07.12.1976
Sameinað þing: 30. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

48. mál, litasjónvarp

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég tel nokkra bót að því, að á borð okkar hefur borist þessi skýrsla sem hér var úthlutað og í máli hæstv. menntmrh. hafa komið fram upplýsingar um skýrsíu sem tveir starfsmenn sjónvarpsins hafa unnið. Þá er hægt að ræða þessa þáltill. Ellerts B. Schram, því að einmitt tillgr. hljóðar upp á það að samþ. skýrslu sem við höfðum ekki séð, og ef við hefðum gert það, þá kynni að vera að við keyptum köttinn í sekknum, þannig að þessi till. er fædd fyrir tímann. Hér ræði ég um skýrslu þá sem Pétur Guðfinnsson og Hörður Frímannsson í sjónvarpinu hafa unnið. Álit milliþn., sem hér er komið á borðin okkar, er samið upp úr þeirri skýrslu.

Ég hef haft tækifæri til þess að skoða þessa skýrslu úr sjónvarpinu og það er sannarlega löng og ítarleg lýsing á áhuga a.m.k. tveggja sjónvarpsmanna, líklega allra starfsmanna sjónvarpsins, á því að nú verði sett á stofn raunverulegt litasjónvarp á Íslandi, og forsendan er gefin í þessari skýrslu, að flestöll tæki, ekki einasta sjónvarpstæki inni á heimilunum, heldur kannske enn þá fremur tækin í sjónvarpinu, séu á síðasta snúningi. Ef þessi forsenda stenst, þá er þetta náttúrlega alvarlegt mál, og ef menn trúa því virkilega að ástandið sé svona slæmt, þá ber að „skoða vandlega“, eins og hæstv. ráðh. sagði, hvort ekki sé rétt að haga málum á þá lund sem gert er ráð fyrir í þessari skýrslu þremenninganna. En ef þessi forsenda er ekki rétt, ef niðurstöður hennar eru rangar, þá hrynur náttúrlega hin skýrsían líka.

Ég er ekki dómbær á tæknileg atriði, eins og það hvort svo flókin apparöt annarra manna eins og sjónvarpstæki eða sjónvarpsútsendingarvélar eigi mikið eftir af endingartíma sínum. Vægast sagt þykir mér það nokkuð ósennilegt að allt sé að hrynja. Það er vafalaust skynsamlegt að endurnýja eitthvað af þessu og hafa þá auga með möguleika á litaútsendingum, en ég held að við eigum ekki að vera með neitt óðagot í málinu.

Það er verið að tala um fjáröflunarleið af þessum litasjónvörpum. En það er náttúrlega gjaldeyriseyðsla líka og þetta er geipileg fjárfesting. Það rýðir ekkert að loka augunum fyrir því. Í sjö áföngum, sem getið er um í skýrslu sjónvarpsmannanna, eru settar fram tölur upp á 550 millj. bara í sjónvarpinu sjálfu, í endurnýjun tækjabúnaðar eða nýjum tækjum. Söluverð tækja í búð er annað en raunverulega er gengið út frá þarna í skýrslunni. Ég held að góðar tegundir af sjónvarpstækjum kosti um 350 þús. kr. í dag.

Það er verið að tala um að það sé heftur innflutningur á sjónvarpstækjum. En ég hef farið hér í örfáar búðir og spurt um litasjónvarpstæki af tegundum sem mér hefur verið kunnugt um að voru góð, og þau kosta 340–350 þús. stykkið, og það hefur ekki staðið neitt á því að útvega mér þau. Sums staðar hafa þau verið inni á lager og jafnvel útstillt. Þetta sýnir hvað verslunarþjónusta hér er reglulega góð.

Dreifing á sjónvarpsefni í lit er enn fremur nokkrum örðugleikum bundin og eitthvað dýrari. Endurbygging sjónvarpsdreifikerfisins kostar líka mikið fé, enn fremur menntun sjónvarpsmanna og endurbygging dreifikerfisins.

Flm. þessarar till., sem hér er til umr., hv. þm. Ellert B. Schram, og enn fremur skýrslugerðarmenn allir og hæstv. menntmrh. Vilhjálmur Hjálmarsson, þeir hafa lagt áherslu á að þetta kunni að vera leiðin sem heppileg sé til þess að koma sjónvarpi út til þeirra sem ekki hafa sjónvarp enn þá. En ég trúi því varlega að þetta sé heppilegasta leiðin. Það hefur næstum ekkert verið gert til þess að koma sjónvarpi til nýrra notenda síðan 1973, það hafa einungis allir verið fremur jákvæðir, og ofan á þetta bætist það að dreifbýlisþm. og mjög vakandi fyrir málefninu er búinn að vera menntmrh. meira en hálft kjörtímabil, hæstv. menntmrh. Vilhjálmur Hjálmarsson.

Það er einungis búið að reisa á þessu tímabili eina 6 millj. kr. stöð í Álftafirði vestra. Það hafa verið svæfðar till. á Alþ. frá allmörgum þm., m.a. frá öllum félögunum í milliþn., Steingrími Hermannssyni, Inga Tryggvasyni og Sverri Hermannssyni, þannig að verkefnaröð og tímasetning þeirra í skýrslunni gæti raskast líka Þeir, sem ekki hafa sjónvarp, hafa ekki fyrstir hag af litasjónvarpi. Þeir fyrstu, sem hafa hag af stofnsetningu litasjónvarps, eru náttúrlega kaupmennirnir, sem versla með litasjónvarpstækin. Verðlagsstjóri hefur sett upp verðlagsútreikning litasjónvarps að minni ósk, og kemur þar í ljós að af heildarsöluverði sjónvarpa út úr búð eru tolltekjurnar 23.44%. Það er sá hlutur sem færi til Ríkisútvarpsins. En hlutur verslunarinnar er 17.88% af heildarsöluverði sjónvarpstækianna, þannig að þetta er mjög mikið fjárhagsspursmál fyrir verslunina, að fá þarna 40—50–60 þús. kr. á hvert litasjónvarpstæki sem tekst að selja. Ég tek það fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að vafalaust skila þessir verslunarmenn, eins og lög standa til, allir sínum 20% söluskatti til ríkisins af hverju einasta tæki. Þetta er hlutur verslunarinnar. En þessa tölu vantaði í ræðu hv. flm. Þessa tölu vantaði í skýrslu sjónvarpsmanna, í skýrslu þremenninganna og í ræðu hæstv. menntmrh. Hún hefur vafalaust ekki hvarflað að þeim þegar þeir voru að móta sína afstöðu og „skoða málið“. En þó kynni það að hafa aðstoðað einhverja aðra af þeim fjölmörgu í þjóðfélaginu sem „nú eru að pressa á menntmrh.“, eins og fram kom í ræðu hans, um það að láta litasjónvarp ná fram að ganga. Þetta er býsna sniðugur gangur mála við kynningu á litasjónvarpínu.

Auðvitað kemur litasjónvarp, en ég held að það liggi ekkert á því, og ég hef mikla vantrú á að þetta sé rétta leiðin til þess að koma sjónvarpi til allra landsmanna., eins og nafnið á skýrslu þremenninganna í milliþn. hv. þm. her með sér. Ég held að þarna sé verið að seilast langt yfir skammt. A.m.k. er þetta fjárfrekari og seinlegri leið en sú, sem ég og nokkrir fleiri þm. höfum bent á, að marka sérstakan tekjustofn — hluta af afnotagjöldum — til þess að koma sjónvarpi til allra landsmanna, og þá leið mun ég rökstyðja í umr. um till. okkar.

Það kemur auðvitað einhvern tíma að því að litasjónvarp verði að veruleika á Íslandi. En ég held að það liggi ekkert á að hraða sér. Þróunin er ör og framfarir í gerð þessara tækja og seinna eigum við kost á fullkomnari tækjum. Ég hygg að þessi fjárfesting verði gífurleg og fjármagninu verði betur varið til annarra hluta. Ég hef ekki trú á því, að féð sé svo laust í vösum manna og ekki geymt í banka eða arðbærum hlutum, að þá megi alveg eins ná því á annan hátt. Það er vafalaust gaman að horfa á sjónvarp í lit. En fólkið á þeim 400 sveitabæjum sem hefur ekki sjónvarp, óskar ekki endilega eftir litasjónvarpi. Því er alveg sama þó að því væri einungis gefinn kostur á að horfa í svarthvítt. Það hefur ekki bagað mig að horfa á svarthvítt, og ég er nærri feginn að manndráp eru ekki sýnd í litum. Það er þá helst þegar knattspyrnukappleikir eru sýndir að ég lendi í nokkrum vanda að greina sundur búningana, og ég tel að hinn litskrúðugi búningur KR-inga mundi sóma sér mjög vel í litasjónvarpi og ekki minna mann á sebrahesta. Umr. frestað.