19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

Minning látinna fyrrv. þingmanna

forseti (StgrSt):

Áður en þessum fundi lýkur, vil ég minnast fáum orðum látins fyrrverandi þingmanns, Ólafs Proppé, sem andaðist hér í bænum í dag, 63 ára að aldri.

Ólafur Proppé fæddist í Hafnarfirði 12. maí 1886, sonur Claus Eggerts Diedrichs Proppés, bakara þar, og konu hans, Helgu Jónsdóttur, bónda á Grjóteyri í Kjós, Jónssonar. Hann gekk í Flensborgarskóla og brautskráðist þaðan árið 1900, stundaði síðan verzlunarnám í Edinborg í Skotlandi, Reykjavík og Ólafsvík á árunum 1901–1906, gerðist síðan verzlunarstjóri á Sandi, gegndi því starfi til 1914, fluttist þá að Þingeyri í Dýrafirði og stýrði þar verzlun, sem hann var meðeigandi í, til 1920. Þá fluttist hann til Reykjavíkur og hafði þar á hendi forstjórastörf í sama firma. Um alllangt skeið var hann einn af framkvæmdarstjórum Sambands íslenzkra fiskframleiðenda. Vestur-Ísfirðingar kusu hann á þing 1919, og átti hann sæti á 4 þingum, 1920, 1921, 1922 og 1923. Um hríð var hann ræðismaður fyrir Mexico.

Ólafur Proppé var einkar vel látinn maður og stakt prúðmenni í allri framgöngu. Þeir, sem þekktu hann, lýsa honum svo, að hann hafi verið gæðamaður, sem öllum vildi greiða gera, mjög vel að sér í öllu, er laut að verzlunarmálum og viðskipta, greindur og tillögugóður og dugnaðarmaður í starfi, meðan hann naut sín, en hann var mjög farinn að heilsu hin síðari árin.

Ég vil biðja háttvirta þingmenn að votta minningu þessa merka manns virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]