glöggskyggni og sinnti að nokkru leyti til æviloka.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Hannesar Jónssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]